Matreiðslumeistarinn Úlfar Finnbjörnsson sér um sjónvarpsþáttinn Eldað með Holta á ÍNN. Þar eldar hann ljúffenga rétti úr Holtakjúklingi fyrir áhorfendur.
Þættinir eru auk þess aðgengilegir á Hjarta TV hér á hjartalif.is auk þess sem hægt er að fara beint í uppskriftarsafn Holta hér.
Í uppskrift vikunnar frá Holta-kjúklingi færir Úlfar lesendum uppskrift að Paleo-vænum steinaldarkjúklingi með peru-valhnetusósu, marineruðu spergilkáli og rauðkálssalati.
Marinerað spergilkál
1 spergilkálshaus skorinn í bita og settur í skál. Smá ólífuolíu hellt yfir og örlitlu sjávarsalti. Þessu er velt og nuddað vel inn í spergilkálið og geymt í kæli yfir nótt. Smá sítrónusafa ýrt yfir spergilkálið rétt áður en það er borið fram.
Kjúklingur
600 g kjúklingabringur eða -lundir
Sósan
2 perur
Hálft búnt steinselja
smá vatn
1 dl af valhnetum
Safi úr einni sítrónu
Smá salt
Perur eru þvegnar, skornar og settar í blandara eða matvinnsluvél. Gott er að setja smá vatn með til að hnífarnir nái að taka af stað. Látið perurnar maukast vel. Setjið afganginn út í og smakkið til með smá salti. Takið helming sósunnar til að bera fram með réttinum. Hinn helmingurinn er settur á kjúklingalundir eða -bringur sem eru skornar i bita. Kjúklingi velt vel upp úr sósunni. Best er að láta kjötið marinerast yfir nótt en skemmri tími dugir vel. Setjið kjúkling inn í ofn á 160 gráður í u.þ.b. 15 mínútur.
Salat
1/2 haus ferskt rauðkál
2 stönglar sellerí
1 sítróna
1 epli
1/4 tsk. negull
½ tsk. sjávarsalt
½ dl ólífuolía
Rauðkál rifið fínt á mandólín-rifjárni eða skorið í þunnar ræmur. Selleríið skorið á ská í langar ræmur og eplið skorið í kubba. Gott er að rífa börk af appelsínu eða sítrónu út í ásamt því að kreista safann úr sítrónunni ofan á salatið. Hálfum desilítra af ólífuolíu hellt út á og öllu velt vel upp úr vökvanum. Smakkið til með salti og skreytið með valhnetum og sellerílaufum. Hellið afganginum af sósunni yfir kjúklinginn eftir eldun eða berið fram í skál.