-Auglýsing-

Hagræðing og hugrekki heilbrigðisráðherra

Margrét Sigrún Björnsdóttir skrifar um skipulagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu: “Heilbrigðisstéttir þurfa að sýna ábyrgð gagnvart þeirri stöðu sem við erum í, taka skipulagsbreytingum opnum huga og leggja framkvæmdinni lið.”

HEILBRIGÐISRÁÐHERRA, Guðlaugur Þ. Þórðarson, kynnti í vikunni einhverjar umfangsmestu skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið sl. ár á íslensku heilbrigðiskerfi. Markmið þeirra er „að ná fram hagræðingu í rekstri heilbrigðisstofnana víðs vegar um landið og treysta um leið undirstöður grundvallarstarfsemi heilbrigðisþjónustunnar“. Íslendingar verja meira fé til heilbrigðismála en flest OECD-ríki og hafa á undanförnum árum varið vaxandi hlut þjóðarframleiðslunnar til þeirra. Sé tekið tillit til þess hversu ung þjóðin er eru útgjöld til heilbrigðismála hér enn hærri í OECD-samanburði. Árangur er einnig mjög góður á marga mælikvarða og launakjör sérmenntaðs heilbrigðisstarfsfólks góð. Sumra með því besta sem gerist hér á landi meðal sambærilegra stétta.

Fáar tilraunir til skipulagsbreytinga

-Auglýsing-

Útgjaldaaukning heilbrigðiskerfisins á undanförnum 10-15 árum hefur oft vakið spurningar um það hvort fyllsta hagræðis sé gætt í skipulagi og framkvæmd. Tilraunir heilbrigðisráðherra sl. tveggja áratuga til skipulagsbreytinga, sem leiða áttu til aukinnar hagkvæmni, hafa undantekningarlítið mætt harðri andstöðu. Róttækasta tilraunin var árið 1995 þegar Sighvatur Björgvinsson, þáv. heilbrigðisráðherra, reyndi að koma á tilvísanakerfi. Kerfi sem víðast hvar þykir sjálfsagt og er ætlað að treysta grunnheilsugæslu, skapa á einum stað yfirsýn yfir heilbrigðisvandamál viðkomandi sjúklings, sporna gegn „oflækningum“ og þar með takmarka útgjöld. Þá reis upp vel skipulögð hreyfing sérfræðilækna sem réð sér hagfræðinga, lögfræðinga og auglýsingaráðgjafa með tilheyrandi PR-umsvifum, til að koma í veg fyrir það sem þeir kölluðu frelsisskerðingu sjúklinga. Höfðu þeir fullnaðarsigur og enginn hefur þorað að minnast á tilvísanakerfi síðan.

Á svipuðum tíma var unnin tillaga að breyttri verkaskiptingu og fækkun sjúkrahúsa á landsbyggðinni (oft nefnd „gula skýrslan“) en fyrirkomulag þeirra var ekki talið hafa fylgt búsetuþróun, breyttri tækni í heilbrigðisþjónustu eða bættum samgöngum. Var haft á orði á þeim tíma að staðsetning og uppbygging sjúkrahúsa á landsbyggðinni hefði fylgt þróun veiða úr íslenska síldarstofninum á gullaldartíma hans og lítið breyst síðan. Skýrslan hlaut svipaðar viðtökur hagmunahópa og tillögur um tilvísanakerfið og var snarlega sett ofan í skúffu heilbrigðisráðuneytisins.

Síðan þá hefur skipulag íslenskrar heilbrigðisþjónustu þróast án þess að ráðherrar hafi mikið skipt sér af skipulaginu, nema þegar spítalarnir þrír í Reykjavík voru sameinaðir í Landspítala – háskólasjúkrahús undir síðustu aldamót. Sú sameining var ekki átakalaus eins og landsmenn hafa getað fylgst með í fjölmiðlum. Tilraunir stjórnar og forstjóra LSH til umbóta og skipulagsbreytinga hafa á ótal punktum sem ekki verða raktir hér kostað mikil átök, einkum við tiltekna lækna spítalans. Stefnumótun ráðherranna sjálfra á þessu tímabili hefur, fyrir utan ofantalin atriði, nær eingöngu falist í að skipta árlegum fjárveitingum. Á sama tíma hafa heilbrigðisyfirvöld flestra annarra ríkja staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum og stefnumótun í því skyni að nýta sem best þá miklu fjármuni sem hvarvetna fara í heilbrigðiskerfi landanna. Má segja að íslenskir ráðherrar hafi haft sér það til afsökunar að staða ríkisfjármála hefur lengst af verið góð en svo er ekki nú eins og allir vita.

Hugrekki Guðlaugs Þórs

- Auglýsing-

Nú hefur ungur ráðherra, Guðlaugur Þór, látið vinna greiningu og stefnu um breytta verkaskiptingu í íslenska heilbrigðiskerfinu. Til þess þarf hugrekki í ljósi afdrifa fyrri tilrauna. Vonast er til að spara megi 1,3 milljarða, án þess að það bitni á hagsmunum sjúklinga. Ekki þarf að fjölyrða hér um stöðu ríkisfjármála og nauðsyn sparnaðar. Það þarf hins vegar mikið hugrekki til að fara í svo umfangsmiklar strúktúrbreytingar. Flatur sparnaður hefur hér verið meginreglan, hann hefur þótt sársaukaminni pólitískt en óskynsamlegri út frá nýtingu fjármuna.

 

Ég hef ekki forsendur til að meta öll áform Guðlaugs Þórs en ekki skiptir minna máli hvernig framkvæmdin tekst til. Hún verður að gerast í samstarfi við starfsfólk heilbrigðiskerfisins. Skipulagsbreytingar eru það sem kallað hefur verið eftir af þeim sem hafa skoðað þetta kerfi út frá sjónarhóli aukinnar hagkvæmni og þá um leið árangurs.

 

Vafalaust þarf fleiri slíkar breytingar, sem ég vona að Guðlaugur Þór leggi í, með almannahagsmuni að leiðarljósi. En eigi svo að verða þarf að taka þessum áformum opnum huga, vel þarf að takast til um framkvæmd þeirra, þær þurfa pólitískan stuðning frá samráðherrum Guðlaugs, stjórnarþingmönnum og þeim sem hag hafa af bættri nýtingu þess fjár sem fer í heilbrigðiskerfið. Ekki síst þarf heilbrigðisstarfsfólk að sýna ábyrgð gagnvart þeirri stöðu sem uppi er. Annars er hætta á að Guðlaugur Þór og aðrir umbótasinnaðir stjórnmálamenn detti í þann farveg of margra pólitíkusa að gera sjaldnast neitt nema það sé til skammtíma vinsælda fallið. Þora ekki að horfast í augu við og taka erfiðar ákvarðanir og fá almenning til þess sama.

Höfundur er félagi í Samfylkingunni og situr í nefnd heilbrigðisráðherra um framtíðarhlutverk og skipulag LSH.

Morgunblaðið 09.01.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-