-Auglýsing-

Afturför að taka lækni af neyðarbíl

Eftir Kristínu Sigurðardóttur: “Með því að fjarlægja lækninn af vettvangi fyrstu viðbragða tel ég að vegið sé að öryggi sjúklinga.”

Læknir hefur verið tekinn af neyðarbíl höfuðborgarsvæðisins. Hann verður þá ekki lengur meðal fyrstu viðbragsaðila á vettvang hjá þeim sem veikastir verða eða þeirra mest slösuðu, líkt og verið hefur undanfarin 30 ár. Læknir mun því ekki veita þessum sjúklingum bestu þjónustu fyrr en þeir eru komnir inn fyrir dyr Landspítalans.

Lífslíkur sjúklinga sem fóru í hjartastopp utan sjúkrahúss tvöfölduðust með tilkomu neyðarbíls með lækni fyrir 30 árum og hefur sá árangur aukist jafn og þétt. Nú er árangurinn á höfuðborgarsvæðinu með því besta sem gerist í heiminum.

Nám og kröfur sem gerðar eru til sjúkraflutningsmanna, bráðatækna og lækna sem sinna bráðaþjónustu á vettvangi hafa aukist, en það hefur skilað sér í mjög öflugu teymi sem sinnt hefur þeim veikustu á vettvangi.

Ég tel varhugavert að taka lækni úr áhöfn neyðarbíls og er sannfærð í ljósi reynslu minnar og menntunnar að hér sé um afturför að ræða.

Allir eru sammála um að þjálfun og nám sjúkraflutningamanna hefur aukist og er það vel. Engu að síður er það svo að þegar ástand sjúklings er mjög alvarlegt getur þekking og reynsla læknis skipt sköpum.

Með því að fjarlægja lækninn afvettvangi fyrstu viðbragða tel ég að vegið sé að öryggi sjúklinga. Þetta er ekki einungis mín skoðun því víða í Evrópu, m.a. á Norðurlöndum, í Frakklandi og Þýskalandi er aðkoma lækna að neyðarþjónustu, þó að með mismunandi hætti sé. Auðvitað mætti endurskoða hvernig það er gert hér og í raun mjög mikilvægt að hafa svo veigamikla þjónustu í stöðugri endurskoðun en þá með það að markmiði að bæta þjónustuna fremur en að draga úr henni.

- Auglýsing-

Þar sem ég þekki til í London er ekki algengt að læknar fari með sjúkrabílunum þar sem það tekur svo langan tíma vegna tafa í umferðinni. Þess í stað er þyrla með lækni og bráðatækni þar sem mikil áhersla er lögð á að þeir þjálfi og vinni saman. Þyrlan er hugsuð til að koma þessu teymi sem fyrst á staðinn til sjúklingsins en ekki endilega til að flytja sjúklinginn, svipað fyrirkomulag eins og verið hefur með neyðarbíllinn í Reykjavík. Þegar myrkvar getur þyrlan ekki flogið lengur en þá tekur bíll með lækni og bráðaliða við til að fara til alvarlegustu sjúklinganna, enda umferðin minni. Heldur er verið að fjölga bílum og læknum í útköllin fremur en að fækka vegna þess að það hefur sýnt sig að það bætir þjónustu við sjúklingana. Þetta, þrátt fyrir sparnað og mikið aðhald í heilbrigðiskerfinu í Englandi.

Er ekki bara best að kalla hlutina réttum nöfnum?
Fjallað hefur verið um neyðarbílinn í fjölmiðlum undanfarinn mánuð en fullyrðingar frá stjórnendum LSH hafa verið misvísandi og stundum ónákvæmar.

Ýmist hefur verið sagt að verið sé að spara, sem er rétt – að hagræða heitir það víst – eða að ekki sé verið að spara heldur að efla þjónustuna, en það er erfitt að skilja þegar verið er að draga úr læknisþjónustu við þá veikustu á höfuðborgarsvæðinu, áður en þeir koma inn fyrir dyr Landspítalans.

Hagræðingin átti að felast í því að taka neyðarbílslækni (sem er ýmist reyndur deildarlæknir eða sérfræðingur) af neyðarbílnum allan sólarhringinn og setja við störf inn á slysa- og bráðadeild (SBD) LSH í staðinn. Hins vegar átti að draga úr annarri mönnun inni á deildinni í staðinn og spara á þann hátt. Stjórnendum er jú gert skylt að spara. En þegar dregið er úr mönnun á sama tíma og aðsókn sjúklinga eykst stöðugt, eins og staðreynd er á SBD LSH er illa unnt að halda því fram að þjónustan við skjólstæðinga hennar aukist, heldur er hætt við að niðurstaðan verði einmitt hið gagnstæða.

Í Codex Eticus, læknaeiðnum stendur:

Hafið velferð sjúklings og samfélags að leiðarljósi.

Minna má á að frá því að tilkynnt var í desember að taka ætti lækni alfarið úr útkallsteymi neyðarbíls höfuðborgarsvæðisins hafa margar athugasemdir borist til yfirstjórnar SBD LSH. Bæði frá neyðarbílslæknunum sem staðið hafa vörð um þessa mikilvægu starfsemi og þeim slysa- og bráðalæknum sem búa erlendis ásamt fleiri læknum sem eru í sérnámi í þessari grein. Allir hafa þeir lýst yfir áhyggjum sínum og jafnvel bent á leiðir til að efla þjónustuna.

 Töf og jafnvel aukakostnaður?
Síðan tilkynnt var að það ætti alfarið að leggja niður læknisþjónustu í neyðarbíl hafa stjórnendur LSH lagt til eftirfarandi:

- Auglýsing -

1. Að reynt verði að senda lækni af SBD, sem er að vinna við að sinna sjúklingum, í útkall. Það getur á hinn bóginn verið óheppilegt og jafnvel beinlínis hættulegt að hlaupa skyndilega frá veikum einstaklingum þegar aðrir á deildinni eru ekki inni í hans málum. Auk þess er alls óvíst hve lengi læknirinn verður frá. Töf verður á að læknirinn komist á staðinn því að það virðist vera að hann verði kallaður til eftir að fulltrúar slökkviliðsins (SHS) verði komnir á staðinn. Það er háð því að það sé til laus bíll hjá SHS til að fara á SBD og sækja lækninn. Sé laus bíll þá fyrst fer hann til sjúklingsins. Vonandi ekki of seint.

2. Til að koma á móts við það að þurfa ekki að vera háð því að einhver bíll sé laus hjá SHS er nú talað um að reynt verði að fá sérútbúinn, hraðskreiðan bíl á slysa- og bráðadeildina til að flytja lækninn. En þá þarf bílstjóra allan sólarhringinn og aðstöðu fyrir þá á deildinni sem ásamt bílnum er því nýr kostnaðarliður! Þessi kostnaður þarf að dragast frá þeim 30 milljónum króna sem eiga að sparast við þessa aðgerð. Hefði þá ekki verið betra að halda áfram í núverandi kerfi, að læknir og sjúkraflutningsmaður eða bráðatæknir fari í útköllin saman og samnýta sameiginlega sérútbúinn og hraðskreiðan sjúkrabíl frá Rauða krossinum til þess?

Felst ekki ákveðin hagræðing í því fyrir skattborgarana, frekar en að þeir þurfi að borga fyrir einn bíl til viðbótar, bílstjóra og aðstöðu?

Mætti þá hugsanlega leysa þetta mál með því að neyðarbíllinn með núverandi áhöfn (læknir frá LSH og sjúkraflutningsmaður eða bráðatæknir frá SHS) fari frá SB í Fossvogi í stað Slökkviliðsstöðvarinnar í Skógarhlíð, ef stjórnendur LSH halda fast í því ákvörðun að fá lækninn inn á sjúkrahús?

Fækka á verulega útköllum þar sem læknirinn er kallaður til því hann getur ekki verið að sinna veikum einstaklingum inni á LSH og verið í sífellu að hlaupa frá þeim. T.d. á hann ekki lengur að fara til allra meðvitundarlausra einstaklinga eins og verið hefur. Einnig verður að gæta þess að það er ekki alltaf ljóst þegar neyðarbíll fer af stað í útkall hversu alvarlegt ástand sjúklings er og getur það breyst afar fljótt til hins verra.

Vissulega þarf ekki lækni með okkar reynslu í öll útköll – en það er með þetta eins og með botnlangann – það verða alltaf einhverjir óbólgnir botnlangar teknir til að missa ekki af þeim sem verður að fjarlægja til að bjarga lífi sjúklingsins – og menn verða að gera það upp við sig hvort þeir sætti sig við það eða ekki.

Eins er rétt að benda á að verði útköllin töluvert færri fer hver læknir mjög sjaldan í útköll og hætta er á að læknahópurinn fái ekki nægilega góða þjálfun í að slípa til góð og fumlaus vinnubrögð á vettvangi sem þarf þegar mest liggur við.

Ef þú eða þínir nánustu lenda í lífshættulegu slysi eða veikindum myndir þú ekki vilja hafa lækni með í fyrsta viðbragðsteymi?

Höfundur er sérfræðingur í slysa- og bráðalækningum.

Morgunblaðið 24.01.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-