-Auglýsing-

Hár blóðþrýstingur erfiður sjúkdómur

Fréttablaðið sagði á dögunum frá merkilegri rannsókn þar sem Hjartavernd kom meðal annarra að málum fyrir Íslands hönd. Í rannsókninni kom fram að sextán prósent jarðarbúa glíma við háþrýsting en rannsóknin stóð yfir í 30 ár í 184 löndum.

Hár blóðþrýstingur er þögull vágestur sem getur valdið milum skaða á hjarta og æðakerfi ef ekkert er að gert.

Forstöðulæknir Hjartaverndar þakkar áróðri og öflugri greiningu að Ísland komi vel út í alþjóðlegum samanburði, en mikið verk sé óunnið.

Tæplega 1,3 milljarðar jarðarbúa glíma við háan blóðþrýsting samkvæmt stórri rannsókn Imperial College Í London og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, sem birt var í tímaritinu Lancet fyrir skemmstu. Nærri helmingurinn, eða 580 milljónir, er ógreindur.

Rannsóknin byggir á líffræðilegum gögnum og spannar tæplega 30 ára tímabil, rúmlega 1.200 einstakar rannsóknir, 104 milljónir þátttakenda í 184 löndum á aldrinum 30 til 79 ára. Hér á Íslandi kom Hjartavernd að rannsókninni.

„Háþrýstingur er eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum sem heimurinn stendur frammi fyrir,“ segir Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar. En helstu afleiðingarnar af háþrýstingi geta meðal annars verið aðrir hjarta- og æðasjúkdómar og í alvarlegustu tilfellunum hjartaáföll og heilablóðföll. En einnig nýrnabilanir og blinda.

„Þetta er rosalega erfiður sjúkdómur”

Ísland kemur vel út í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega þegar kemur að meðhöndlun. 71 prósent allra karla með háþrýsting er meðhöndlað og 72 prósent kvenna, sem er með því allra hæsta sem gerist. Hjá körlum hefur þessi tala hækkað um 39 prósent á tímabilinu. Í sumum löndum er hlutfall meðhöndlaðra ekki nema um 10 prósent.

- Auglýsing-

„Við erum í hópnum sem nær mestum árangri af meðferðinni, um 50 prósent. Það eru samt 50 prósent eftir,“ segir Vilmundur. Hann segir sumum sjúklingum duga að breyta um lífsstíl til að ná blóðþrýstingnum niður fyrir mörkin, sem eru 140/90, en sjaldnast sé það eitt nóg. Aðrir fara á lyf en jafnvel það dugar ekki nærri öllum. „Þetta er rosalega erfiður sjúkdómur og mjög mismunandi hvað virkar fyrir hvern og einn.“ Þess vegna sé mikilvægt að prófa sig áfram til að finna hvað virkar fyrir hvern og einn.

„Persónulega upplifi ég þetta þannig að það sé frábært að svona stór hluti skuli vera settur í meðferð og helmingurinn nái meðferðarmarkmiðunum. En það er heilmikið eftir,“ segir Vilmundur.

Miklu skipti að hafa öfluga framlínu í heilbrigðiskerfinu, ekki síst á heilsugæslustöðvunum, til að greina sjúkdóminn og hefja meðhöndlun. Sífelldar mælingar og rannsóknir séu afar mikilvægar. Þá megi ekki slá slöku við í að halda uppi áróðri um heilbrigt líferni og háþrýsting og að fólk sé meðvitað um hættuna sem honum fylgir. Ekki sé ástæðulaust að sjúkdómurinn sé kallaður „the silent killer“, eða hinn þögli drápari.

„Þetta er svo alvarlegt,“ segir Vilmundur. „En það er eins og mörgum finnist háþrýstingur ekki alvarlegur af því að þeir finna ekki fyrir honum.“

Fréttin birtist í Fréttablaðinu 3. september 2021.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-