Hjartað

hjartasneidmynd_201002.jpgHjartað í okkur hefur því hlutverki að gegna að viðhalda hringrás blóðsins og þar með flutningi súrefnis og næringarefna um líkamann. 
Í fullorðnum manni vegur hjartað 200 til 300 grömm og stærð þess er á við krepptan hnefa .  Á hverri einustu mínútu dælir hjartað um 5 lítrum af blóði um líkama okkar. Það er því óhætt að fullyrða að hjartað í okkur mannfólkinu sé ótrúleg undrasmíð.

Í hugum okkar flestra er hjartað tengt tilfinningum og margt af því sem okkur er kærast kemur við hjartað eins og sagt er enda hjartað verið yrkisefni manna og kvenna í gengum aldirnar.
Það er jú full ástæða til að mæra hið merkilega líffæri sem hjartað er því hjartað er það líffæri sem fyrst gerir vart við þegar nýtt líf kviknar í móðurkviði og það er vel við hæfi að hjartað sé eitt það síðasta sem stoppar þegar við yfirgefum þessa veröld.

Bygging og hlutverk hjartans

Hjartað liggur ofan við þindina þar sem það hvílir í skjóli á bak við bringubeinið og nýtur verndar þess og rifbeinanna. Utan um hjartað og upptök stóru slagæðanna er poki sem er nefndur gollurhús. Gollurhús er tvöfaldur poki og er hulinn himnu, innra lag hans nefnist iðraþynna og ytra lag hans veggþynna. Iðraþynnan klæðir hjartað sjálft en veggþynnan myndar sterkan sekk sem festir hjartað milli lungna. Á milli þessara tveggja þynna er gollurhúshol en í því er vökvaþynna sem dregur úr viðnámi þegar hjartað slær og slakar.

Hjartað er í rauninni tvískipt fjögurra hólfa dæla sem skiptist í hægri og vinstri helminga. Tvö efri hólfin, svokallaðar gáttir eða forhólf, taka við blóðinu úr líkamanum. Hægri hlutinn tekur við súrefnissnauðu blóði frá öllum vefjum líkamans og sá vinstri tekur við súrefnisríku blóði frá lungunum. Blóðið rennur úr gáttunum um hjartalokurnar niður í neðri hjartahólfin sem heita sleglar eða hvolf. Hjartalokurnar eru fjórar en fyrst ber að nefna þríblaðaloku hægra megin og míturloku vinstramegin en þær aðskilja gáttir og slegla. Lungnaæðaloka er staðsett við upptök lungnaslagæðarinnar þar sem hægri slegillinn dælir súrefnissnauðu bláæðablóði frá líkamanum til lungnanna um lungnaslagæðina þar sem það mettast af súrefni. Ósæðarloka er síðan staðsett við upptök ósæðar þar sem vinstri slegill dælir súrefnisríku blóði til allra vefja líkamans um ósæðina sem er meginslagæð líkamans.

Veggir hjartans eru vöðvaríkir og býr vöðvavefur hjartans yfir sjálfvirkni. Það þýðir að hann dregst saman með vissu millibili án þess að þurfa að fá taugaboð. Þetta sést á því að sé hjarta rifið úr dýri heldur það áfram að slá, þótt engin tengsl séu við taugar lengur. Undir eðlilegum kringumstæðum, það er að segja í lifandi líkama, er hjartslættinum þó stjórnað með rafboðum sem eiga upptök í gangráði hjartans og fara þaðan um sérhæft leiðslukerfi. Hjarta í fullorðnum einstaklingi slær að meðaltali 70 – 90 sinnum á mínútu en hægir á sér við hvíld og bætir í við aukið álag.

Hjartavöðvavefurinn þarf á næringu að halda eins og allir aðrir vefir líkamans, og ekki síst súrefni. Sérstakar æðar, svokallaðar kransæðar, kvíslast um hjartavöðvann og flytja honum súrefni og næringarefni. Heilbrigðar kransæðar flytja um 250 ml. af blóði á hverri mínútu. Stíflist kransæð getur hún ekki gegnt sínu hlutverki og flutt vöðvanum næringu og súrefni.

Sé ekkert að gert deyr sá hluti vöðvans sem stíflaða æðin sá um. Sé um að ræða stórt svæði í hjartavöðvanum sem ekki er lengur sinnt fær viðkomandi einstaklingur brjóstverk, sem stafar af súrefnisskorti í vöðvanum, auk fleiri einkenna. Brjóstverkurinn leiðir gjarnan út í handlegg, oftast þann vinstri. Þetta er hjartaáfall, það er drep í hjartavöðvanum vegna þess að hann fær ekki súrefni af völdum þrengsla í kransæðum.

Hjartakveisa / hjartaverkur eða angina pectoris er aftur á móti vægara einkenni sem er þó svipað, en þá kemur brjóstverkur aðallega fram við áreynslu en hverfur við hvíld. Hjartakveisa gefur þó til kynna að kransæð eða -æðar eru orðnar þröngar og tími til kominn að fara til læknis og láta athuga málið.

Hjartarannsóknir

Þegar minnsti grunur vaknar um að ekki sé allt með felldu varðandi hjartað þá er betra að fara í fleiri rannsóknir en færri.
Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að menn og konur sem telja sig hafa farið í “tékk” hafi í rauninni ekki farið í raunverulega læknisskoðun með það fyrir augum að leiða í ljós hvort að viðkomandi sé með hjartasjúkdóm eða ekki. Þetta á t.d við um ógreindan kransæðasjúkdóm eða kransæðastíflu en hana getur verið erfitt að greina eins og dæmin sanna og ógreind getur hún leitt til hjartaáfalls og því skiptir tími miklu máli, hver mínúta telur ef hjartaáfall er annars vegar.
Þess má einnig geta að þriðjungur sjúklinga sem greinast með bráðakransæðastíflu eða fá hjartaáfall hafa ekki dæmigerðan brjóstverk þannig að það er aldrei of varlega farið.

Hér að neðan eru helstu rannsóknir sem framkvæmdar eru í tengslum við hjartað.

Hjartaensím: Efni sem losna frá hjartavöðvafrumum við súrefnisþurrð eins og verður við kransæðastíflu. Oftast eru mæld þrjú ensím, þ.e. CK og CKMB, einnig TRÓPONÍN.

Blóðfita: Heildarmagn kólesteróls er mælt, einnig sá hluti þess sem nefnist „góða kólesterólið,“ eðaHDL-kólesteról og „slæma kólesterólið“ eða LDL. Þríglyseríðar eru gjarnan mældir en sú blóðfita tengist oft offitu og sykursýki.

Blóðþynning: Þegar gefin eru blóðþynningarlyf, t.d. Kóvar, er mikilvægt að fylgjast með blóðþynningargildum(INR). Draga þarf blóðprufu reglulega og í kjölfarið eru gefin fyrirmæli um hæfilegan skammt blóðþynningarlyfja.

Hjartahormón (BNP): Gjarnan mælt þegar um hjartabilun er að ræða og skoðað í tengslum við einkenni og þróun sjúkdómsins.

Hjartalínurit (EKG): Við ýmsa hjartasjúkdóma koma fram dæmigerðar breytingar á línuriti svo sem við kransæðastíflu og langvinnan háþrýsting, einnig greinast oft takttruflanir ef þær eru til staðar.

Ómskoðun af hjarta: Með hljóðbylgjum er unnt að fá fram mynd af hjartanu og meta þannig stærð hjartahólfa, þykkt hjartavöðvans og samdráttarhæfni. Einnig má sjá lokurnar og með sérstakri tækni meta hvort þær séu óþéttar eða hvort um þrengsli sé að ræða (Doppler). Hægt er að gera ómskoðun um vélinda og með því móti fást enn betri upplýsingar um starfssemi hjartans.

Tölvusneiðmynd af kransæðum: Þessari tækni er beitt í völdum tilfellum þegar grunur leikur á að um kransæðasjúkdóm geti verið að ræða. Hjartasérfræðingar geta í ljósi niðurstaðna metið þörf á frekari rannsóknum/meðferð. Segulómun: Í ákveðnum tilvikum er þessari tækni beitt til að meta stærð og staðsetningu hjartadreps. Einnig er þessari aðferð beitt í vaxandi mæli við greiningu meðfæddara hjartagalla, við segaleit o.fl.

Holter: Þessi rannsókn felst í síritun á hjartariti, oftast í sólarhring og gengur sjúklingurinn þá með lítið upptökutæki á sér. Þessi rannsókn er gerð þegar leitað er eftir hjartsláttartruflunum.

Gangráðsmæling: Með reglulegu millibili þurfa þeir sem hafa gangráð og/eða bjargráð að koma í eftirlit með starfssemi tækjanna þar sem m.a. er mældur líftími rafhlöðu og úrlestur úr hjartalínuriti og tölvu tækjanna.

Áreynslupróf/þolpróf: Ýmist er sjúklingurinn látinn ganga á þolbandi eða hjóla. Fylgst er með því hvort fram koma línuritsbreytingar á hjartariti og hvort sjúklingur fær einkenni sem bent gætu til kransæðasjúkdóms.

Hjartaþræðing: Kransæðamyndataka er gerð þannig að örmjó slanga er þrædd inn í náraslagæð og áfram upp til hjartans (vinstri þræðing). Með því að dæla skuggaefni í gegnum slönguna má ná fram röntgenkvikmynd af kransæðum og vinstri slegli. Ef um þrengsli er að ræða í kransæðum sjást þau yfirleitt mjög vel og unnt er að meta hversu mikil þau eru. Ef kransæðavíkkun er nauðsynleg er reynt að gera hana strax og kransæðamyndatakan er gerð þannig að önnur innlögn á sjúkrahús verður óþörf. Þegar þrætt er frá bláæð er farið um hægri hjartahólf og út í lungnaslagæðina. Það kallast hægri þræðing og með henni er metinn þrýstingur í blóðrásinni, súrefnismettun og einnig er unnt að mæla hversu miklu blóði hjartað dælir á hverri mínútu.
Þess má einnig geta að mögulegt er að þræða í gegn um úlnlið auk þess sem hjartaþræðingar eru mögulegar í gegn um æðar á hálsi.

Heimildir í þessum pistli koma úr ýmsum áttum en helstar þó frá vísindavefnum, landlækni.is, hjartaheill.is og hjarta.is

Tenglar af chfpatient.com

Heartfailure tests