-Auglýsing-

Hjartalíf og hugarvíl

Hönd í hönd
Hönd í hönd

Ég kom heim fyrir rúmum tveim vikum síðan eftir um 6 vikna dvöl á sjúkrahúsi, hérlendis og erlendis. Ég get ekki lýst því með orðum hvað það var gott að leggjast upp í rúmið mitt hjá Mjöllinni minni, sofna og vakna heima.

Þetta voru erfiðar vikur bæði fyrir mig og fjölskylduna mína en ótrúlegur fjöldi vina og ættingja gerði mér vistina bærilegri með því að koma í heimsókn og færa mér góðgæti og spjalla.

Sjúkrahúsvistin endaði með því að ég var sendur á Sahlgrenska sjúkrahúsið Í Gautaborg þar sem við vorum í viku og gerðar voru margvíslegar rannsóknir. Niðurstaða þeirra rannsókna varð sú að þeir telja mig ekki þurfa á nýju hjarta að halda og eru það afar gleðileg tíðindi. Það sem hinsvegar kannski skyggði á þessi tíðindi var sú staðreynd að læknarnir þar höfðu engin svör við því hvers vegna niðurstöðurnar voru samt sumar jafn lélegar og raun bar vitni og þeir gátu heldur ekki komið með svör við því af hverju hluti þeirra rannsókna sem gerðar voru hér heima áður en við fórum út kom illa út og sýndi léleg afköst á hjartanu. Tillagan sem þeir komu með var að minnka lyf og leyfa hjartanu að sprikla. Satt best að segja dálítið þreytt tugga sem við erum búinn að snúa á hvolf mörgum sinnum á síðastliðnum 12 og hálfu ári.

Þannig að í raun og veru þrátt fyrir miklar rannsóknir þá virðast skýringar ekki liggja á lausu í fljótu bragði og okkur Mjöll líður ekkert sérlega vel með það að ég skuli vera búinn að vera í 6 vikna sjúkrahúsvist og okkur finnst í rauninni lítið hafa áunnist.

Sjálfum hefur mér fundist ég í frjálsu falli síðasta árið og það er vond tilfinning. Í fyrsta skipti á þessu tólf ára tímabili finnst mér eins og þetta hafi allt saman náð í skottið á mér og ég hef stundum velt því fyrir mér hvert stefnir.

Í fyrsta skipti í tólf og hálft ár finn ég fyrir því að andlega á ég ekki mikið til. Hingað til hefur það verið líkaminn sem hefur ekki fylgt hausnum eftir en í fyrsta skipti síðan ég veiktist hefur mér fundist síðustu mánuði eins og ég rétt nái upp úr vatnsborðinu til að ná í súrefni og þetta hefur reynst mér þungbært.

- Auglýsing-

Allt þetta hefur bitnað á okkur öllum í fjölskyldunni og þau hafa reynt að sýna mér umburðarlyndi, ástúð og hlýju og ég hef verið til staðar fyrir þau eins og ég get en því miður hafa sjúkdómarnir mínir verið plássfrekari en góðu hófi gegnir og ég verið fastur í þeim miðjum. Þetta hefur leitt það af sér að oft hefur mér fundist eins og ég sé á hliðarlínunni og ekki þáttakandi í eigin fjölskyldulífi og það er bæði einmannalegur staður að vera á og dapurlegur.
Þegar þannig er háttað er ég minna til staðar fyrir fólkið mitt og þó það sé skiljanlegt og kannski eðlilegt í þessu ástandi þá er það ekki staður þar sem ég vil vera.

Verkefni næstu vikna verður að snúa þessari þróun við og vera nær fjölskyldunni minni, fólkinu sem ég elska og standa keikur inni miðjum hóp með opin eyru, bros á vör og opinn faðminn. Það verður gott.

Þrátt fyrir alla þessa erfiðleika býr von í brjósti mínu, von um betri tíð og blóm í haga, bjarta og langa sumardaga. Ég veit við getum þetta eins og við höfum alltaf gert.

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Fyrri grein
Næsta grein
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-