-Auglýsing-

12 E

dagur3bSatt best að segja þá er mér allskostar fyrirmunað að muna hvenær ég var fluttur af gjörgæslu yfir á 12 E. Mjöll sagði mér hinsvegar að það hefði verið á föstudagsmorgni.

Ég á mér minningabrot, en ég á erfitt með að raða þeim saman í tímaröð. Ég veit heldur ekki nákvæmlega hvort þessi minningabrot eru eitthvað sem ég raunverulega man eða eitthvað sem mér hefur verið sagt frá. Ég veit þó að morfínskammtarnir sem ég hafði fengið eftir aðgerðina voru farnir að segja til sín og ég var orðin dálítið ruglaður af öllu saman. Aðfaranótt laugardagsins náði þetta þó hámarki og sleit ég mig lausan við slöngur og dót og ætlaði heim.
Ekki var þetta löng næturganga hjá mér, þar sem ég var ekki í ástandi til stórræða. Var ég stöðvaður, skellt upp í rúm og gefið haldol.
Fyrir þá sem ekki þekkja þá er haldol gefið þeim sem erfitt er að hafa stjórn á og var ég sleginn út með lyfinu. Orsakirnar fyrir þessu óráði mínu voru taldir vera stórir morfínskammtar.

-Auglýsing-

Ég man ekki mikið en mitt í öllu þessu á ég minningabrot þar sem mér fannst ég vera í Rússlandi og það stæði til að drepa mig og satt best að segja var þetta mjög raunverulegt  og í alla staði óhugnarleg tilfinning, ég var skíthræddur. Annað brot af minningum á ég um pabba minn þar sem hann kom til mín á sjúkrabeðið og hélt í höndina á mér, það þótti mér vænt um og ég held ég hafi grátið. Mjöll var vakin og sofin yfir mér og sagði mér að þótt ég hefði verið ringlaður og lítið vitað í þennan heim né annan, kom ég henni og starfsfólki til að brosa.

Í einu tilfellinu fór ég að segja henni frá stúlknakór sem ég hefði verið að hlusta á og hefði mér þótt það fagur söngur. Vitaskuld hafði engin stúlknakór verið þarna á ferðinni. Í annað skipti þegar ég framkallaði bros á þessu tímabili var þegar ég óskaði eftir því að fá að tala við íþróttafréttaritara mjög alvarlegur í bragði. Ekki kann ég neinar skýringar á þessum hugmyndum mínum nema ef vera skildi að ég hafi heyrt englasöng og hafi fundist það vera íþróttaafrek að lifa þetta allt saman af!

Daginn eftir, sunnudag var ég að nálgast það að koma aftur til sjálfs míns. Dagurinn var erfiður en samt klár merki um að ég væri að byrja að jafna mig. Seinnihluta sunnudagsins leið mér þó illa og fékk hraðaslátt þar sem púlsinn rauk upp í um 220 slög og varð töluvert uppstand um tíma. Ég fékk strax lyf og jafnaði mig á þessu en mikið óskaplega var þetta óþægileg og vond tilfinning.

Svefninn fór skánandi og mér leið smámsaman betur en það væri synd að segja að ég væri góður. Það sem kannski var mest sláandi var sú staðreynd sem skurðlæknirinn fræddi okkur um, að ég hefði í raun  verið úr mestu lífshættunni um leið og búið var að opna mig. Í aðgerðinni kom í ljós að gúlpurinn gerði það að verkum að þykktin á hjartaveggnum var aðeins um einn millimeter og ef hann hefði sprungið hefði ég ekki möguleika á því að lifa það af. Það kom einnig í ljós í aðgerðinni að útstreymisbrot hjartans var aðeins um 18% fyrir aðgerð og ástand mitt heldur verra en ráð hafði verið fyrir gert.

- Auglýsing-

Líf mitt hafði sannarlega verið í hættu og sú tilfinning mín fyrir aðgerð, að ég væri deyjandi maður, hafði verið rétt.

Þarna urðu mér kannski enn ljósari afleiðingar mistakanna sem höfðu átt sér stað þegar ég fékk hjartaáfallið og í mér kraumaði reiði í garð þess læknis sem bar ábyrgð á mistökunum.

Ég var þakklátur skurðlækninum fyrir að hafa gert á mér aðgerðina og ég var þakklátur lækninum mínum fyrir að hafa stuðlað að því að hún gæti átt sér stað.

Mér fannst ég ekki lengur deyjandi maður, lífi mínu hafi verði bjargað.

Hugrenningar frá fyrstu vikunni eftir DOR aðgerð og bypass í júní 2004.

Århus 25. Janúar 2010

Björn

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-