-Auglýsing-

Er boðskapur næringarfræðinga hafin yfir gagnrýni?

Grænmeti og málbandMikið hefur verið deilt á opinberar ráðleggingar lýðheilsu og næringarfræðinga og sitt sýnist hverjum. Um það verður þó sennilega ekki deilt að ekkert er hafið yfir gagnrýni þegar kemur að mataræði og væntanlega sýnist hverjum sinn fugl fagur í þeim efnum.

Vísa menn þá gjarnan til vísindarannsókna máli sínu til stuðnings þó vitað sé að slíkar rannsóknir geti verið jafn misjafnar og þær eru margar og erfitt fyrir almenning að meta það sem þar kemur fram. Ákveðinn tilhneiging hefur verið hjá opinberum aðilum að afgreiða allt sem ekki er innan ramma opinberra viðmiða sem bull og vitleysu þrátt fyrir að ýmislegt bendi til að svo sé alls ekki.

Það er mikil einföldun að ætla að steypa alla í sama mót því öll erum við ólík og ekki víst að það sem henti einum henti líka þeim næsta. Hitt er svo annað að til þess að ná árangri er mikilvægt að skoða hlutina heildrænt, það er með varanlegri lífsstílsbreytingu burtséð frá því hvaða leið er svo valinn.

Haraldur Magnússon heldur út vefnum heilsusidan.is, hefur grúskað mikið í þessum málum og hefur á þeim sínar skoðanir. Hér fyrir neðan er pistill frá honum og gefum honum orðið.

Fólk furðar sig gjarnan á næringarboðskap hefðbundinna næringarfræðinga, hvernig þeir predika eitt mataræði fyrir alla þrátt fyrir vísindalegar sannanir um ókosti þess og hvernig þeir gagnrýna öll mataræði og fæðu sem samræmist ekki skoðunum þeirra. Hvernig stendur á því að heil stétt getur verið svona þröngsýn og illa upplýst? Hérna eru nokkrar ástæður sem margir sérfræðingar benda á.

Mikið hefur verið skrifað um þau áhrif sem lyfjaframleiðendur hafa á rannsóknir og læknisfræðina sér til efnahagslegan ávinnings. Minna hefur verið skrifað í stóru fjölmiðlunum um pólítísk og efnahagsleg áhrif stóru matvælaframleiðendanna á næringarfræðina. Hér verður farið í nokkrar af þeim ástæðum sem bækur og greinar hafa tilgreint af hverju hefðbundin næringarfræði er eins afvegaleidd og hún virðist vera.

- Auglýsing-

Uppruni á fölskum forsendum

Næringarfræðingar vilja láta líta út sem að opinberar næringarleiðbeiningar séu gefnar út með hagsmuni almennings í huga og byggðar á forsendum nýjustu rannsókna. Því miður er það langt frá sannleikanum.

Sannleikurinn er sá að þegar kemur að opinberum næringarleiðbeiningum þá ráða peningar og hagsmunagæsla að mestu leyti ferðinni. Leiðbeiningarnar eru réttlætar með rannsóknum sem eru framkvæmdar og/eða kostaðar af matariðnaðinum (hagsmunaaðilanum) og ýtt áfram til opinbera stofnanna og stjórnvalda af þrýstihópum (enska: lobbyism).

Gott dæmi um fyrirkomulag er hvernig hið opinbera lágfitu-hákolvetnamataræði varð til í höndum stjórnmálanefndar og herferðin gegn mettaðri dýrafitu sem orsakavald hjartasjúkdóma varð að veruleika.

McGovern nefndin

Snemma á sjöunda áratug tuttugustu aldar var sett saman nefnd sem átti að koma með tillögur að næringarleiðbeingum fyrir almenning til að sporna við hjartasjúkdómum sem var þá, eins og nú, stærsta dánarorsök í vestrænum ríkjum. Nefnd þessi, sem gjarnan er nefnd eftir formanni hennar, George McGovern alþingismanni, starfaði á milli 1968 til 1977. George var mikil stuðningsmaður Pritikin mataræðisins og hafði dvalið við heilsumiðstöð Nathan Pritikins, upphafsmanns Pritikins mataræðsins sem predikaði að dýrafita væri orsök offitu, hjartasjúkdóma sem og annara vestrænna lífstílssjúkdóma. McGovern, sannfærður um að dýrafita væri orsök alls ills, gaf út skýrslu í lokin (árið 1977) þar sem hann mælir með lágfitumataræði auk þess sem forðast skal dýrafitu sem væri orsök hjartasjúkdóma og leggja skyldi áherslu á fitulaust fæði úr plönturíkinu. Vinnu og niðurstöðum nefndarinnar var mikið mótmælt af vísindamönnum samtímans sem sögðu að það væri ekki  vísindalegar sannanir fyrir því að dýrafita væri orsök hjartasjúkdóma, né offitu. McGovern svarði þeim mótmælum með því að “stjórnmálamenn lifa ekki við þann munað að geta beðið eftir niðurstöðum langtímarannsókna eins og vísindamenn”.

Í kjölfarið, þrátt fyrir andstöðu fjölda vísindamanna, varð lágfitu-hákolvetnamataræðið að opinberu mataræði Bandaríkjanna og kapp var sett á að greiða leið þess með því að framleiða rannsóknir sem stuttu mataræði þetta og rannsóknir og vinna vísindamanna sem voru í andstöðu við opinberar ráðleggingar voru kaffærðar. Enn í dag er ekki búið að sanna að dýrafita sé orsakavaldur í hjartasjúkdómum og niðurstöður rannsókna hafa færst að benda frá dýrufitu og yfir til þess að kolvetni, og þá sérstaklega einföld kolvetni séu sterkari orsakavaldur fyrir hjartasjúkdóma.

Hægt er að horfa á myndband hérna sem sýnir áhrif McGovern nefndarinnar á næringarleiðbeiningar nútímans.

Hagsmunatengsl matariðnaðarins

Eitt skýrasta dæmið um hvernig matariðnaðurinn hefur tangarhald á næringarfræðisamfélaginu sést á því að nánast allir (ef ekki allir) fjárstuðningsaðilar stærstu næringarsamtaka í heiminum eru stærstu fyrirtæki matariðnaðarins. Stærstu fjárstuðningsmenn þessara næringarsamtaka sem eiga að leiðbeina okkur um heilbrigt mataræði eru t.d. Kellogs, Kóka kóla, Pepsi, Nestle, Hershey, Samtök mjólkuriðnaðarins, Mars og Soyjoy. Allt eru þetta fyrirtæki sem við almenningurinn þekkjum sem stærstu ruslfæðisframleiðendur matariðnarins og engin (nema næringarfræðingar) er í vafa um að þessi fyrirtæki eru leiðandi afl í valda offitu og lífstílssjúkdómum samtímans. Hægt er að sjá þennan lista inn á vefsíðu Næringarsamtaka Bandaríkjanna með því að smella hér.

Einnig er hægt að sjá hvernig þessi risa fyrirtæki sem fjármagna fræðslu næringarfræðinga eiga stóran hluta af þeim fyrirtækjum sem framleiða ruslfæði heimsins með því að skoða eftirfarandi kort. Eins og sést t.d. á kortinu á Mars fyrirtækið fjöldan allann af sælgætisfyrirtækjum og ýtir þessu áfram með heilsufarsblekkingum. Sem dæmi þá skýra þeir vefsíðu sína “Mars healthy living” og þar réttlætir fyrirtækið hvernig sælgæti getur verið hluti af heilbrigðum lífsstíl. Sjáið t.d. með því að smella hér hvernig sælgæti eins og Twix, Skittles, M&M, Snickers og þessháttar getur verið hluti af “heilbrigðum lífsstíl”. Síðan er svona vitleysu ýtt áfram af næringarfræðingum með orðum eins og “sykur er ekki óhollur, hann er að vísu næringarlaus og hefur ekki góð áhrif á tennur, þannig að það ber að borða hann í hófi” og á sama tíma í hvert skipti sem einhver skrifar grein í fjölmiðlum sem segir að sykur sé eitur þá má yfirleitt sjá grein stuttu eftir eftir næringarfræðing sem ver sykurneyslu á ofanverðum forsendum.

- Auglýsing -

Fyrir þá sem vilja lesa um þetta málefni frá mjög góðri heimild geta lesið bókina Food Politics eftir Marion Nestle. Hún er prófessor við næringardeild New York háskólann og hefur verið viðloðin opinberar ráðleggingar til lengri tíma og var t.d. ritstjóri næringarskýrslu Landlæknis í Bandaríkjunum árið 1988. Í bókinni fer hún yfir það hvernig matvælarisarnir hafa áhrif á öll svið opinbera næringarráðlegginga með klækjum.

Afleiðingarnar

Hið raunverulega takmark matariðnaðarins er að framleiða ódýran mat með hámarksgróða. Takmark þeirra er ekkert annað en annara fyrirtækja, að hámarka gróða, ókosturinn þegar matvælafyrirtæki eiga í hlut er að ódýr matur hefur ekki jákvæð áhrif á heilbrigði almennings.

Stóru matvælarisarnir fara sömu leið til að spara og önnur fyrirtæki, nota ódýr hráefni og ódýrustu hráefnin eru maíssoja og hveiti. Þetta eru einmitt þær landbúnaðarafurðir sem Bandaríkin eru leiðandi að framleiða og eru mest niðurgreiddu afurðirnar.

Fyrir þessar sakir nota matvælarisarnir gríðarlegt magn af maís, hveiti og soja og afleiður þeirra í tilbúin matvæli og annað ruslfæði, svo mikið að tilbúin matvæli eru að mestu leiti búin til úr þessum afurðum.

Samkvæmt Michael Pollan samanstendur orkuinntaka meðal Bandaríkjamanns af 554 hitaeiningum af maís og 257 hitaeiningum af soja. Þegar tekið er mið af því að meðalhitaeininganeysla er miðuð við 2.000 hitaeiningar þá standa einungis þessar tvær afurðir fyrir 40% af heildarhitaeininganeyslu meðal Bandaríkjamanns. Viðeigandi er að hafa í huga að neysla okkar Íslendinga er einmitt sögð vera líkari Bandaríkjamönnum en Evrópubúum. Ef við bætum hveiti við þessa upptalningu þá er talið að 67% af hitaeiningainntöku Bandaríkjamanna kemur frá þessum þremur afurðum (hveiti, soja og maís)
Þetta er skelfileg afleiðing gróðrarhyggju stórfyrirtækja í markmiði sínu að búa til ódýran mat, enda er það almenn vitneskja að grundvöllur heilbrigðs mataræðis er fjölbreytt fæði. Það má spyrja sig hvaða áhrif það hefur á heilsu almennings að 67% af hitaeiningum kemur einungis frá hveiti, maís og soja! Ég hef aldrei séð í gegnum árin grein skrifaða af næringarfræðing sem gagnrýnir matariðnaðinn fyrir þessa þróun og mögulega (ég myndi vilja segja augljósa) hættu sem þetta hefur í för með sér.

Annar punktur sem vert er að minnast á er að 91% soja og 85% maís sem framleiddur er í Bandaríkjunum er genabreyttur, sem hefur ýmsa neikvæðar afleiðingar í för með sér. Genabreyting matvæla er gríðarlega efnahagslega mikilvægt fyrir matvælarisana þar sem genabreyting á matvæli gefur fyrirtæki tækifæri á að setja einkaleyfi á afurðina og þar af leiðandi á afurðina um ókomna framtíð.

Peningar ráða

Engin skynsamur maður dregur í efa hvaða áhrif peningar kaupa með því að “styrkja” réttu aðilana. Það er ekki að ástæðulausu að þrýstihópastarfsemi (lobbyismi) er orðinn einn stærsti iðnaðurinn í kringum reglugerðarsmíði stjórnvalda, opinbera og áhrifamikilla samtaka, og mestu peningarnar eru í kringum lyfja- og matariðnaðinn. Hversu sterk þessi áhrif eru sést best á því hvernig næringarfræðingar tala ávallt vel um vörur næringariðnaðarins og tala gegn vörum heilsuiðnaðarins. Hvernig getur t.d. talist eðlilegt þegar næringarfræðingur talar á móti lífrænum landbúnaði sem hefur það takmark að búa til næringarríka fæðu, án eiturefna og megin takmarkið er að skaða ekki viðkvæmt vistkerfi jarðarinnar, og á sama tíma verja þeir hagsmuni genabreytts landbúnaðar sem færir eignarhald matariðnaðarins í hendur fárra matvælarisa með þeim skaða á lífríki jarðar sem ætti að vera hverjum manni augljóst. Það er ekki að ástæðulausu að almenningur er í auknum mæli hætt að treysta ráðleggingum næringarfræðinga. Alveg eins og almenningur verður meðvitaðri um hin augljósu tengsl lyfjaiðnaðarins við lækna og hvernig sá iðnaður setur fram falskar rannsóknir til að styðja markaðssetninu lyfja og í kjölfarið hefur orðspor lækna orðið fyrir stórum skaða vegna sinnuleysis lækna að mótmæla þessari þróun. Þá á sér stað nú sama ferli þar sem orðspor næringarfræðinga verður fyrir skaða þar sem þeir ganga hugsunarlaust erinda matvælafyrirtækja sem leggja áherslu á efnahagslegan gróða á kostnað heilbrigði almennings.

Heimildir

http://www.youtube.com/watch?v=xbFQc2kxm9c

http://en.wikipedia.or/wiki/United_States_Senate_Select_Committee_on_Nutrition_and_Human_Needs

http://www.eatright.org/corporatesponsors/

http://www.sott.net/image/image/s5/100859/full/orchestrators_choice3_large.jpg

http://truefoodnow.org/campaigns/genetically-engineered-foods/

http://strongertogether.coop/fresh-from-the-source/soy-and-corn-healthy-choices-or-hidden-ingredients/

http://iquestionauthority.wordpress.com/2010/07/30/the-corn-soy-and-wheat-monopoly/

http://www.guardian.co.uk/news/2006/jul/25/food.foodanddrink

http://www.oprah.com/health/Health-and-Environmental-Consequences-of-Food-Subsidies-Daphne-Oz/2

http://www.stonehearthnewsletters.com/dietitian-association-is-food-industry-friendly-and-dominates-usda-dietary-guidelines-healthy-nation-coalition/nutrition/

Pistillinn er úr smiðju Haraldar Magnússonar Osteópata B.Sc (hons) sem heldur úti vefsíðunni heilsusidan.is.  Haraldur eða Halli Magg hefur lesið heilsutengd málefni síðan hann var unglingur og keypti sína fyrstu fræðibók 15 ára gamall. Hann hefur sótt óteljandi námskeið og fyrirlestra erlendis hjá fremstu fyrirlesurum á sviði næringar og þjálfunnar.

Halli er með B.Sc (hons) gráðu í osteópatíu, einkaþjálfarapróf og síðast sótti hann hálfs árs nám hjá Dr. Daniel Kalish í Functional medicine, auk þess að taka sérhæfingu í taugaboðefnameðhöndlun. Aðaláhugamál Halla er að fræðast um ástæður hrörnunar nútímamannsins og hvaða lausnir eru í boði. Halli tekur fólk í stoðkerfameðferð og heldur fyrirlestra. Hægt er að hafa samband við hann í 841-7000.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-