-Auglýsing-

DV: Horft niður í hyldýpið

BlóðþrýsitngsmælingÍ DV birtist leiðari eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttir þar sem farið er yfir brothætta stöðu heilbrigðiskerfisins okkar. Öryggi sjúklinga er ekki tryggt og staðan er alvarleg.

„Taktu nú eftir, og þetta eru ekki ýkjur hjá mér: Er fólk farið að deyja á Íslandi af því heilbrigðiskerfið er holað að innan, er fólk raunverulega farið að deyja?“ spurði Kári Stefánsson, læknir og forstjóri erfðafyrirtækisins Decode, í viðtali við DV fyrr í sumar. Kári hefur eins og svo margir miklar áhyggjur af niðurskurðinum í íslenska heilbrigðiskerfinu og afleiðingum hans, og telur að nú sé svo komið að niðurskurðurinn kunni að vera farinn að leiða til dauðsfalla.

DV greindi frá því að Methúsalem Þórisson hefði farið til læknis með verk aftan í hálsi sem leiddi niður eftir hendinni. Læknirinn sendi Methúsalem heim og sagði honum að hvílast, þar sem verkirnir stöfuðu líklega af þreytu. Tveimur dögum seinna kom konan að honum látnum heima. Hann hafði fengið hjartaáfall.

Fleiri sögur hafa verið sagðar af fólki sem telur sig ekki hafa fengið viðeigandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Í DV á miðvikudag sagði Matthildur Kristmannsdóttir frá því hvernig hún þurfti að ganga á milli lækna til að fá rétta greiningu og neitaði að lokum að fara fyrr en það tækist. Þá var hún komin með þriðja stigs krabbamein í ristli.

Um helgina var svo rætt við Margréti Friðriksdóttur sem missti móður sína í apríl án þess að vita að hún væri með krabbamein. Aðstandendur voru aldrei látnir vita og heimilislæknirinn hennar virðist ekki hafa vera meðvitaður um þetta heldur en Margrét telur að með betra upplýsingaflæði og aðhlynningu hefði verið hægt að bjarga móður sinni. Hún dó hins vegar ein heima og nú fjórum mánuðum síðar er ekki enn vitað fyrir víst hvenær hún dó eða af hverju.

Í ofangreindum tilvikum hefur ekki verið staðfest að um mistök hafi verið að ræða eða óeðlilega starfshætti. Hins vegar vekja þessar sögur upp óþægilegar spurningar. Er öryggi sjúklinga tryggt?
Svar fyrrverandi læknis á Landspítalanum er einfalt, nei – „öryggi sjúklinga er ekki tryggt.“ Þetta sagði Eggert Eyjólfsson og benti á að heilbrigðiskerfið væri orðið mjög laskað, stórslasað og væri að berjast fyrir lífi sínu.

- Auglýsing-

Máli sínu til stuðnings benti hann á að algengt sé að fólk þurfi að bíða meira en viku eftir tíma hjá heimilislækni og tólf tíma á bráðamóttökunni. Erfitt væri orðið að fá að taka röntgenmyndir og tölvur væru að meðaltali átta ára gamlar. Landspítalinn væri óaðlaðandi vinnustaður fyrir allar stéttir, álagið væri gríðarlegt og læknanemar þyrftu að bera of mikla ábyrgð miðað við þekkingu og reynslu. Almennt væri starfsfólk þreytt, óánægt og á lágum launum.

Fleiri læknar hafa tekið í sama streng, eins og þeir Einar Stefánsson og Sigurður Guðmundsson sem starfa á Landspítalanum og eru prófessorar við Háskóla Ísland, og telja að heilbrigðiskerfið sé að molna niður. Ef ekki verði gripið í taumana strax verði erfitt að snúa þeirri þróun við.

Aðrir hafa talað um Landspítalann sem tifandi tímasprengju, þar sem tæki nálgast það að vera lífshættulega úrelt, ef þau eru ekki stöðugt biluð. Bent hefur verið á leka og rakavandamál í stórum álmum á Landspítalanum sem auka smithættu, og þrengsli sem valda því að sjúklingar liggja á göngunum, og torveldar varnir gegn smitandi veirum og bakteríum. Ekki bætir úr skák að myglusveppur hefur myndast á hæðinni fyrir ofan gjörgæsluna.

Enda skoraði fjölmennur fundur lækna á Landspítalanum á stjórnvöld í febrúar að hætta við að taka heilbrigðiskerfi Íslands af lífi á hægan og kvalafullan hátt.

Vandinn er ekki nýr en hann fer vaxandi. Á árunum 2004–2007 var dregið úr opinberum útgjöldum til heilbrigðismála miðað við hlutfall af landsframleiðslu. Eftir hrun versnaði staðan til muna.

Fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, hefur nú gefið það út að áfram þurfi að fá meira fyrir sömu eða minni peninga í opinberum rekstri. Ráðuneytin þurfi að spara eitt og hálft prósent á næsta ári. Á síðasta kjörtímabili gagnrýndi hann fyrrverandi velferðarráðherra og sagði það veruleikafirringu og ábyrgðarleysi að vilja ekki skera frekar niður í velferðarmálum þegar hallinn á ríkissjóði væri svo mikill. Vonandi er það ekki til marks um það sem koma skal.

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar mun skila sínum fyrstu tillögum í haust en samkvæmt formanni hópsins, Ásmundi Einari Daðasyni, er allt ríkiskerfið undir, ráðuneyti sem og ríkisstofnanir. Nú á að velta hverjum steini við og opinberum starfsmönnum gæti fækkað.

Nú reynir því á heilbrigðisráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, sem hefur sagt stöðuna svo slæma að ef þingmenn taki ekki ákvörðun um að forgangsraða ríkisútgjöldum með það í huga að verja heilbrigðiskerfið muni það molna niður með þeim afleiðingum að öryggi sjúklinga verði ógnað. Líkt og Kári og fleiri hafa bent á er ástandið á Landspítalanum og víðar í heilbrigðiskerfinu þess eðlis að við erum komin fram að bjargbrúninni.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-