-Auglýsing-

Hjartastopp hjá Knattspyrnumönnum

Millj­ón­ir manna fylgd­ust agndofa með í sjón­varp­inu þegar danski landsliðsmaður­inn Christian Erik­sen fór í hjarta­stopp í miðjum lands­leik Dana og Finna á dögunum. Sem betur fer fór betur en á horfðist og Christian nú útskrifaður af sjúkrahúsi með ígræddan bjargráð.

Christian Eriksen í góðum gír á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sm haldið var í Rússlandi 2018. Mynd/Shutterstock

Morgunblaðið og Mbl.is voru með frábæra umfjöllun um hjartastopp knattspyrnumanna um liðna helgi og fer hluti hennar hér að neðan.

Fáir tengdu þó bet­ur við það sem átti sér stað hjá Christian Eriksen en Eng­lend­ing­ur­inn Fabrice Muamba sem sjálf­ur fór í hjarta­stopp í leik með Bolt­on Wand­erers gegn Totten­ham Hot­sp­ur í ensku bik­ar­keppn­inni árið 2012, aðeins 23 ára að aldri.

Eins og með Erik­sen þá fylgd­ust marg­ar millj­ón­ir manna með því ger­ast í beinni sjón­varps­út­send­ingu. Mun lengri tíma tók að koma Muamba aft­ur til lífs en hjarta hans sló ekki í 78 mín­út­ur. Lækn­ar beggja liða og hjarta­sér­fræðing­ur úr röðum áhorf­enda hlúðu heil­lengi að Muamba á vell­in­um áður en hann var flutt­ur á sjúkra­hús. Hjart­astuðtæki var marg­beitt, bæði á vell­in­um og í sjúkra­bíln­um. Á end­an­um tókst mönn­um að fá hjartað til að slá og var leik­mann­in­um haldið sof­andi í önd­un­ar­vél næstu daga.

Tveim­ur dög­um síðar var hjartað farið að slá eðli­lega án aðstoðar og Muamba ekki leng­ur í lífs­hættu enda þótt ástand hans væri áfram al­var­legt. Fjór­um dög­um eft­ir áfallið staðfesti lækn­ir að meðferðin gengi von­um fram­ar og Muamba ætti góða mögu­leika á að lifa eðli­legu lífi. Mánuði síðar var hann út­skrifaður af spít­al­an­um með bjargráð en að öðru leyti heil­brigður. Muamba lagði þó skóna á hill­una að lækn­is­ráði um haustið en hef­ur verið viðloðandi knatt­spyrnu síðan; nú sem ung­lingaþjálf­ari hjá Rochdale.

Tóm­as Guðbjarts­son, pró­fess­or í hjarta­lækn­ing­um og yf­ir­lækn­ir á Land­spít­al­an­um, seg­ir bata Muamba mjög merki­leg­an en skýr­ing­in liggi öðru frem­ur í stöðugu hjarta­hnoði og fjöl­mörg­um hjart­astuðum sem leikmaður­inn fékk en þannig var unnt að koma súr­efni upp í heil­ann. 

- Auglýsing-

Að sögn Tóm­as­ar er ytra hjarta­hnoð al­gjört lyk­il­atriði við þess­ar aðstæður. Oft­ast er um að ræða svo­kallað sleglatif eða slegla­hraðtakt sem ger­ir það að verk­um að hjartað nær ekki að dæla blóði, súr­efni berst ekki til heil­ans og sjúk­ling­ur­inn miss­ir meðvit­und. „Beiti maður ytra hjarta­hnoði og þrýsti þannig á vinstra sleg­il­inn er mögu­legt að kreista blóð út úr hon­um og tryggja súr­efn­is­flæði til heil­ans. Þetta þarf ekki að vera mikið blóð til heil­ans til að varðveita heil­a­starf­sem­ina.“

Arf­geng­ur sjúk­dóm­ur

Ekki hafa all­ir verið svona heppn­ir. Þekkt­asta dauðsfallið sem borið hef­ur að með þess­um hætti er án efa Marc-Vi­vien Foé, 28 ára gam­all landsliðsmaður Kam­erún, sem hneig niður seint í leik gegn Kól­umb­íu í undanúr­slit­um álfu­keppn­inn­ar árið 2003 í Lyon í Frakklandi. Eins og með Erik­sen og Muamba urðu fjöl­marg­ir vitni að því at­viki í beinni út­send­ingu sjón­varps. Mönn­um var strax ljóst að al­vara væri á ferðum og þeir sem sáu gleyma aldrei líf­laus­um lík­ama Foés liggj­andi á vell­in­um. Til að byrja með var hlúð að hon­um á staðnum en þegar það bar ekki ár­ang­ur var leikmaður­inn bor­inn af velli á bör­um, þar sem menn freistuðu þess að hnoða hann og blása í hann lífi í 45 mín­út­ur. Foé var úr­sk­urðaður lát­inn skömmu eft­ir kom­una á sjúkra­hús. Tvær krufn­ing­ar þurfti til að finna dánar­or­sök­ina sem var arf­geng­ur hjarta­sjúk­dóm­ur, hjarta­vöðva­kvilli, sem veld­ur því að hjartað stækk­ar og eyk­ur lík­urn­ar á skyndi­dauða við mikla áreynslu.

Síðar kom fram að Foé hafði verið slapp­ur fyr­ir leik­inn og þjálf­ari Kam­erúns, Win­fried Schä­fer, hafði áform um að taka hann af velli nokkr­um mín­út­um áður en hann hneig niður vegna þess að hon­um fannst hann orðinn þreytt­ur. Foé mátti ekki heyra á það minnst; hann ætlaði sér að ljúka leikn­um.

Þrátt fyr­ir and­mæli leik­manna var ákveðið að úr­slita­leik­ur­inn milli Kam­erúns og Frakk­lands skyldi fara fram og ógleym­an­legt er hófstillt fagn Thierrys Henrys, sem gerði gull­mark fyr­ir Frakka í fram­leng­ingu, þegar hann drúpti höfði og benti til him­ins. Fyr­irliðar liðanna, Marcel Desailly og Rigo­bert Song, tóku svo í sam­ein­ingu á móti bik­arn­um. Samstaða, ein­ing og virðing, eins og hún ger­ist best í knatt­spyrnu.

Foé var leikmaður í háum gæðaflokki og lék með Lens og Lyon í Frakklandi og West Ham United og Manchester City á Englandi.

121 til­vik á öld­inni

And­lát Foés í miðjum kapp­leik er alls ekk­ert eins­dæmi; bara á þessu ári eru tvö skráð til­vik, sam­kvæmt Wikipediu, þar sem at­vinnuknatt­spyrnumaður hef­ur lát­ist af völd­um hjarta­stopps, Bras­il­íumaður og Króati, báðir 24 ára. Þá lést 33 ára Jamaíkumaður í apríl eft­ir að hafa liðið út af í leik en dánar­or­sök ligg­ur ekki fyr­ir. Fjórða dauðsfallið á ár­inu er 23 ára Egypti sem gleypti tungu sína í leik.

Þrjú dauðsföll voru skráð í fyrra og jafn­mörg í hittifyrra, fjög­ur 2018 og sjö 2017, mest af völd­um hjarta­áfalla. Mest eru þetta lítt eða óþekkt­ir leik­menn og fyr­ir vikið fóru þessi mál ekki hátt á alþjóðavett­vangi. Frá upp­hafi til­grein­ir Wikipedia 185 til­vik, þar af 121 á þess­ari öld.

Nokk­ur mál fóru hátt árin eft­ir að Foé féll frá. Árið 2004 lést Ung­verj­inn Miklós Fehér, 24 ára, í leik með Ben­fica gegn Vitória de Guimarães í Portúgal. Hann var þá til þess að gera ný­kom­inn inn á sem varamaður þegar hann féll til jarðar og fór í hjarta­stopp. Ekki tókst að lífga hann við. Bana­mein hans hjarta­vöðva­kvilli – sama mein og hrjáði Foé.

- Auglýsing -

Spán­verj­inn Ant­onio Pu­erta var studd­ur af velli eft­ir að hafa hnigið niður í leik með Sevilla gegn Geta­fe árið 2007. Hann fór aft­ur í hjarta­stopp í klef­an­um og skömmu síðar var hann all­ur. AFP

Sömu sögu er að segja af spænska landsliðsmann­in­um Ant­onio Pu­erta, sem féll niður og lést í leik með Sevilla gegn Geta­fe árið 2007. Hann komst að vísu til meðvit­und­ar aft­ur en fór öðru sinni í hjarta­stopp í bún­ings­klef­an­um skömmu síðar. Pu­erta var flutt­ur á spít­ala, þar sem hann lést tveim­ur dög­um síðar. Hann var aðeins 22 ára.

Nán­ar er fjallað um skyndi­dauða og önn­ur and­lát sem teng­ast knatt­spyrnuiðkun í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. Lesa má um­fjöll­un­ina í heild sinni hér á mbl.is í vefút­gáfu Morg­un­blaðsins.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-