-Auglýsing-

Höfum ekki efni á að eldast án breytinga

Íslendingar ganga mjög langt þegar kemur að lækningum á öldruðum. Forstjóri Landspítalans segir að OECD segi óbeint að þjóðin hafi ekki efni á slíku fyrirkomulagi. Fyrrverandi forstjóri spítalans segir að umræðu sé þörf.
“Menn segja stundum að hér á landi sé miklum peningum veitt í heilbrigðiskerfið. Hluti af skýringu á því getur verið að við séum að ganga lengra en aðrir þegar kemur að lækningum, til dæmis meðal aldraðra,” segir Magnús Pétursson, fyrrverandi forstjóri Landspítalans. Í grein sem hann hefur skrifað og birtist á vefsíðu Landspítalans fer hann meðal annars yfir greiningu OECD á íslensku heilbrigðiskerfi og bendir á skýringar á kostnaði. Meðal annars bendir hann á að Íslendingar geri mun oftar kransæðaþræðingar, sem yfirleitt eru gerðar á eldra fólki, heldur en Svíar.

Ef tíðni kransæðaþræðinga væri sú hin sama og í Svíþjóð væri kostnaður heilbrigðiskerfisins um 66 til 112 milljónum krónum lægri en nú, svo dæmi sé tekið.

“Hér eru gerðar opnar hjartaaðgerðir á áttræðu fólki og þaðan af eldra, og líklega er það sjaldgæfara í öðrum löndum hér í kringum okkur. Bretar segja bara tæpitungulaust að eitt gott ár til viðbótar hjá svo gömlu fólki megi ekki kosta meira en þrjátíu til fjörutíu þúsund evrur. Hér leggjum við hins vegar allt undir, mér liggur við að segja sem betur fer. Þetta þarf hins vegar að ræða opinskátt,” segir Magnús.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans og framkvæmdastjóri lækninga, segir að óbeint segi skýrsluhöfundar OECD að Íslendingar þurfi að setja sér viðmið í þessum málum. Þjóðin eldist og telja þeir að til lengri tíma geti Íslendingar ekki gengið jafn langt í lækningum á öldruðum og gert hefur verið. “Hér hefur ekki farið fram alvöru umræða um þessi mál svo mér sé kunnugt um,” segir Björn. Hann telur hins vegar styttast í að ráðamenn þurfi að ræða þessi mál af alvöru. “OECD bendir óbeint á að við höfum ekki efni á því að eldast mikið meira með óbreyttu fyrirkomulagi,” segir hann.

“Þetta hefur verið ósköp lítil og mjög erfið umræða. Mér finnst meiri virðing vera borin fyrir gömlu fólki hér á landi heldur en ég hef kynnst erlendis og þessi mál því í skynsamlegum farvegi hér á landi. OECD segir að við höfum ekki efni á þessu mikið lengur. Það sé bara þannig að við séum að eldast og fjöldi aldraða vaxi, sem og kostnaðurinn í kringum heilbrigðiskerfið. Þetta kunni að taka allt ríkiskerfið undir sig ef við höldum svona áfram,” segir hann.

karen@frettabladid.is

- Auglýsing-

Fréttablaðið 04.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-