-Auglýsing-

Aðdragandinn, áfallið og eiginmaðurinn minn

1000x500
Ég og Bjössi jól 2014

Ég átti samskipti við mann í gegnum netið. Í tvo daga. Skemmtilegar umræður um lífið, viðskipti og heimspekilegar vangaveltur. Við ákváðum að hittast og skipulögðum stefnumót á veitingastað í hádeginu næsta dag.

Hann gekk í salinn, ég var mætt. Hann var dökkur, þrekinn, í síðum frakka. Myndarlegur. Með falleg augu. Við pöntuðum okkur mat og spjölluðum eins og við hefðum þekkst í hundrað ár. Ég verð nú samt að viðurkenna að ég keypti mér salat… hehe sem allir sem þekkja mig vita að þá er ég að þykjast vera meiri dama en ég er. Ég fór aftur í vinnuna eftir þetta deit og mér leið vel. Ég vissi að þennan mann ætti ég eftir að hitta aftur.

Tíminn leið og maðurinn var hress og skemmtilegur. Við áttum góðar stundir en það var erfitt að púsla þessu saman sem sambandi. Við vorum bæði með óleyst mál úti í lífinu, sár á sálinni sem þurftu tíma. Við vorum stundum par og stundum bara spjallvinir í síma. Við bárum alltaf virðingu fyrir hvort öðru og við vissum bæði að þetta væri rétt, við kunnum bara ekki alveg að láta það ganga.

Maðurinn hann Bjössi var svo mikið á lífi. Hann var næstum með svart hár, með svart skegg sem reyndar fékk stundum að fjúka eftir því sem skapið sagði. Ég man svo vel eftir stundum þar sem við vöktum fram á nótt, hlógum, sungum hátt, leystum öll vandamál veraldar og það sem maðurinn gat dansað! Ég fylltist svo mikilli aðdáun þegar ég sá hann nýta alla krafta líkamans til þess að taka jive á stofugólfinu eða syngja ættjarðarlög af fullum krafti í djúpum bassa. Hann hafði endalausan tíma fyrir vini sína og hann hjálpaði fólki sem þurfti á að halda á einhvern hátt. Stundum bara með því að halda í hendina á því og segja því að allt yrði í lagi, stundum þurfti meira til og þá stökk Bjössi af stað, að nóttu sem degi. Það var sérstakt blik í augunum hans. Það var samt alltaf pínu fjarlægð á milli okkar, við gátum ekki alveg fundið taktinn þó við vildum. Við reyndum bæði önnur sambönd, gott fólk, en það gekk ekki. Hugurinn endaði alltaf hjá okkur.

Einn af þeim dögum sem við reyndum að lifa án hvors annars sat ég meðal fólks sem ég þekkti lítið. Þá hægðist á hreyfingum heimsins þegar ég heyrði út undan mér að Bjössi hefði fengið hjartaáfall daginn áður. Maginn fór í hnút, allt varð óraunverulegt, mig svimaði og ég fékk kökk í hálsinn. Eftir að skynfærin náðu áttum á ný og ég var búin að ná því að hann væri á spítala og hefði lifað þetta af þá varð ég einmana. Ég skildi ekki að ég sæti þarna bara og fengi af þessu fréttir úti í bæ eins og mér kæmi þetta ekki við. Ég vissi reyndar að fjölskylda hans vissi svo sem ekkert af mér og líklega væri allt á fullu í að sinna manninum og hann ekki með fullri rænu. Ég vissi líka að ég skipti auðvitað engu máli í þessum aðstæðum og fannst ég sjálfselsk að hafa fundist það um stund. Það skipti bara máli að hann næði sér, enda við ekki saman, minnti ég mig á. En mikið hugsaði ég til hans Bjössa og mig langaði til þess að vera til staðar og hjálpa honum að líða betur.

Eftir hjartaáfallið fylgdist ég með honum úr fjarlægð og svo fór að smám saman urðu samskiptin aftur meiri, þó aðallega í gegnum síma. Mér fannst gott að geta verið til staðar fyrir hann og það var gott að heyra í honum. Ég fann að honum fannst gott að tala við mig. Ég velti því aldrei fyrir mér hvort ég vildi vera með manni sem væri veikur. Ég gerði mér samt í raun ekki grein fyrir því hversu veikur hann væri og hversu mikil barátta væri framundan, en fyrir mér var ég ekki að velja mann sem væri veikur eða ekki veikur, ég var að velja mann sem hafði að geyma sál sem passaði við mína. Ég var að velja mann sem hafði góð augu, sterkar skoðanir, innilegan hlátur og mann sem gat fengið mig til að gera hluti sem ég sjálf var ekki viss um að ég gæti.

- Auglýsing-

Ég hikaði þó. Ekki mín vegna, en ég hugsaði til þess hversu oft hafði soðið upp úr hjá okkur og hvort sá tilfinningalegi rússíbani yrði honum ofviða svona veikum. En ég var samt viss í mínu hjarta að ég vildi vera í lífinu hans Bjössa svo það hvort við næðum saman sem par yrði bara að koma í ljós.

Bjössi fór á Reykjalund. Óörugg tók ég vinkonu mína með í heimsókn til að gera áhuga minn á honum minna áberandi. Við sóttum hann á Reykjalund og fórum með hann að borða KFC kjúkling í Mosfellsbæ… sem ég hef hlegið að í öll þessi ár síðan og get enn ekki skilið hvernig okkur datt í hug að fara með hjartasjúklinginn í dagsferð út af Reykjalundi til að borða djúpsteiktan kjúkling, franskar og kokteilsósu 🙂 En svona er byrjun tilhugalífsins stundum, hugsunin ekki alltaf alveg skýr í spennunni 🙂 En eftir þessa undarlegu daga þar sem við byggðum upp samskipti okkar að nýju í skugga veikinda, varð það í raun aldrei spurning hvort við næðum aftur saman sem par. Þarna í miðjum erfiðum veikindum var bara ró, heiðarleiki og nánd. Það er vissulega undarlegt að byrja að deita einhvern sem liggur inni á spítala en það getur engin leikið eða þóst eða rætt eitthvað sem ekki skiptir máli þegar hann stendur svona nálægt ógninni við lífið sjálft. Í aðstæðunum kynntumst við betur. En hann var breyttur. Og hann átti eftir að breytast meira.

Maðurinn sem ég kynntist upp á nýtt eftir hjartaáfall hafði enga orku. Hann var fölur og grár og augun voru góð en þau voru sorgmædd og stundum hálf tóm því orkan var engin. Hann hafði sömu sál en hún var auðmjúk og ekki jafn hvöss í ákveðni sinni. Hann dansaði ekki lengur jive og hann söng ekki lengur ættjarðarlög en hann var sannur og hann gerði sitt allra besta í baráttu sinni við sjúkdóminn alveg eins og ég hafði séð hann takast á við lífið áður. Vígvöllurinn var bara annar. Ég fylltist aftur aðdáun yfir manninum sem stóð í hálf vonlausum sporum en hafði samt trú og von. Hafði alltaf góð orð handa öðrum og var nú tilbúinn til að gefa mér hjarta sitt, þó laskað væri.

Við fórum saman af stað í þessa ferð sem fyrir utan það að innihalda daglegt líf venjulegs kærustupars, innihélt baráttuna við sjúkdóminn og kerfið. Það var gott að hafa hvort annað og hann reyndist mér einstakur klettur þegar lífið gekk á og ég með fiðrildahugann minn þurfti að fókusa og halda mér á þeirri leið sem ég var á. Ég reyndist honum líka vera orka og gleði þegar sjúkdómar, vonbrigði, reiði og erfiðleikar endalaust börðu á. Við höfum reynst hvort öðru vel eins gölluð og við bæði erum. En með tímanum lærir maður að gallarnir eru oft hin hliðin á kostunum og að þó svo nöldrandi vilji maður losna við einhvern gallann þá kýs maður að halda honum og halda þá hinni hliðinni um leið sem er það sem maður elskar í raun.

Tíminn leið og Bjössi náði ekki heilsu. Málaferli gengu ár eftir ár þar sem við óskuðum eftir staðfestingu þess að röng greining við innlögn hefði orsakað varanleg veikindi hans. Spítalinn og forsvarsmenn hans snéru út úr, Ríkislögmaður beitti okkur andlegu ofbeldi að því er okkur fannst. Endalaus bið, endalaus vonbrigði, endalaus upplifun af því að standa ein, vera peð. Og alltaf héldum við að næsta vor, eða næsta haust, eða næstu jól eða næsta vor, þá yrði þessu loksins lokið. Þá fengi Bjössi niðurstöðu og við gætum snúið frá fortíð og farið að lifa nútíðina í eðlilegu lífi eins og venjulegt fólk.

Eðlilegt líf að því leyti að kljást bara við lífið og tilveruna, sjúkdóminn og afleiðingar hans en ekki kerfið í heild sinni sem okkur fannst vinna gegn okkur. Það sem þetta tók á. Þau eru óteljandi kvöldin sem við eyddum fyrir framan tölvuskjáinn, myljandi reið, sár, í ham, að svara greinargerðum frá læknaráði, yfirlæknum, landlækni, lögfræðingi ríkislögmanns eða einhverjum þeim sem tók nú þátt í vörnum heilbrigðiskerfisins. Stundum fannst mér ég varla geta andað. Ég las aftur greinargerðirnar og ég hreinlega skildi ekki hvernig fólk gat látið svona og af hverju það vildi láta svona gegn okkur. Ég skildi ekki hvað við hefðum gert þessu fólki og stingandi sársaukinn og örvæntingin var svo yfirgnæfandi. Lögfræðingurinn okkar útskýrði írekað að þetta snérist ekki um sanngirni eða réttlæti heldur um kalda túlkun á laganna bókstaf. Ég heyrði undarlega oft í ferlinu að þetta væri ekkert persónulegt á sama tíma og sársaukinn í hjartanu og óttinn var mér mjög persónulegur enda fjallaði þetta allt saman um líf og heilsu þeirrar persónu sem ég elskaði mest. Þetta fjallaði um okkur öll. Ítrekað missti ég taktinn í mínu lífi þegar eitthvert höggið náði mér niður og tók af mér getu til starfs, náms eða annars sem þurfti að sinna eða geta.

Málaferlin tóku næstum níu ár og Bjössi og læknirinn sem ábyrgðina bar áttu samtal og fundu sátt tæpum tíu árum eftir atvikið. Þetta var langt og strangt ferli sem engin ætti að þurfa að ganga í gegnum. Hvorki við né læknirinn. Bjössi fékk svo afsökunarbeiðni frá Landspítalanum rúmum 11 árum eftir atvikið.

í dag eru um 12 ár frá hjartaáfalli og tími okkar saman hefur að hluta einkennst af baráttu og streitu og ítrekuðum bakföllum heilsunnar. Við höfum náð að stíga ölduna saman og munum áfram takast á við það sem þarf. Þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við svo sem ágæt í þessu. Það er mikilvægt að muna það þegar við söfnum orku, nærum sálina og horfum svo bjartsýn fram á veginn, sama hvaða hindranir hann svo sem býður upp á.

- Auglýsing -

Bjössinn minn er í dag heilasta mannvera sem ég þekki. Hann hlær svo dátt þegar orkan leyfir og hann hefur svo mikinn andlegan kraft sem ég stundum ekki skil. Hann er kannski ekki lengur dökkur með dökkt hár og brúnn í framan. Hann er kannski ekki lengur að dansa fram eftir nóttu eða að syngja af fullum krafti. Líkami hans er einfaldlega líkami gamals manns eftir lætin. Það var mjög sérstakt augnablik þegar hann fékk göngugrind um daginn, tímabundið. En hann sinnir fjölskyldu sinni af ástúð. Hann hefur kjark til þess að standa í straumnum og berjast fyrir því sem hann trúir á. Hann er hugaður maður sem hefur á ótrúlegan hátt tekist að aðlagast því takmarkaða lífi sem hann getur lifað. Hann getur ekki gert margt, en mikið gerir hann það skemmtilega það sem hann getur og á gefandi hátt um leið.

Mjöll Jónsdóttir

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-