-Auglýsing-

Fimm mínútur eins og klukkutími

„Þetta gerðist á kaffistofunni þann 18. október síðastliðinn, um tíu mínútur fyrir tíu um morguninn,“ segir Alfreð Gústaf Maríusson, matreiðslumeistari sem sér um mötuneytið í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Hann hlaut skyndihjálparviðurkenningu Rauða krossins fyrir að hnoða lífi í samstarfsfélaga sinn sem hneig niður í hjartastoppi á kaffistofu skólans. Alfreð man atvikið eins og það hefði gerst í gær.

„Þeir sitja saman, smíðakennari og annar kennari, og eru að tala saman þegar smíðakennarinn hnígur út af og fer í hjartastopp. Það er náttúrulega fullt af fólki þarna í kring og allir í kaffi og aðstoðarskólastjórinn kemur hlaupandi inn til mín og segir að það sé hjartastopp. Ég hleyp bara af stað og þegar ég kem á staðinn þá er búið að leggja hann á gólfið og hjúkrunarfræðingurinn, Guðrún Erla, var að stumra yfir honum. Seinna kom kennari sem heitir Sigrún þarna til okkar líka. Ég og Sigrún hnoðuðum hann og Guðrún Erla hjúkrunarfræðingur blés í hann þangað til sjúkrabíllinn og sjúkraliðarnir voru komnir á staðinn, þá tóku þeir við af okkur,“ segir Alferð sem vill meina að allt starfsfólkið sem kom þarna að eigi skilið þessa viðurkenningu.

Smíðakennarinn komst fljótlega til meðvitundar eftir að sjúkraliðarnir komu að en að sögn lækna voru það Alfreð og samstarfskonur hans sem björguðu lífi hans. Hann fór í beint í hjartaþræðingu og er eldhress í dag, að sögn Alfreðs.

Alfreð var skyndihjálparkennari hér á árum áður og býr því að mikilli þekkingu á skyndihjálp og kann réttu handtökin. Skólastjórnendur Hraunvallaskóla vissu af því og fyrstu viðbrögð voru því að sækja Alfreð sem var staddur inni í eldhúsi að sinna matseld þegar kallið kom.

Það liðu aðeins örfáar sekúndur frá því smíðakennarinn hneig niður þangað til Alfreð kom að og hóf endurlífgun. Hann segir þetta hafa verið röð atvika og að samvinnan hafi skipt gríðarlega miklu máli. Alfreð telur líklegt að biðin eftir sjúkrabílnum hafi verið um tíu til fimmtán mínútur, hann er þó ekki viss. „Lögreglan spurði mig hvort ég gerði mér grein fyrir því hvað það hefði liðið langur tími og ég sagði að fimm mínútur hefðu verið eins og klukkutími fyrir okkur.“

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir (solrun@dv.is)

- Auglýsing-

www.dv.is 14.02.2011

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-