-Auglýsing-

Heilbrigðismál í brennidepli – mikið óvissuástand

Valgerður Sverrisdóttir skrifar um málefni sjúkrahúsanna: “Ef stefna sjálfstæðismanna nær fram að ganga í skjóli Samfylkingar er verið að stefna einu besta heilbrigðiskerfi sem þekkist á byggðu bóli í hættu.”

Það var ljóst í aðdraganda alþingiskosninganna fyrir um ári að Sjálfstæðisflokkurinn myndi sækjast eftir að ná völdum í heilbrigðisráðuneytinu að loknum kosningum. Þetta lét forsætisráðherra Geir H. Haarde m.a. koma fram í beinni útsendingu í sjónvarpsþætti og síðan þá hefur verið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur á stefnuskrá sinni að gera grundvallarbreytingar á kerfinu. Breytingar sem hann vissi að hann næði ekki fram í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Þetta kom enn skýrar í ljós hjá Geir Haarde eftir að nýja ríkisstjórnin hafði verið mynduð, þegar hann þurfti að sannfæra flokksfélaga í Sjálfstæðisflokknum um ágæti þess að vinna með Samfylkingunni. Þá kom það skýrt fram að róttækar breytingar á heilbrigðiskerfinu væru mögulegar í þessu nýja samstarfi og það hafi verið grundvallaratriði.

Skelfilegt ástand
Nú hefur það gerst að forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss, Magnúsi Péturssyni, hefur verið bolað frá og hætti hann störfum í upphafi mánaðarins. Þegar ég spurði forsætisráðherra á Alþingi hvers vegna forstjórinn hætti brást hann illa við og vildi ekki viðurkenna að neitt athugavert væri við starfslokin. Það má hins vegar lesa á milli línanna í viðtali við fráfarandi forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss að hann var hrakinn frá störfum. Hér er um að ræða einn virtasta embættismann þjóðarinnar sem leiddi m.a. sameiningu sjúkrahúsanna sem var bæði flókið og vandasamt verkefni og mjög mikilvægt. Spítalinn virðist fyrir vikið eiga að vera forstjóralaus fram á haustið enda á greinilega að nota sumarið til umbyltingar á heilbrigðiskerfinu. Þá er Alþingi ekki að störfum og ríkisstjórnin fær meiri frið til aðgerða.

Annað sem kom fram hjá fráfarandi forstjóra var að starfsmenn sakna þess að vita ekkert um hvert förinni er heitið. Alþingi hefur heldur ekki verið greint frá því hvert stefna skal og heilbrigðisráðherra reynir að gera lítið úr málinu og segir að hann hafi ekki annað í huga en að veita jafn góða eða enn betri þjónustu. Getur verið að hann fylgist ekki með þeim áformum sem forkólfar í Sjálfstæðisflokknum hafa á prjónunum í heilbrigðismálum?

-Auglýsing-

Menntunarhlutverk Landspítalans
Landspítalinn hefur miklu hlutverki að gegna sem háskólasjúkrahús. Fram hefur komið hjá fráfarandi forstjóra að „dálítið af öllu“ þurfi á Landspítalanum til að þar sé hægt að halda uppi menntun heilbrigðisstétta. Með því að aðgerðir á ákveðnum sviðum séu fluttar út af sjúkrahúsinu til einkaaðila verður ekki hjá því komist að semja við viðkomandi aðila að taka einnig að sér kennsluhlutverk. Þetta kom fram hjá forseta læknadeildarinnar nýlega. Hann sagði enn fremur að engin fjárveiting væri til slíkra samninga. Það er því sama hvernig á málið er lítið – aukinn kostnaður er eina niðurstaðan. Enda er tilgangurinn ekki að spara heldur miklu frekar að koma stærri hluta heilbrigðisþjónustunnar í hendur sjálfstæðra rekstraraðila þannig að hluti fjármagnsins verði eftir í kassa þeirra.

Ef stefna sjálfstæðimanna nær fram að ganga í skjóli Samfylkingar er verið að stefna einu besta heilbrigðiskerfi sem þekkist á byggðu bóli í hættu. Auk þess er hægt að færa rök fyrir því að kostnaður við rekstur sjúkrahúsanna í landinu hafi ekki hækkað frá árinu 2000. Það er ekki síst fráfarandi forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss að þakka þar sem 70% af kostnaðinum liggur þar.

Það er ekki mikið þó það hafi þurft að losa sig við hann.

Höfundur er alþingismaður.

- Auglýsing-

Morgunblaðið 05.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-