-Auglýsing-

Af hjartabiluðum á vetrardegi

HeiðmörkÉg veit að það ætti ekki að koma mér á óvart þegar vindurinn blæs og hitastigið er lágt, að ég þreytist meira en venjulega og utandyra mæðist ég verulega mikið við ósköp lítið. Þegar ég kem inn er ég þreyttur og dasaður þó ég hafi varla gert annað en að skjótast út í búð, inn og út úr bílnum.
En staðreyndin er sú að þetta kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þannig að í þessu sambandi er ég með gullfiskaminni, en fjandi er þetta erfitt.
Mér hættir nefnilega til að gleyma því að ég er með hjartabilun sem virkar þannig að ég er bara nokkuð góður innandyra í léttum eldhússtörfum og hamra á lyklaborð, en þegar ég fer út og kroppurinn kallar á meira blóðflæði þá rekst ég á vegg þar sem hjartað er stíft og lengi að fylla sig þá dregur þar með undraskjótt úr mér þróttinn, það hefur ekki undan.

Ég hef lifað með þessu í tæp tíu ár þannig að ég ætti nú að vera búinn að ná þessu, en nei og kannski sem betur fer. Þetta gullfiskaminni mitt um takmarkanir mínar gerir það að verkum að ég er alltaf til í slaginn, til í að reyna mig og hjartað, hvort ég hitti á góðan dag og pumpan skili sínu.
Ég fer semsagt oft frammúr mér og þarf svo að borga fyrir það næstu daga. Stundum dugar góður tíu tíma nætursvefn en oft dugar það ekki til og ég bæti á bjúg sem tekur mig nokkra daga að losna við með smá aukaskammti af pissutöflunum mínum.

Fólk sem verður á vegi mínum og þekkir mig ekki tekur ekki svo mikið eftir þessu ég er hressilegur að sjá og set undir mig hausinn og hverf fyrir horn. Á svona dögum þá nota ég stæði fyrir fatlaða enda á ég rétt á því þar sem ég er með kort uppá það í bílnum sem ég stilli í gluggann. Samt er það svo, og síðast í dag fékk ég tvisvar athugasemdir fyrir það að leggja bílnum með þessum hætti. Í annað skipti fékk ég háðska athugasemd en í seinna skiptið þá var mér bent á að ég væri að leggja í stæði fyrir fatlaða. Ég brást ekki vel við sýndi skiltið í glugganum og hreytti út úr mér að það þyrfti ekki hjólastól til að vera fatlaður, sá mig um hönd leit upp og brosti, hann sagði fyrirgefðu hálf vandræðalega.

Mér finnst erfitt að eiga svona daga þegar þrekið þrýtur og vera þannig minntur á fötlun mína, á slíkum stundum læðist stundum tár í krók á stórum strák.  Ég hef þó lært að lifa með þessu og ég er stöðugur í líðan og engar stórkostlegar uppákomur í gangi hjá mér varðandi hjartað, fyrir það er ég þakklátur.
En núna er komið kvöld, kroppurinn þreyttur og stífur og biður um hvíld þannig að ég ætla að lauma mér undir sængina mína sjá hvort ég nái ekki góðum tíu tímum.

Reykjavík 24.01.2012

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-