Á göngudeild hjartabilunar koma sjúklingar sem greinst hafa með hjartabilun og þurfa á eftirliti, fræðslu og stuðningi að halda ásamt sérhæfðri lyfjameðferð.
Hjartabilun er sjúkdómur sem ekki er læknanlegur en hægt er að hefta framgang hans með réttri lyfjameðferð, fræðslu um sjúkdóminn, einkenni hans og meðferð, matarræði, hreyfingu og endurhæfingu.
Starfssemi göngudeildar hjartabilunar miðar að því að sjúklingar geti lifað eðlilegu lífi, stundað vinnu og frístundir án teljandi vandkvæða og þurfi sem sjaldnast á innlögn á sjúkrahúsið að halda.
Göngudeild hjartabilunar er staðsett á gangi 10-E í kjallara LSH við Hringbraut. Deildin er opin alla virka daga frá kl. 8.00-14.00.
Læknar og hjúkrunarfræðingar geta vísað sjúklingum á göngudeildina. Senda þarf beiðni þar sem fram koma nauðsynlegar upplýsingar. Hjúkrunarfræðingur hefur síðan samband við sjúklinginn og gefur honum tíma.
Á myndinni hér til hliðar má sjá tvo af starfsmönnum deildarinnar sem eru :
Inga S. Þráinsdóttir hjartalæknir og Guðbjörg Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Mikilvægi göngudeildar
Að mínu mati er ekki nokkur vafi á því að opnun göngudeildar hjartabilaðra var mikið framfaraspor og hefur gert mikið fyrir hjartabilaða eins og ég fékk að kynnast á upphafsdögum deildarinnar en þangað sótti ég þjónustu um þriggja ára skeið.
Á þeim tíma var deildin smá í sniðum og naumt skammtað fé en hefur heldur bætt í og þjónusta deildarinnar vaxandi. Reynslan erlendis hefur sýnt að minna er um innlagnir hjá þeim sem að fara reglulega í eftirlit eins og tildæmis á göngudeildir.
Einnig veitir það sjúklingum bæði öryggi og gott aðhald að hafa þennan fasta punkt í tilverunni að fara á göngudeildina, láta fylgjast með þyngd, blóðþrýstingi og láta taka blóðprufur í leiðinni.
Fyrir nokkru gaf göngudeildin út upplýsingabækling í samvinnu við Astra Zeneca. Í bæklingnum er að finna mikið af góðum og gagnlegum upplýsingum fyrir hjartabilaða og aðstandendur þeirra.