1. Borðaðu vel!
Reglulegar og næringarríkar máltíðir eru nauðsynlegar til að ná bata. Heilbrigt mataræði er forvörn fyrir fjölskylduna og viðhald fyrir sjúklinginn. Gerðu matarplön í samvinnu við aðra fjölskyldumeðlimi… eitt skref í einu… Meðalvegurinn er aðalatriðið. Ekki gera of mikið á of stuttum tíma.
2. Sofðu nóg!
Hvíldu þig þegar þú þarft og sérstaklega ef þú hefur ekki fengið góðan nætursvefn vegna veikinda maka þíns. Það að eiga veikan maka getur haft áhrif á svefnvenjur þínar og það er mikilvægt að leyfa þeim breytingum að eiga sér stað eins og þarf. Ekki telja klukkutímana sem þú sefur, fylgdu því hvernig þér líður. Nýjar svefnvenjur venjast og verða eðlilegar með tímanum.
3. Farðu í geðgöngu á hverjum degi!
Það er ekkert jafn frískandi og vindur í hári og náttúra undir fæti! Ef þú mögulega getur þá skaltu taka maka þinn með í göngutúra þar sem þið getið notið útiverunnar saman. Regluleg hreyfing er nauðsynleg fyrir þig til að halda heilsunni, líkamlegri og andlegri! Það að upplifa náttúruna getur hjálpað þér að greina tilfinningar þínar og losa um streitu.
4. Slakaðu á!
Andaðu djúpt, hlustaðu á fallega tónlist, hlæðu hátt og finndu eitthvað til að vera þakklát/ur fyrir á hverjum degi. Byggðu upp jákvætt viðhorf gagnvart þeim verkefnum sem fyrir ykkur eru lögð. Þau verða þarna til að takast á við hvort sem brosað er eða ekki. Njóttu lífsins! Þú átt það skilið að næra sálu þína með einhverju skemmtilegu á hverjum degi.
5. Vertu upplýstur maki!
Spurðu um allt sem þú þarft til að skilja þennan veruleika þinn sem maki hjartasjúklings. Það minnkar kvíða að vera upplýstur. Áttaðu þig á því að þú þarft tíma til að jafna þig líka. Til að ná þinni venjulegu einbeitningu og hugsun. Vertu opin/n fyrir nýjum upplifunum og nýjum veruleika en ekki ætlast til þess að þú sért fullkomin/n.
6. Segðu söguna þína!
Veldu vin til að deila reynslu þinni og leyndarmálum með. Það getur skýrt huga þinn að tjá þig upphátt eða á blaði. Það kemur reglu á óregluna og minnkar tilfinninguna um að þú standir í þessu einn. Það að muna og deila með öðrum er ein af þessum venjubundnu leiðum til að vinna með sorgina sem fylgir missinum á lífi, lífsgæðum, venjum eða hverju sem er.
7. Meðtaktu tilfinningar þínar!
Tilfinningar þínar lýsa því hversu mikil áhrif veikindi maka þíns hafa haft á þig. Sorg, ótti og reiði eru eðlileg viðbrögð við missi og særindum. Tár eru góð hreinsun! Meðtaktu allt sem þú finnur, tilfinningar þínar eru leið þín til bata með maka þínum, leiðin til þakklætis, samúðar og fyrirgefningar.
8. Ekki gleyma að snerta!
Tjáðu ást þína á viðeigandi máta fyrir ykkur tvö. Haldist í hendur þegar þið farið út að ganga, mætist með kossi í eldhúsinu eða kúrið að kvöldi til. Allir þurfa ástúð og stuðning, sérstaklega eftir aðskilnað vegna skyndilegs áfalls og spítalavistar. Það er eðlilegt að þurfa að endurbyggja traust og samskipti í sambandinu eftir veikindi.
9. Fáðu stuðning!
Það nær enginn bata einn. Allir þurfa og eiga skilið stuðning og hvatningu til að syrgja missi og heila sár sín eftir óvænt áföll. Leyfðu þér að meðtaka aðstoð vina þinna og fjölskyldu.
10. Fagnaðu!
Hvert skref batans, hver mælanlegur árangur sem næst í átt að bata er efni til fagnaðar: faðmlag eða fallegt kort. Það að viðurkenna árangur er árangur. Njótið hvers dags sem þið eigið saman!