Næstu daga komum við til með að fjalla um það mataræði sem kemur best út miðað við ýmsa mælikvarða en sá listi var birtur í Bandaríkjunum á dögunum. Eins og gefur að skilja byrjum við á listanum þar sem horft er sérstaklega til hjartans.
Það er ekki síst mataræðið sem kemur einna verst út sem er eftirtektarvert, en í einu af þremur neðstu sætunum er Atkins kúrinn og önnur lágkolvetnamataræði þegar horft er á hjartvæna listann.
U.S. News and World report er vefmiðill sem fjallar meðal annars um heilsu. Á hverju ári fá þeir hóp sérfræðinga til að hjálpa sér að meta þau mataræði sem mikið hefur farið fyrir í Bandaríkjunum á árinu sem er að líða og finna út hvað af því er gott og hvað ekki, á nokkrum sviðum.
Þetta er gert í þeim tilgangi að gera hinum almenna borgara kleift að grisja út hvað er vænlegt til árangurs og hvað ekki, með hjálp sérfræðinga. Þessi sérfræðingahópur er meðal annars með sérþekkingu á sviðum næringar, mataræðis, sálfræði, offitu, sykursýki og hjartasjúkdóma.
Þeir mátu mataræðis prógrömmin á sjö sviðum. Hversu vel þau reyndust til skammtíma þyngdartaps, til langtíma þyngdartaps, hvort auðvelt væri að fylgja prógramminu, hvort næringin sem fólk innbyrgði við að fylgja þeim væri nægjanlega góð, hvort það væri heilsufarslega öruggt að fylgja þeim, hvernig þau reyndust sykursjúkum og hvort þau væru góð fyrir hjartaheilsu fólks.
Gerður var listi sem tók saman niðurstöður úr öllum þessum flokkum samanlagt. Einnig voru gerðir listar fyrir hvern flokk fyrir sig þar sem mismunandi tilgangur liggur að baki hjá hverjum og einum þegar valið er mataræði sem skal fylgja. Til dæmis getur ákveðið mataræði hentað vel til skammtíma þyngdarlosunar en illa fyrir fólk með hjartasjúkdóma.
Á þeim lista sem sniðinn var að fólki sem vill sérstaklega huga að heilsu hjartans eða er að kljást við hjarta- og æðasjúkdóma reyndist mataræði sem kallast „Ornish diet“ koma best út. Þetta mataræði heitir í höfuðið á þeim sem hannaði það, Dean Ornish, sem er prófessor í læknisfræði við Háskólann í Kaliforníu.
Í þessu mataræði er mat skipt í fimm flokka, flokki 1 er heilsusamlegast að fylgja og flokki 5 er síst heilsusamlegt að fylgja. Því meira fæði sem þú neytir í heilsusamlegasta flokknum – því betra fyrir heilsuna, eins og segir sig svo sem sjálft.
Í þessu mataræði er einnig að finna prógrömm sem henta sérstaklega fólki með ákveðin heilsufarsvandamál svo sem hátt kólesteról, háan blóðþrýsting, sykursýki eða hjartasjúkdóma.
Það prógramm sem hannað er sérstaklega fyrir fólk með hjartasjúkdóma er það prógramm sem Ornish er hvað þekktastur fyrir og hefur sýnt góðan árangur. Er það líklega ástæða þess að þetta mataræði skorar hæst í þessum flokki (http://health.usnews.com/best-diet/ornish-diet).
Í öðru sæti var TLC mataræðið (the Therapeutic Lifestyle Changes diet) sem hannað er af Alþjóðlegu heilsufarsstofnuninni (National Institute of Health) og er markmið þess að lækka hátt kólesteról. Samkvæmt Alþjóðlegu heilsufarsstofnuninni er þetta mataræði gott fyrir hjartað þar sem það getur minnkað hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum. Lögð er megin áhersla á að minnka fitu verulega og þá sérstaklega mettaða fitu, en hún getur hækkað slæma kólesterólið í líkamanum en það eykur hættuna á hjartaáfalli og heilablóðfalli (http://health.usnews.com/best-diet/tlc-diet).
Í þriðja sæti má finna DASH mataræðið (Dietary Approaches to Stop Hypertension). DASH mataræðið var hannað af Alþjóðlegu hjarta, lungna og blóð stofnuninni (The National Heart, Lung, and Blood Institute) til að koma í veg fyrir of háan blóðþrýsting og lækka hann ef hann er nú þegar of hár. Samkvæmt þeim eru prótein, trefjar, kalsíum og kalíum mikilvæg næringarefni í baráttunni við of háan blóðþrýsting. Megininntak þessa mataræðis felst í grófum dráttum í því að borða mikið af ávöxtum, grænmeti, grófu korni, fitulitlum mjólkurvörum og kjúkling en minna af sætindum, sykurdrykkjum, fitu, rauðu kjöti og salti.
Í neðstu þremur sætunum má svo finna tvær tegundir mataræðis sem eru mörgum Íslendingum kunn, en það er Atkins og annað lágkolvetnamataræði og Paleo (hellisbúa) mataræðið. Þessi mataræði eru talin ólíkleg til að hafa áhrif til góðs fyrir fólk með hjartasjúkdóma, eða til að koma í veg fyrir hjarta- og æðasjúkdóma (http://health.usnews.com/best-diet/best-heart-healthy-diets?page=4 og http://www.nhlbi.nih.gov/health/public/heart/hbp/dash/dash_brief.pdf).
Aðrar heimildir:
http://health.usnews.com/best-diet
http://health.usnews.com/health-news/health-wellness/articles/2014/01/07/us-news-best-diets-how-we-rated-32-eating-plans