Hjartamiðstöðin

Eitt af meginmarkmiðum Hjartamiðstöðvarinnar er að bjóða einstaklingum með hjarta-og æðasjúkdóma upp á greiðan aðgang að þjónustu fagaðila. Við viljum efla forvarnir og  draga úr vægi hjarta-og æðasjúkdóma í samfélaginu. Við leggjum því ríka áherslu á að liðsinna einstaklingum sem glíma við áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma svo sem ættarsögu, reykingar, háa blóðfitu eða háan blóðþrýsting.  Góð andleg og líkamleg heilsa er forsenda lífshamingju og árangurs í lífinu. Í því samhengi eru veraldleg gæði aukaatriði.

Hjarta-og æðasjúkdómar eru algengasta dánarsorsök Íslendinga og annarra vestrænna þjóða. Þeir eru einnig algengasta orsök skyndidauða meðal fólks á öllum aldri. Þá er algengt að hjarta-og æðasjúkdómar  skerði  lífsgæði fólks og valdi ótímabærri örorku.

Miklar framfarir hafa orðið í greiningu og meðferð hjarta-og æðasjúkdóma á síðustu tveimur til þremur áratugum. Dauðsföllum hefur fækkað og einstaklingar með hjartasjúkdóma lifa lengur en áður með sinn sjúkdóm.

Í baráttunni við hjartasjúkdóma og afleiðingar þeirra er mikilvægt að greiður aðgangur sé að fyrsta flokks sérfræðiþjónustu utan spítala. Lykilatriði er að slík þjónusta sé þverfagleg og til þess fallin að sinna einstaklingnum sjálfum og áhrifum hjartasjúkdóma á andlega og líkamlega líðan, lífsgæði, fjölskyldutengsl og vinnufærni.

Við greiningu hjartasjúkdóma er nauðsynlegt að til staðar sé sérfræðiþekking, tækni og tækjakostur sem gerir kleift að greina helstu hjarta-og æðasjúkdóma fljótt og örugglega. Meðferð sjúkdómanna sjálfra samanstendur oftast af lyfjameðferð og inngripum af ýmsu tagi eins og kransæðavíkkun, gangráðsísetningu eða jafnvel opinni hjartaskurðaðgerð. Lyfjameðferð við hjartasjúkdómum er oft umfangsmikil.

Mikilvægt er að einstaklingar með hjarta-og æðsjúkdóma fái viðeigandi fræðslu og upplýsingar til þess að þeir öðlist skilning á vandamáli sínu, sjúkdómum þeim sem um ræðir og tilgangi meðferðar. Upplýsingagjöf og greiður aðgangur að fræðsluefni og fagaðilum sem veitt geta upplýsingar er því mikilvægur hlekkur í meðferð sjúklinga með hjartasjúkdóma. 

Forvarnir gegna lykilhlutverki í meðferð hjarta –og æðasjúkdóma. Kenna þarf heilbrigðum einstaklingum að tileinka sér lífsmáta sem dregur úr líkum á hjarta-og æðasjúkdómum síðar á ævinni. Fræða þarf ungt fólk um þá þætti sem líklegir eru til þess að valda skaða svo sem reykingar, hár blóðþrýstingur og há blóðfita. Ekki er síður mikilvægt að fræða hjartasjúklinga um lífsmáta og aðgerðir sem þeir geta  beitt sjálfir til þess að draga úr líkum á frekari hjartaáföllum eða versnun hjartasjúkdómsins.  Í þessu tilliti er mikilvægt að hætta alfarið reykingum, stunda reglulega hreyfingu og heilbrigt mataræði.

Nánari upplýsingar á www.hjartamidstodin.is

Sími Hjartamiðstöðvarinnar er 550 3030