-Auglýsing-

Grannt fólk ekki endilega heilbrigt

Sigrun_Danielsdottir_2Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur hefur lengi talað fyrir því í umræðu um heilbrigði og holdafar að mikilvægt sé að forðast að ala á megrunaráráttu og fordómum gagnvart feitu fólki. Sigrún kom opinberlega fram fyrir nokkrum árum og sagði frá því að sjálf hefði hún verið þéttvaxin um tíma sem barn og fundið harkalega fyrir neikvæðum viðhorfum sem ýttu undir sjálfsóánægju og skömm.
Í kjölfarið barðist hún við átröskun á unglingsárunum en eftir að hafa fætt sitt fyrsta barn ákvað hún að bylta hugarfari sínu og annarra. Á þessum grunni setti Sigrún af stað átak sem beindist að samfélagsviðhorfum í tengslum við holdafar. Blogg Sigrúnar undir heitinu Líkamsvirðing á eyjan. is nýtur mikilla vinsælda en þar birtir hún pistla sína um málefni tengd heilbrigði og holdafari.

Lausnin er vandamálið og öfugt
Sigrún segir þessar öfgaáherslur og gjána milli staðalímynda og raunverulegrar líkamsbyggingar langt því frá nýja sögu. „Alla síðustu öld hefur baráttan fyrir grönnum vexti verið þrotlaus. Hún stendur enn og hefur litlu skilað,“ segir Sigrún. „Það er rétt að við höfum fitnað en við vitum í raun og veru ekki fyllilega af hverju. Það er heilmargt sem þarf að kanna í því samhengi. Einblínt hefur verið á mataræði og hreyfingu en margt annað gæti einnig komið til greina, til dæmis meiri kynding í heimahúsum, aukaefni í mat og snyrtivörum, streita, minni svefn og jafnvel megrunartilburðirnir sjálfir en líkamsþyngd hefur aukist jafnt og þétt samhliða þrá okkar til að grennast. Lausnin er því ekki fundin og megrun virkar ekki,“ segir hún. „Hún skilar engu til lengri tíma af því flestir þyngjast aftur. Stundum endar fólk meira að segja enn þyngra en það var fyrir megrun af því líkaminn vill birgja sig upp til að eiga forða fyrir næstu megrun. Þannig er lausnin orðin að vandamálinu og erfiður vítahringur farinn í gang.“

Ættum að vinna gegn vansæld
Hún segir heillavænlegra að hafa áherslurnar aðrar: „Kannski við ættum að einbeita okkur að því að hugsa um heilsu og velferð óháð öllum ytri mælikvörðum og staðalmyndum? Að læra að elska okkur sjálf og aðra og umfram allt krefjast virðingar sama hvernig við lítum út? Lífið snýst um allt annað og meira en fituprósentu og kílóatölu, og við ættum að vinna gegn þeirri óhamingju og vansæld sem fylgir megrunarmenningunni í stað þess að fylgja henni í blindni.“

Fólk er mismunandi
Sigrún vill opna augu samferðamanna sinna fyrir því að fólk sé mismunandi og eigi rétt á að líða vel í eigin skinni.
„Við verðum að opna augun fyrir því að fólk er mismunandi. Jafnvel þótt allir lifðu fullkomlega heilbrigðu lífi myndi fólk samt vera mismunandi vaxið, þótt eflaust væri minna um öfgar. Ég vil að fólk hafi frelsi til að vera eins og það er og lifa góðu lífi í þeim líkama sem því var gefinn í stað þess að vera fangar í eigin skinni. Það er mannréttindamál.“

Grannt fólk er ekki endilega heilbrigt
Sigrún bendir á að vandinn sé lúmskari en margir átti sig á. Grannt fólk lifi oft í blekkingu hvað varðar eigin heilsu vegna skilaboða samfélagsins um að grannir einstaklingar séu heilbrigðir einstaklingar. „Ég legg áherslu á að óhollar lífsvenjur eru alveg jafn óheilbrigðar hvort sem grönn eða feit manneskja á í hlut. Það er ekki hægt að ganga út frá því að grannur vöxtur veiti vernd frá vanheilsu ef lífsvenjurnar eru slæmar.“

En hver er lausnin?
„Að mínu mati felst lausnin í því að leggja áherslu á heilsu og hamingju en ekki líkamsþyngd sem slíka. Þyngd er útkoma margra samverkandi þátta en við höfum ekki stjórn á nema sumum þeirra. Það að ætla að stjórna einhverju sem við höfum litla stjórn á er ávísun á pirring, vanlíðan og tilgangslausa baráttu. Við getum valið að borða næringarríkan mat, hreyft okkur reglulega, hvílt okkur vel og unnið gegn streitu og við það öðlumst við sannarlega betra líf en það er ekki þar með sagt að við verðum mjó. Við verðum að læra að lifa í þeim líkama sem við eigum núna.“

- Auglýsing-

Kristjana Guðbrandsdóttir (kristjana@dv.is)

www.dv.is 26.01.2011

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-