„Kolvetnasnauðir kúrar hafa verið vinsælir en það getur verið himinn og haf á milli þess hvernig fólk og fræðimenn skilgreinir kolvetnasnauðan kúr eða kolvetnaskertan kúr,“ segir Anna Sigríður Ólafsdóttir, næringarfræðingur. Hún flytur erindið Kál og kartöflur eða kjöt? – kolvetnapælingar á opnu málþingi á Læknadögum í Hörpu á morgun og er aðgangur ókeypis.
„Í nýjum norrænum ráðleggingum um mataræði hefur áherslan á gæði, bæði hvað varðar kolvetni og fitu í matnum, verið aukin. Þannig er áherslan hvað kolvetni varðar á að tryggja nægilegt magn trefja en draga sem mest úr neyslu viðbætts sykurs, þá sérstaklega í formi drykkja,“ segir Anna Sigríður í samtali við mbl.is.
Uppruni trefjanna skiptir máli
Anna Sigríður segir greinilegt að trefjaneysla minnki líkur á ýmsum sjúkdómunum og séu mikilvægur hluti af heilsusamlegu mataræði. „Eins þarf að huga að því að fæðan sé náttúrulega trefjarík. Það er munur á því hvort trefjarnar eru í sínu upprunalega formi í trefjaríkum mat sem er frá náttúrunnar hendi eða þegar trefjum er sérstaklega bætt í matinn,“ segir hún.
„Það má reyndar velta fyrir sér hvort að í framtíðinni verði ekki lögð enn meiri áhersla á að trefjarnar séu jafnframt í mat þar sem þarf að tyggja, því það er munur á því að borða matinn sinn og því að fá sér mauk eða drykk þar sem hægt er að innbyrða mun meira magn á skömmum tíma og sedduáhrifin vantar.“
Hvað vantar þegar kolvetnum er sleppt?
Mikil umræða hefur verið um kolvetni eða kolvetnaleysi að undanförnu. Ef litið var jólabækurnar í bókabúðum fyrir jólin mátti sjá að LKL-matarræðið (lágkolvetna-matarræði) hefur greinilega vakið athygli landsmanna. „Kolvetnasnauðir kúrar hafa verið vinsælir en það getur verið himinn og haf á milli þess sem fólk og fræðimenn skilgreinir sem kolvetnasnauðan eða kolvetnaskertan kúr,“ segir Anna Sigríður.
„Í almennum ráðleggingum er talað um að kolvetni eigi að veita 45-60% orkunnar sem við innbyrðum á dag, en það má segja að þessar tölur gagnist almenningi lítið og þeim er frekar ætlað að vera til hliðsjónar fyrir þá sem setja saman matseðla eða gera rannsóknir á mataræði.“
„Á málþinginu velti ég fyrir mér hvað það er sem vantar þegar við sleppum kolvetnunum. Það ber á því að mikilvægi trefja hafi gleymst í allri umræðunni um kolvetni og kolvetnum öllum verið steypt undir einn hatt, það er hins vegar himinn og haf milli gæða innbyrðis kolvetnanna og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvers maður fer á mis við ef maður gengur of langt í að forðast alla kolvetnagjafa,“ segir Anna Sigríður.
Anna Sigríður flytur erindi sitt, Kál og kartöflur eða kjöt? – kolvetnapælingar á opnu málþingi á Læknadögum í Hörpu kl. 20 á morgun og er aðgangur ókeypis.
Af mbl.is