-Auglýsing-

Höfnum lækkun launa

Erla Björk Birgisdóttir fjallar um stöðu hjúkrunarfræðinga: “Farið er í saumana á samskiptum deiluaðila í málefnum skurð- og svæfingarhjúkrunarfr. Laun lækkuð og öryggi sjúklinga ógnað.”

Mikið hefur verið fjallað um uppsagnir skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) að undanförnu, staðreyndir flogið á milli og erfitt fyrir fólk að átta sig á atburðum. Eftirfarandi eru fyrirhugaðar breytingar og breytingatillögur sem snúa að Fossvoginum en ekki er um sömu breytingar að ræða á Hringbrautinni, þó vissulega séu þær jafnalvarlegar.

Nokkrum dögum áður en sviðsstjóri skurð-, gjörgæslu- og svæfingasviðs LSH afhenti hjúkrunarfræðingunum uppsagnabréf á núverandi vaktalínu boðaði hann til kynningarfundar um tilvonandi breytingar. Á þeim fundi kom fram að spara þyrfti 100 milljónir á sviðinu. Þó þess væri getið stuttlega á fundinum að með fyrirhuguðum breytingum færðist vinnutilhögunin nær vinnutilskipun EES fór mesta púðrið í að hvetja til samstöðu um að ná fram þessum sparnaðaráformum.

Fyrsta tillaga stjórnenda LSH: Skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingum er breytt úr dagvinnufólki (sem tekur bakvaktir) í vaktavinnufólk. Hjúkrunarfræðingar verði á bakvakt heima með síma frá klukkan 23 – 7:30 alla daga vikunnar. Viðbragðstími eykst úr 3 mínútum í 30 mínútur. Ástæða breytinganna er sögð vera vinnuverndarsjónarmið og sparnaður. Áhrif breytinganna eru minnkað öryggi sjúklinga, lægri heildarlaun og meira vinnuálag hjúkrunarfræðinganna. Hefur í för með sér uppsagnir 96 af 104 hjúkrunarfræðingum innan skurð-, gjörgæslu- og svæfingasviðs LSH (þær sem ekki sögðu upp taka ýmist ekki vaktir og var þ.a.l. ekki sagt upp vaktalínunni, eru veikar eða í barnsburðarleyfi).

Önnur tillaga stjórnenda LSH: Einn skurðhjúkrunarfræðingur og einn svæfingarhjúkrunarfræðingur verði til staðar í húsinu og einn skurðhjúkrunarfræðingur heima með síma alla daga vikunnar. Enn stendur til að breyta skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingum í vaktavinnufólk. Ástæður breytinganna áfram sagðar vera vinnuverndarsjónarmið en nú hefur sparnaðurinn dottið út og í staðinn er önnur ástæðan sögð vera aukið öryggi sjúklinga. Þetta hefur þau áhrif að launin lækka og vinnuálag eykst jafnvel enn meir en við fyrstu tillögu.

Þriðja tillaga stjórnenda og efni einstaklingsviðtalanna: Vaktafyrirkomulag verði sambærilegt og í tillögu númer tvö. Búið er að bæta við bílastyrk upp á 9.000 krónur á mánuði sem á að vera sú upphæð sem kaupir okkur til að draga uppsagnirnar til baka. Með nýjustu tillögunni hafa þó komið enn betur fram áform stjórnendanna og virðast þau jafnvel enn lágkúrulegri en áður. Auk þess að auka á vinnuálag og lækka launin sýnist okkur áform stjórnenda einnig vera að skerða rétt okkar til uppsafnaðs vetrarfrís. Mikið var reynt til að fá hjúkrunarfræðingana til að skrifa undir „móttöku á kynningarbréfi“ sem var þó í öllum smáatriðum mun líkara samningi en kynningarblaði.

Tillaga skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga: Óbreytt fyrirkomulag á vinnutilhögun skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga sem felur í sér að tveir skurðhjúkrunarfræðingar og einn svæfingarhjúkrunarfræðingur eru til staðar á spítalanum á næturnar. Ef einhverju ætti að breyta væri nær að fleiri fagmenn yrðu ráðnir til starfa svo nægur mannskapur sé til að hafa sama fyrirkomulag um helgar. Þetta hefur í för með sér aukið öryggi sjúklinga án þess að auka vinnuálag og lækka laun hjúkrunarfræðinga og fagleg vinnubrögð yrðu áfram fyrsta flokks.

- Auglýsing-

Á skurðstofum LSH vinnur samhentur hópur sérfræðinga með áralanga starfsreynslu og sérnám. Hjúkrunarfræðingar undirbúa skurðstofur fyrir aðgerðir og skipta mínútur þar máli fyrir líf sjúklings. Fækkun á starfsliði hefur því í för með sér lengri undirbúningstíma og aukið vinnuálag sem getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir sjúklinga, og leyndan kostnað fyrir aðrar deildir LSH.

Eitt stærsta aðdráttarafl skurðstofanna hefur verið vinnutíminn. Hann og góður starfsandi hafa haft hvað mest að segja til að stuðla að þeim háa starfsaldri sem er á skurðstofum LSH. Með því að breyta skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingum í vaktavinnufólk eru stjórnendur LSH að kippa einu aðalaðdráttaraflinu í burtu.

Til umhugsunar: Íslendingum fjölgar og þeir eldast, fíkniefnaneysla og glæpir aukast. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á slysa- og veikindatíðni og þar af leiðandi á bráðaaðgerðir á skurðstofum LSH. Heilbrigðisráðherra státar af heimsklassa þjónustu og fagmennsku. Á sama tíma er heilbrigðiskerfið í stöðugu svelti. Fagfólk flykkist úr stéttinni vegna of mikils vinnuálags og of lágra launa miðað við menntun, hæfni og starfsreynslu. Þeir sem eftir eru eru við það að bugast undan álagi. Ég skora á stjórnendur LSH að sjá að sér og draga uppsagnir á vaktalínum skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga til baka. Ég skora á heilbrigðisráðherra að hækka laun hjúkrunarfræðinga í komandi kjarasamningum til jafns við sambærilegar stéttir ríkisins og ég skora á Vilhjálmsnefndina að kíkja í heimsókn á deildir sjúkrahússins, þiggja kaffibolla og fá hugmyndir fólksins á gólfinu um hvernig hægt væri að spara innan heilbrigðiskerfisins.

Höfundur er skurðhjúkrunarfræðingur.

Morgunblaðið 27.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-