-Auglýsing-

Að semja frið við líkamann

sigrun_danielsdottir.jpg“Þeir sem fara í gegnum miklar þyngdarsveiflur eru í meiri hættu á hjartasjúkdómum og ótímabærum dauða en þeir sem halda sömu þyngd – þótt þeir séu yfir kjörþyngd” Þetta segir Sigrún Daníelsdóttir t.d.í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Fyrir nákvæmlega einum áratug birtist merkileg ritstjórnar­grein í einu virtasta læknatímariti heims um gildi þess að strengja heit um að grennast á nýju ári. Farið var yfir rannsóknir á skaðsemi aukakílóa, árangri megrunartilrauna og heilsufarslegum áhrifum þeirra. Því er skemmst frá að segja að megrunar­tilraunir reyndust óráðleg áramótaheit.

Rannsóknir sýndu að flestir voru komnir í sömu þyngd innan skamms, margir enduðu jafnvel enn þyngri en þeir voru, og heilsufarslegur ávinningur var enginn. Í stað bættrar heilsu og betri líðunar sátu þeir sem reyndu að grennast eftir með sjálfsásökun og vanmetakennd yfir því að hafa mistekist eina ferðina enn. Verst var að viðleitnin til að efla heilbrigði fór einnig fyrir lítið, kannski vegna þess að bættar lífsvenjur voru aldrei markmið í sjálfu sér. Markmiðið var fyrst og fremst að grennast, sem krefst fæðutakmörkunar sem fæstir geta haldið út í lengri tíma.

Hættulegar þyngdarsveiflur

Þegar líkaminn líður skort fara af stað lífeðlisleg ferli sem miða að því að takmarka þyngdartap og bæta líkamanum upp það sem tapast. Með öðrum orðum fer líkaminn fljótlega að vinna gegn yfirlýstum markmiðum okkar. Líkaminn bregst við breytingum á orkubúskap rétt eins og hann bregst við breytingum á hitastigi. Hann er afar leikinn í þessu enda byggist hæfni okkar til að lifa af ekki síst á getu líkamans til að bregðast við fæðuskorti. Við fæðuskort fara af stað ferli sem draga úr efnaskiptum, auka nýtingu næringarefna og ýta undir vaxandi matarlöngun. Þetta gerir það að verkum að sífellt erfiðara verður að grennast og nær óhjákvæmilegt er að þyngjast aftur.

Annað sem hafa ber í huga er að þegar við töpum þyngd missum við ekki bara fitu, heldur líka massa úr vöðvum, líffærum og beinum. Þegar við þyngjumst aftur bætum við hins vegar aðallega á okkur fitu. Þetta varpar ljósi á rannsóknir sem sýna aukna dánartíðni í kjölfar þess að léttast og þyngjast á víxl. Þeir sem fara í gegnum miklar þyngdarsveiflur eru í meiri hættu á hjartasjúkdómum og ótímabærum dauða en þeir sem halda sömu þyngd – þótt þeir séu yfir kjörþyngd. Þetta höfðu fyrrnefndir ritstjórar læknatímaritsins á bak við eyrað þegar þeir hvöttu heilbrigðisstarfsmenn til að hafa það í huga, áður en þeir ráðlegðu fólki að fara í megrun, að ef til vill væri meðferðin hættulegri en ástandið sem ætti að laga.

- Auglýsing-

Að semja frið við líkamann

Vert er að rifja upp þennan leiðara nú þegar líkamsræktarstöðvarnar keppast um að ýta undir samviskubit yfir jólunum og allir ætla að skapa sér nýjan líkama fyrir nýtt ár. Ekkert hefur breyst á þeim tíma frá því hann birtist og ekkert nýtt komið fram sem rýrir gildi hans. Þvert á móti hafa rannsóknir haldið áfram að staðfesta fyrri niðurstöður. Nú síðast í sumar birtist yfirlitsgrein frá rannsakendum við Kaliforníu­háskóla, með þeim lokaorðum að frekari rannsóknir á árangri megrunar væru óþarfar, þar sem áratuga rannsóknir sýndu alltaf sömu niðurstöðu: Megrun er gagnslaus.

Að vera í megrun er eins og að halda niðri í sér andanum. Það er hægt í smástund en fyrr eða síðar nær eðlishvötin yfirhöndinni. Hvernig væri því að strengja öðruvísi áramótaheit í ár? Hvernig væri að semja frið við líkama sinn og einsetja sér að hugsa vel um hann, elska hann og koma fram við hann af virðingu og alúð? Hugsaðu um allt sem líkami þinn hefur gert fyrir þig. Ef þú ert heppin(n) gerir líkami þinn þér kleift að hreyfa þig, skynja, finna til og taka utan um þá sem þú elskar. Hann gerir sjálfstæði þitt mögulegt með því að gera þér unnt að vinna og sjá um þig og þína. Hann græðir sig sjálfur þegar þú meiðist og getur jafnvel sigrast á erfiðum sjúkdómum. Kannski hefur líkami þinn meira að segja búið til nýtt líf.

Endurnýjaðu tengslin

Líkami þinn er kraftaverk. Hann er afrakstur milljóna ára þróunar sem hefur gert hann þrautseigan, hraustan, langlífan og afburðahæfan til þess að takast á við umhverfi sitt. Hann er hafinn yfir duttlunga samtímans sem miðast við yfirborðskennd gæði, eins og tísku og útlit. Við ættum öll að leiða hugann að þessu þegar við föllum í þá gryfju að meta líkama okkar fyrst og fremst út frá því hvernig hann lítur út eða hvað hann er þungur. Þegar við hugsum neikvætt um líkama okkar eða tölum illa um hann af því að útlitið veldur okkur vonbrigðum sýnum við honum mikla vanvirðingu. Hlutverk líkamans er ekki að vera sýningargripur. Hlutverk hans er að sinna nauðsynlegri virkni svo þú getir lifað. Líklega hefur líkami þinn sinnt þessu hlutverki með sóma árum saman án þess að þú hafir leitt hugann að því.

Ég vona að þú fagnir nýju ári með því að endurnýja tengsl þín við líkama þinn. Taktu honum eins og hann er – alveg eins og hann hefurt þolað súrt og sætt með þér í gegnum árin. Láttu þér þykja vænt um hrukkurnar, fellingarnar og krumpurnar nákvæmlega eins og þær eru og einsettu þér að hugsa um líkama þinn eins og ástkæran vin. Gefðu honum gott að borða, næga hvíld og regluleg átök sem efla hann til dáða. Mundu að heilbrigði skiptir meira máli en holdafar. En umfram allt skaltu gefa líkama þínum hlýjar hugsanir og þakklæti fyrir að vera til. Hann mun launa þér með betra lífi.

Höfundur er sálfræðingur.

www.visir.is 11.01.2007

- Auglýsing -


-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-