-Auglýsing-

Heimkoman II

BekkurÉg var útskrifaður á föstudegi, níu dögum eftir aðgerðina, og mig langaði virkilega til að komast  heim. Í rauninni var ég alveg undrandi á því hvað ég hafði verið fljótur að hjara við þegar ég loksins fór að verða viðræðuhæfur. Það verður þó að viðurkennast að ég var ekki mikill bógur þegar ég kom heim, en með hjálp Mjallar var þetta mögulegt auk þess sem rafmagnsrúmin okkar björguðu mér alveg.
Fyrstu dagarnir voru erfiðir. Ég svaf illa mig verkjaði og ég svitnaði óskaplega á nóttunni sem væntanlega voru fráhvörf eftir stóra verkjalyfjaskammta undanfarinna daga.

Það sem olli þó mínum nánustu mestum áhyggjum var andlegt ástand mitt. Mjöll fannst eins og veruleg breyting hefði orðið á persónu minni og varð verulega órótt. Ég fékk skrýtnar hugmyndir og ruglaði saman hlutum og kom oft með fullyrðingar sem voru alveg út í bláinn, ég bullaði.

Mjöll hringdi niður á spítala til að spyrja hvort þetta væri eðlilegt og svörin sem hún fékk í fyrstu voru ekki uppörvandi. Starfsfólk sjúkrahússins sem Mjöll talaði við sögðu að þetta væri ekki eðlilegt jú kannski eðlilegt að vera dasaður og þreyttur eftir aðgerðina en sú breyting sem Mjöll lýsti væri ekki eðlileg.
Eftir nokkurra daga bið fengum við loksins að hitta lækni  sem vonandi gæti svarað okkur með þetta atriði. Hann fullvissaði okkur  um það að þetta væri ofur eðlilegt eftir alla risalyfjaskammtana og veru í hjarta og lungnavél. Okkur var bent á það að minnið getur verið hrekkjótt í nokkra mánuði og eftir svona stórt inngrip eins og brjóstholsskurðaðgerð er, geta persónubreytingar átt sér stað fyrst á eftir. Yfirleitt jafni fólk sig þó á þessu á þremur til sex mánuðum.

Það olli Mjöll og mínum nánustu töluverðri reiði hvað fengust litlar upplýsingar um þennan andlega þátt þegar ég var útskrifaður. Eins og Mjöll sagði þá fengum við klapp á öxlina og upplýsingar um að þegar ég gæti gengið upp stiga gætum við stundað kynlíf en ekki orð um andlega þáttinn.

Það merkilega við þetta var að ég gerði mér grein fyrir því að ég væri ekki eins og ætti að mér. Stundum áttaði ég mig þó ekki á því fyrr en ég var búin að segja eða gera eitthvað sem var kannski ekki alveg í takt við það sem ég var vanur. Þetta var afskaplega óþægileg  tilfinning.

En þetta átti sér líka kómískar hliðar og eitt af því sem ég átti í erfiðleikum með var að nota síma. Í einhver skipti ætlaði ég að hringja niður á spítala en það svaraði mér alltaf kona norður í Skagafirði og þótti mér það frekar undarlegt. Hún var orðin nett pirruð á þessum manni sem alltaf var að hringja í hana. Skýringin á þessu var einföld. Símanúmer Landspítalans byrjar á 543 en norður í Skagafirði byrjaði númerið á 453. Einhverra hluta vegna var mér alveg fyrirmunað að komast í gegnum þetta fyrstu vikurnar eftir að ég kom heim.

- Auglýsing-

Væntingar mínar höfðu að mínu mati verið hóflegar fyrir aðgerð. Fyrst var að lifa aðgerðina af og taka svo þráðinn þaðan. Fyrsta batamerkið mitt var í mínum huga án efa sú tilfinning að ég væri ekki lengur deyjandi maður en sú tilfinning hafði þjakað mig töluvert fyrir aðgerðina.

Ég fór að byrja að fá mér smá göngutúra en mér fannst batinn heldur standa á sér. Ég hafði til viðmiðunar að Íslendingur hafði farið í hjartaskiptaaðgerð um svipað leiti og ég fór í minn uppskurð og var ég svolítið að mæla mig við hann.   Það má vel vera að slíkur samanburður hafi hvorki verið sanngjarn né gáfulegur en í sjálfu sér hafði ég lítið annað að miða við. Hvað sem öðru leið var samanburðurinn mér verulega í óhag. Ég fylgdist með því hvernig hjartaþeginn efldist með hverjum degi og var kominn á hestbak fljótlega eftir heimkomu. Ég samgladdist honum en harmaði um leið hlutskipti mitt þar sem ég sat á bekk úti undir húsvegg móður og másandi.

Ég hafði mikið óþol gagnvart því að mér fannst úthald mitt ekki aukast verulega og þrátt fyrir að ganga sama hringinn daglega þá veittist mér það ekkert léttara eftir því sem dagarnir liðu og hafði ég af því áhyggjur.
Ég varð því verulega  glaður í bragði en um leið kvíðinn þegar ég fékk tilkynningu um að nú ætti ég að fara á Reykjalund til endurhæfingar.

Enn átti að freista þess að berja í mig þrek.

Minningabrot um heimkomu  eftir DOR og hjáveituaðgerð í júní 2004.

Árósum 17.03.2010

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-