-Auglýsing-

Hjartaþræðingar: Margir á biðlista

HjartaþræðingBiðlisti í hjartaþræðingu á Landspítalanum er lengri æskilegt er að sögn yfirlæknis. Hátt í þrjú hundruð sjúklingar bíða eftir því að komast í þræðingu en listinn safnaðist upp á síðastliðnu ári.

Um 270 sjúklingar bíða þess nú að komast í hjartaþræðingu á Landspítalanum. Er það óvenjulega mikill fjöldi.

-Auglýsing-

„Biðlistinn í hjartaþræðingu er langur núna og lengri en hann hefur verið eða við teljum æskilegt að hann sé. Vonandi mun hann styttast á næstu mánuðum og við erum að vinna að því,“ segir Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, yfirlæknir hjartaþræðinga á Landspítalanum.

Biðlistinn hefur safnast upp á síðastliðnu ári af ýmsum orsökum að sögn Ingibjargar. Sumrinu sé ekki eingöngu um að kenna, þá hægist á starfseminni en listinn hafi verið að safnast upp á lengri tíma en það.

„Það eru ýmsar orsakir, til dæmis mannafli og tækjabúnaður að einhverju leyti. Í vetur stendur til að fá nýja þræðingastofu og þá verðum við komin með aðra öfluga þræðingastofu sem í framtíðinni mun vonandi hjálpa til. Auðvitað þarf líka að vera mannafli og þekking fyrir hendi.“

Forgangsraðað á lista

Spurð hvort sjúklingum sé að fjölga segir Ingibjörg þjóðina vera að eldast og með vaxandi aldri fjölgi í þeim sjúklingahópi sem kann að þurfa kransæðaþræðingu. „En það hefur ekki orðið nein stór aukning upp á síðkastið sem skýrir þennan biðlista.“

- Auglýsing-

Um sjö hjartaþræðingaraðgerðir eru framkvæmdar á spítalanum á dag að meðaltali, eða um 2.000 á ári.

Ákveðin forgangsröðun er á listanum en þeir sem eru með óstöðugan sjúkdóm ganga fyrir og þurfa ekki að bíða lengi, eins er með þá sem liggja inni. Ingibjörg segist aðspurð ekki vita til þess að að fólk sé að hrökkva upp af á meðan það bíður. „Ef fólk verður bráðveikt kemst það inn á sjúkrahús og í bráðaþræðingu.“

Ingibjörg er bjartsýn á að þau nái að vinna á biðlistanum en ef aðrir þættir komi upp sé ekki hægt að lofa neinu. Aðspurð hvort ástandið á Landspítalanum undanfarið gæti spilað þar inn í svarar Ingibjörg:

„Þetta er í sjálfu sér mjög sérhæft starf sem fer fram á þræðingastofunni og sérhæfður hópur lækna sem sinnir því. Það hefur ekki haft mikið að segja enn sem komið er en hins vegar ef þessi sérhæfði hópur þræðingalækna þarf í auknum mæli að fara að sinna öðrum mjög dreifðum verkefnum þá gæti það vel gerst, já.“

Morgunblaðið 06.09.2013

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-