-Auglýsing-

Hreyfing er hjartans mál kvenna

Ég var að koma úr áhættumati og kem svona glimrandi vel út. Það má því segja að ég sé dæmi um sextuga konu í góðu formi,” sagði Sigrún Stefánsdóttir brosmild í samtali við Daglegt líf, sem kíkti við í Hjartavernd þegar hún og Bolli Þórsson læknir voru að fara yfir niðurstöðurnar, sem áhættureiknivél Hjartaverndar hafði reiknað út fyrir Sigrúnu að afloknum öllum mælingum og rannsóknum. “Ég get því flogið glöð til Krítar í fríið,” sagði Sigrún, sem segist lengi hafa stundað göngur enda leiðist henni í bíl og hún verði bara stressuð á ljósum. “Í þau sex ár sem ég bjó í Kaupmannahöfn labbaði ég í klukkutíma í vinnu og klukkutíma úr vinnu. Mér reiknaðist svo til þegar upp var staðið að ég hefði gengið fjórum sinnum frá Kaupmannahöfn til Rómar, í kílómetrum talið.”

Konur og kransæðasjúkdómar
Hjartavernd skrifaði nýlega undir samstarfssamning við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands vegna átjánda kvennahlaups ÍSÍ sem fram fer á eitt hundrað stöðum hérlendis sem erlendis laugardaginn 16. júní. Yfirskrift hlaupsins í ár er “Hreyfing er hjartans mál”, en markmið samstarfsins er að vekja athygli á starfi Hjartaverndar og beina kastljósinu að konum og kransæðasjúkdómum, einkennum og áhættu, enda eru hjarta- og æðasjúkdómar ekki síður vandamál kvenna en karla.

-Auglýsing-

Besta forvörnin
“Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök kvenna og valda mun fleiri dauðsföllum en allar tegundir krabbameins samanlagt. Hreyfing og heilbrigðir lífshættir eru ein mikilvægasta forvörnin og hefur hreyfing sérstaklega jákvæð áhrif á konur og verndar þær betur en karla gegn kransæðastíflu. Konur, sem hreyfa sig að jafnaði í hálftíma á dag, minnka líkurnar á kransæðastíflu um 30%,” segir Bolli Þórsson, læknir hjá Hjartavernd.

Hollt mataræði er einnig mikilvægt þegar kemur að heilbrigði hjarta- og æðakerfis. Offita er einn af áhættuþáttunum auk þess sem hún hefur neikvæð áhrif á aðra þekkta áhættuþætti eins og háþrýsting, sykursýki og kólesteról. Með réttu mataræði og hreyfingu er því hægt að minnka líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum talsvert og eiga heilbrigt hjarta ævilangt. Hætta á að deyja úr kransæðastíflu fjórfaldast hjá konu sem reykir pakka á dag. Ef fimmtugur einstaklingur, sem reykt hefur pakka á dag, hættir að reykja, bætir hann að meðaltali fimm til sex árum við ævi sína.

- Auglýsing-

Einkennin oft lúmskari
Einkenni kransæðastíflu geta í sumum tilfellum verið önnur hjá konum en körlum. Þau eru stundum óljósari og lúmskari og lýsa sér ekki í hefðbundnum verk, sem oftast er yfir brjóstkassa og leiðir út í vinstri handlegg. Hinsvegar geta karlar haft þessi einkenni líka og merki um kransæðastíflu skal ávallt taka alvarlega, sama hver á í hlut, að sögn Bolla.

Þó mælt sé með því að karlar fari að huga að áhættumati um fertugsaldur,er mælt með því að konur geri alvöru úr því að panta tíma um eða eftir tíðahvörf þar sem áhætta kvenna er talsvert öðruvísi en áhætta karla.

Áhættumat Hjartaverndar, sem krefst tveggja heimsókna, byggir á áratuga rannsóknum Hjartaverndar á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Það fylgir alþjóðlega viðurkenndum stöðlum og nýjustu þekkingu við greiningu og meðferð kransæðasjúkdóma á frumstigi. Áhættumatið er kerfisbundið, ráðgjöf er markviss og einstaklingsmiðuð og er ný áhættureiknivél Hjartaverndar notuð við matið. Með matinu er unnt að greina forstigsbreytingar æðakölkunar í hálsslagæðum og kransæðum áður en þær valda einkennum. Þá er hægt að hamla framgangi sjúkdómsins með lífsstílsbreytingum og réttri lyfjameðferð.

Einkennin
Merki kransæðastíflu hjá konum geta verið:

* Almenn óþægindi, þrýstingur eða verkur í miðjum brjóstkassa, jafnvel undir bringubeini eða á milli brjóstanna.

*Óþægindin geta leitt upp í efri hluta líkamans, út í annan eða báða handleggi, út í bak, háls eða kjálka.

*Mæði, sem getur komið án þess að óþægindi eða verkur í brjóstkassa fylgi með.

*Verkir í kviðarholi sem lýsa sér eins og meltingarfæratruflanir.

*Þróttleysi og þreyta án þess að ástæða sé fyrir.

*Kvíði og óróleiki, kuldahrollur, flökurleiki og svimi.

- Auglýsing -

Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur

join@mbl.is

Morgunblaðið 13.06.2007 

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-