-Auglýsing-

Er fákeppni að sliga Landspítalann?

LSH ofl 008Benedikt Ó Sveinsson læknir og sjálfstætt starfandi sérfræðingur í kvenlækningum skrifar mjög athyglisverða grein í Fréttablaðið um helgina sem er allrar athygli verð.

Í samtölum okkar við fólk sem þekkir til þessara mála í gegnum árin hefur einnig mátt heyra þessi sjónarmið sem fram koma í grein Benedikts. En hér fyrir neðan er greinin í heild sinni.

-Auglýsing-

Þegar ég var að læra læknisfræði fyrir 40 árum voru starfandi fimm spítalar á höfuðborgarsvæðinu: Landakot og St. Jósefsspítalinn í Hafnarfirði, stofnaðir og reknir af St. Jósefssystrum, Borgarspítalinn, í hlutaeigu Reykjavíkur og rekinn af Reykjavíkurborg, Landspítalinn og Vífilsstaðaspítali, reknir af og í eigu íslenska ríkisins. Að auki var Fæðingarheimili Reykjavíkur í eigu og rekstri Reykjavíkurborgar.

Þá ríkti gullöld í íslensku heilbrigðiskerfi. Borgarspítalinn nýbyggður, vel búinn tækjum og baráttufólki með eldmóð í æðum að koma á fót nýjum spítala sem yrði betri en hinir spítalarnir. Landakot og St. Jósefsspítalinn í Hafnarfirði reknir af hugsjón nunnanna með afkastahvetjandi launakerfi fyrir læknana. Landspítalinn hinn eiginlegi háskólaspítali með flesta háskólakennarana í læknisfræði, þar sem auk lækninga voru stundaðar rannsóknir og kennsla í miklum mæli, og Vífilsstaðaspítali þar sem starfsfólk bjó yfir áratuga reynslu af meðferð lungnasjúkdóma. Að ógleymdu Fæðingarheimili Reykjavíkur þar sem heilbrigðar ófrískar konur gátu fætt börn sín á sem eðlilegastan hátt, en þó undir öruggu eftirliti reynds starfsfólks.

Þetta var raunveruleikinn fyrir um fjórum áratugum og næstu árin á eftir. Á þeim tíma var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa sem nemi, unglæknir og sérfræðingur um styttri eða skemmri tíma á öllum þessum vinnustöðum. Á engan vinnustaðinn skal hallað. Það ríkti alls staðar sönn vinnugleði þar sem sjúklingarnir og vegferð þeirra voru í fyrirrúmi. Sjúklingarnir kunnu líka að meta að geta leitað til fleiri en eins aðila um álit og meðferð. Hið sama gilti um starfsfólkið. Ef því mislíkaði eitthvað á einum spítalanum fann það oft gleðiríkan og farsælan farveg á hinum spítölunum.

Blind trú

- Auglýsing-

Undir niðri fann ég þó alltaf fyrir ósk þeirra er stýrðu og réðu Landspítalanum að hann væri aðalspítalinn og að sú stund mundi upp renna að öld samkeppninnar hnigi til viðar, að Landspítalinn yrði fjallið eina þar sem allar flóknar rannsóknir, meðferðir, lækningar og kennsla færu fram. Með

árunum breyttist þessi ósk stjórnenda Landspítalans í trú. Í framhaldinu upphófst einkar óbilgjarnt ferli. Hinir spítalarnir skyldu sameinaðir Landspítalanum ella lagðir niður. Í nafni hagræðingar og sparnaðar var þessi blinda trú sett á eitt allsherjar Excel-skjal. Það var kynnt fyrir lykilstarfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins með síendurteknum sjónhverfingum sem sýndu sparnað, samlegðaráhrif og enn meiri sparnað og hagræðingu – og viti menn – allt í einu var þessi trú ráðandi afla á Landspítalanum orðin sannleikur í augum þeirra sjálfra og lykilmanna heilbrigðisráðuneytisins.

En í Excel-skjalinu gleymdist að taka tillit til mannauðsins og þarfa og óska sjúklinganna. Sparnaður og hagræðing var markmiðið, starfsfólkið og sjúklingarnir voru orðin aukaatriði og svo var hafist handa. Stjórnmálamenn og starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins létu það heita að sameina ætti þessar stofnanir og að alls ekki ætti að leggja þær niður. Þannig voru áformin kynnt fyrir starfsfólkinu. En raunin varð önnur.

Fyrsta atlagan var gerð að Landakotsspítala, sem var lagður niður í þáverandi mynd og færður undir rekstur Borgarspítalans. Þetta var gert þrátt fyrir kröftug mótmæli þorra starfsfólksins og nær allra sjúklinga sem þar nutu frábærrar þjónustu. Persónulegt og afkastahvetjandi starfslag læknanna í anda nunnanna var aflagt með handafli og þeir þvingaðir til að starfa eftir stimpilklukku í ópersónulegu fastlaunakerfi þar sem hin samfelldu góðu tengsl við sjúklingana voru rofin. Óánægja kraumaði undir og gleðin þvarr smám saman.

Næsta atlaga var gerð að Fæðingarheimili Reykjavíkur. Yfirmönnum Landspítala og heilbrigðisráðuneytisins tókst að telja stjórnmálamönnum trú um að þar færi fram dýr og hættuleg starfsemi og það var sameinað Kvennadeild Landspítala og síðan lagt niður í framhaldinu. Framkoman við starfsfólk Fæðingarheimilisins á þessum tíma var vanvirðing við áratugalanga reynslu þess. Þá var ekkert tillit tekið til óska kvenna um að þessi valkostur yrði áfram í boði. Á Kvennadeildinni skyldu þær allar fæða með góðu eða illu. Á sama tíma og Fæðingarheimilinu var lokað var gerð hörð atlaga að St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði. Honum skyldi lokað en með harðfylgi og fullri andstöðu íbúa í Hafnarfirði og nágrannasveitarfélaga tókst að koma í veg fyrir þann gjörning á elleftu stundu.

Horfa verður á rót vandans

Næst var ráðist á Borgarspítalann og Vífilsstaðaspítala, þeir sameinaðir Landspítalanum og Vífilsstaðaspítala síðan lokað. Borgarspítalinn varð að rekstrareiningu innan Landspítalans. Enn stækkaði Landspítalinn, gremja og óyndi starfsfólksins jókst og vonbrigði og óánægja neytendanna, sjúklinganna sem spítalarnir voru byggðir til að sinna, magnaðist. Í Excel-skjalinu stóð að þetta væri sannleikurinn en sparnaðurinn lét á sér standa og eitthvað ólag var á hagræðingunni. Nú var bara eftir að framkvæma seinasta ógæfuverkið: sameina St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði við Landspítalann. Það var síðan gert þvert á vilja alls starfsfólksins, sjúklinganna og fólksins í heimabyggð spítalans. Og nú er ég að tala um sameiningu eins og það var kallað í fjölmiðlum og í kynningum ráðuneytisins. “Sameiningin” fólst í því að spítalinn var lagður niður og húsnæðinu lokað og stendur það nú tómt og yfirgefið. Samþjálfuðu starfsfólki þar sem einstök og rík vinnugleði ríkti var tvístrað og eytt í orðsins fyllstu merkingu.

Og hér komum við að kjarna málsins. Í dag stendur Landspítalinn frammi fyrir óánægju starfsfólks – vinnumórallinn er lélegur. Getur verið að hluti ástæðunnar sé sú að starfsfólkið hefur ekkert val um vinnustað? Starfsmaður á Landspítalanum er í engri aðstöðu til að setja fram gagnrýni á vinnustaðinn, því ef yfirmönnum hans líkar ekki gagnrýnin, þá getur hann hvergi annað farið. Í slíku ástandi verður aldrei vinnufriður eða samstaða – sérstaklega ekki þegar á móti blæs efnahagslega eins og nú.

- Auglýsing -

Ég er sammála nýjum heilbrigðisráðherra um að þessi vandi verður ekki leystur með peningum einum saman. Það verður að horfa á rót vandans. Það verður að byggja upp traust og trúnað við sjúklingana og starfsfólkið. Það er kominn tími til að við horfumst í augu við það að sameiningar í heilbrigðiskerfinu hafa ekki sparað okkur peninga heldur skapað það ófremdarástand atgervisflótta og vantrausts sem við búum við í dag.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-