-Auglýsing-

Hjólað fyrir hjartað – Vorkvöldin í Reykjavík

Vorið var kalt en kvöldin voru einstaklega falleg í Reykjavík og nágrenni þetta árið. Þegar litið var í átt að Reykjanesi mátti sjá eldspúandi gíg og einstaklega fallega eldrauða eldstróka. Þegar svo litið var til sólarlags má segja að þau hafi verið hvert öðru fegurra.

Kvöldin þetta vorið voru einstaklega falleg og litadýrðin mikil.

Við þessar aðstæður var ótrúlega skemmtilegt, fallegt og ævintýrlegt að hjóla á rafhjóli um Reykjavíkursvæðið þetta vorið. Við Léttfeti fórum víða og kappið var töluvert, stundum full mikið. Ég átti ekki von á því en mér tókst að hjóla 720 km í maí. Mér fannst þetta töluvert mikið afrek en það verður að segjast eins og er að ég var orðin dálítið dasaður undir lok mánaðarins. Það hefði í sjálfu sér ekki átt að koma mér sérlega mikið á óvart þar sem ég er hjartabilaður. En svona er þetta stundum og ég gleymi mér í gleðinni yfir því að hjóla.

Ég hafði tekið eftir því síðustu dagana í maí að Garmin úrið mitt var að gefa mér til kynna að það væri ekki mikil orka eftir á tankinum hjá mér. Í úrinu er nefnilega skemmtilegur fídus sem Garmin kallar Bodybatterí og það á að sýna í hvernig standi maður er orkulega séð.

Það er skemmst frá því að segja að þrátt fyrir góðan nætursvefn þá lækkaði alltaf talan. Undir lok mánaðarins var ég farinn að stytta aðeins ferðirnar mínar í þeirri von að orkan þokaðist upp en það gekk hægt. Eftir miklar vangaveltur þá komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hafði gleymt því að ég væri hjartabilaður og hefði gengið full hart fram í hjólreiðunum.

En svona er þetta og kerfið sér svolítið um sig sjálft og lausnin var ekki ýkja flókin, hvíla sig. Þannig að ég byrjaði júnímánuð á því að hvíla mig og treysta því sem líkaminn minn var að segja Garmin úrinu og mér. Ég notaði tímann og sinnti viðhaldi og fá nýtt dekk undir Léttfeta og fara yfir það sem máli skiptir enda búinn að rúlla tæpa 4.000 km. Hvíldin gerði mér gott og ég tók stutta og létta hringi inn á milli og hef notið útiverunnar nú í júní. Gosið hefur skipt um takt og strókarnir sjást ekki sem stendur. Svo tekur gosið góðar rispur inn á milli, alveg eins og ég.

En júnímánuður var nærandi og alltaf er jafn skemmtilegt að hjóla. Nú er ég búinn að ná orkunni vel upp og hjartað orðið sátt við mig. Þannig að við Léttfeti rúllum léttir í lundu inn í sumarið sem byrjað er af fullum krafti.  

Þetta minnir mig líka á að ég þarf að passa upp á mig og svona er ég alltaf að læra eitthvað nýtt og líkaminn kann svo sannarlega að láta vita en kúnstin er sú að við mannfólkið þurfum að læra að hlusta.

Eitt er hinsvegar ljóst og það er að lífsgæði mín í þessu hjólabrölti mínu síðasta árið hafa tekið stökk og ég er allur styrkari og sperrtari með sjálfan mig og það er dýrmætt. Grunnurinn að þessu öllu saman er að vera á rafhjóli því án þess að hafa rafmagnið hefði þetta verið óhugsandi. Ég hinsvegar þarf að hafa í huga að ég er hjartabilaður og get ekki gengið jafn hart fram í hjólreiðunum eins og hausinn minn langar stundum. Aðalatriðið er að njóta og það geri ég svo sannarlega.

Verum góð við hvort annað og njótum þess að vera úti að hjóla.

Björn Ófeigs.        

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-