-Auglýsing-

Getum verið stolt af Landspítalanum

hulda_gunnlaugsdottir1.jpgHulda Gunnlaugsdóttir tók við starfi forstjóra Landspítalans um miðjan október. Hún var ráðin í starfið í sumar og er óhætt að segja að aðstæður hafi breyst frá því hún var ráðin og þar til hún settist í stól forstjórans. Hún segir of snemmt að segja nákvæmlega til um hvaða áhrif kreppuástandið í þjóðfélaginu muni hafa á rekstur spítalans, fjárlög næsta árs hafa verið í biðstöðu og því ekki fullljóst hver fjárveiting til stofnunarinnar verður á næsta ári.

„Mér er hins vegar ljóst að gríðarleg vinna hefur verið lögð í að ná utan um rekstur spítalans og þar hefur mikill árangur náðst á þessu ári. Eflaust mun stofnunin finna fyrir kreppunni og ég væri ekki heiðarleg ef ég gæfi loforð um að ekki kæmi til fækkunar starfsfólks. Það verða dregin saman seglin hér eins og annars staðar.“

-Auglýsing-

Hulda er hjúkrunarfræðingur að mennt og eftir að hún lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands starfaði hún á gjörgæsludeild Borgarspítalans en réðst þaðan hjúkrunarforstjóri að Kristneshæli í Eyjafirði. Eftir fimm ár í því starfi hélt hún til Oslóar í háskólanám og lauk embættisprófi í stjórnun heilbrigðisstofnana og réð sig síðan sem hjúkrunarframkvæmdastjóra við Ullevall sjúkrahúsið í Osló. Undanfarin fjögur ár hefur hún verið forstjóri Aker háskólasjúkrahússins en í allt eru árin í Noregi orðin 20. „Ég ætlaði aldrei að setjast þar að en örlögin höguðu því þannig að ég giftist norskum manni og starfið var skemmtilegt. Mér fannst þó ekki hægt annað en taka þessari áskorun þegar starf forstjóra Landspítala var auglýst.“

Hulda segir að sér hafi komið á óvart hversu öflug starfsemi Landspítalans er. „Ég hef aðeins fylgst með íslensku heilbrigðiskerfi úr fjarlægð og vissi að þjónustan væri góð og fagþekkingin væri eins og best er annars staðar en ég tel að Landspítalinn hafi ekki verið nægilega duglegur að koma því á framfæri við almenning hversu öflugur hann er. Ég hef fylgst með umræðunni um Landspítala utan frá og fengið ranga mynd af stöðunni vegna þess hversu neikvæð hún hefur verið oft á tíðum. Við þurfum að skoða vandlega hvað stofnunin segir um sjálfa sig og hvernig hún kemur góðum hlutum á framfæri. Ég vissi að hér væri unnin talsverð rannsóknarstarfsemi en að hún væri jafnmikil og raun ber vitni hefur komið mér verulega á óvart. Hér er verið að vinna að rannsóknum sem þjóðin getur verið mjög stolt af og eiga erindi við ekki bara þjóðina heldur umheiminn allan. Það er staðreynd að vísindamenn stofnunarinnar birta fleiri fræðigreinar árlega í viðurkenndum alþjóðlegum tímaritum en mörg önnur stór háskólasjúkrahús á Norðurlöndunum geta státað af. Þetta hefur margvísleg jákvæð áhrif á starfsemi spítalans; öflug rannsókna- og vísindastarfsemi styður við daglegt starf sjúkrahússins með því að bestu aðferðir eru nýttar og gæðin aukast. Hér hefur verið lagt um eitt og hálft prósent af heildarfjárveitingu til spítalans í rannsóknir og þróun en markmiðið ætti að vera 3%. Fleira þarf en peninga til að stunda rannsóknir. Það þarf tíma, tækjabúnað og aðstoðarfólk til að skapa vísindamönnunum aðstöðu til að sinna rannsóknum sínum.“

Aðstæður víða erfiðar
Hulda hefur á undanförnum vikum farið kerfisbundið í heimsóknir á allar deildir sjúkrahússins og segist vera að ljúka yfirferðinni. Aðeins sé eftir að heimsækja þær deildir sem eru utan kjarnans en þessu verði lokið fyrir endaðan nóvember. „Þá verð ég komin með yfirsýn yfir byggingarnar, tækjabúnað og aðbúnað sjúklinga og starfsfólks og ég gef mér góðan tíma í þetta, ræði við starfsfólkið og kynni mér starfsemi deildanna. Ég hlusta á fólkið og skrifa hjá mér það sem kemur í hugann meðan ég staldra við. Mér hefur þótt umhugsunarefni að sjá við hversu erfiðar aðstæður fólk vinnur víða á spítalanum. Þar sem húsnæði hefur verið gert upp virðist það undantekningarlaust mjög vel gert, fallegt og vandað, en þar sem ekkert hefur verið gert er aðstaðan mjög slæm, húsnæðið úrelt og tækjabúnaður gamall. Starfsmenn eru allir mjög jákvæðir og ég verð hvergi vör við annað en fólk vilji gera enn betur og bæta sig.“

Ekki kemur á óvart að Hulda skuli nefna óhagræðið að því að starfsemi spítalans sé á víð og dreif um höfuðborgarsvæðið. „Það blasir við. Þetta stendur nýtingu tækjabúnaðar og bættu verklagi fyrir þrifum. Þetta er eitt af stóru verkefnunum á næstu árum og þarf að fara vandlega í gegnum. Ég nefni dýrar deildir eins og röntgendeildir sem eru nú á þremur stöðum. Það væri hægt að einfalda þann rekstur og jafnframt auka afköstin og einnig rannsóknarstofur sem eru mjög dýrar í rekstri. Til þess að ná hámarkshagkvæmni þarf nýjan spítala en þangað til er hægt að gera ýmislegt í hagræðingarskyni.“

- Auglýsing-

Hulda segist mest furða sig á því hversu litlum fjármunum hafi á liðnum árum verið veitt til viðhalds á byggingum spítalans og endurnýjun tækjabúnaðar. „Líftími tækjabúnaðar á sjúkrahúsum er að jafnaði 8-10 ár en hér hefur engu verið hægt að skipta út af tækjum nema líknarfélögin hafi keypt þau eða spítalinn séð sig knúinn til að kaupa tæki á kaupleigusamningum og notað rekstrarfé til þess. Fjárveiting til viðhalds bygginga og tækjakaupa hefur staðið í stað í 10 ár og heldur farið lækkandi. Stjórn spítalans hefur því orðið að taka af rekstrarfé til að standa undir nauðsynlegri endurnýjun tækja með kaupleigusamningum. Í Noregi dettur engum í huga að ganga á rekstrarfé til viðhalds og tækjakaupa nema eitthvað mjög sérstakt og óvænt komi upp á á árinu sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum. Það er í rauninni alveg ótrúlegt hvað hefur tekist að halda hér uppi góðri og nútímalegri spítalaþjónustu miðað við hversu þröngt stakkurinn hefur verið sniðinn.“

Hulda segir að sér virðist sem aldrei hafi verið rætt opinskátt hvað það kostar að Landspítali standi undir hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús. „Kostnaðargreining hefur leitt í ljós að 11% af fjármunum spítalans renna til háskólakennslu. Hér eru allir heilbrigðisstarfsmenn þjóðarinnar menntaðir. Samt hefur aldrei verið rætt hvað þetta á að kosta. Það er vitað að á háskólasjúkrahúsi taka ákveðnir hlutir lengri tíma en ella, einfaldlega vegna þess að nemarnir þurfa að fá að læra handtök og aðferðir. Það er því lykilatriði að reikna út hversu mikið hver nemi kostar og síðan fái spítalinn greitt í samræmi við það. Þá getum við meðhöndlað sjúklinga annaðhvort með eða án þátttöku nemanna.“

Starfsfólki mun fækka
Það er ljóst að á Landspítala eru erfiðir tímir framundan rétt eins og annars staðar í íslensku samfélagi. Forsendur hafa gerbreyst á stuttum tíma og Hulda segir að ómögulegt sé að segja á þessari stundu hvernig nákvæmlega verði brugðist við í rekstrinum. „Mér er hins vegar mjög vel ljóst að hér hefur verið unnin gríðarlega mikil og góð vinna við að bæta rekstur spítalans og hann er í rauninni í mjög góðu horfi núna ef horft er framhjá gengisþróun undanfarnar vikur. Það skapar okkur erfiðleika eins og öllum öðrum.“

Ekki er óeðlilegt að gera ráð fyrir að áætlanir um byggingartíma nýs sjúkrahúss muni breytast. „Ef byggingartíminn lengist verðum við að laga okkur að því en snúa okkur samt af alefli að því að lagfæra og breyta verk- og starfsferlum innan spítalans. Hugsanlega verðum við að gera það hraðar en ella ef ástandið verður mjög erfitt. Þá höfum við hreinlega ekki tíma til að laga okkur að breytingum, við verðum einfaldlega að breytast. Það er kannski svolítið öðruvísi en ég hafði hugsað mér áður en kreppan skall á. Heilbrigðiskerfið þarf að vera sterkt við aðstæður sem þessar enda er það ein af undirstöðum velferðarþjóðfélagsins. Við sem störfum í heilbrigðiskerfinu þurfum að vera sterk og við getum ekki vænst þess að fá einhverja sérmeðferð.“

Hulda svarar því spurningunni um hvort starfsfólki Landspítala verði fækkað á næstu mánuðum með einföldu jái. „Ég væri ekki heiðarleg ef ég segði annað. Þegar fjárveiting næsta árs liggur fyrir verðum við stjórnendur spítalans að reikna út hvernig hægt verður að reka hann fyrir þá fjármuni. Starfsmannavelta hefur verið gríðarlega mikil og spítalinn hefur nánast gegnt hlutverki þjálfunarmiðstöðvar fyrir margar starfsstéttir sem síðan hafa farið annað í þeirri þenslu sem hér hefur ríkt. Þetta á eflaust eftir að breytast,“ segir Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Landspítala.

„Á Landspítalanum er unnið að rannsóknum sem þjóðin getur verið mjög stolt af,“ segir Hulda Gunnlaugsdóttir forstjóri.

Viðtalið birtist í Læknablaðinu 12. tbl 94. árg. 2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-