-Auglýsing-

Lífsreynsla og hjartaheilsa: Áföll setja mark á æðakerfið

Áföll í æsku, langvarandi álag og streita geta sett mark á hjarta og æðakerfi á fulloðrðinsárum.

Við tölum stundum um að einhver hafi gengið í gegnum mikið í lífinu – en hvað merkir það þegar við skoðum málið frá sjónarhorni hjartans? Er hægt að mæla hvernig áföll, sorg og streita setja mark sitt á hjarta- og æðakerfið?

Nýlegar rannsóknir sýna að sálræn og félagsleg áföll geta haft bein áhrif á líkamlega heilsu – og þá ekki síst hjartað. Lífsreynslan sem skekur sálina skjálfa getur sannarlega látið hjartað hiksta.

-Auglýsing-

Áföll í æsku – fræin sem síðar spretta sem áhættuþættir

Rannsóknir hafa sýnt að áföll í æsku – það sem kallað er „adverse childhood experiences“ (ACE) – geta aukið líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum síðar meir. Þeir sem hafa orðið fyrir ofbeldi, skort öryggi eða orðið fyrir tilfinningalegri vanrækslu eru líklegri til að þjást af háþrýstingi, hjartasjúkdómum og æðasjúkdómum og jafnvel hjartaáföllum síðar á ævinni.

Ein slík rannsókn sem birt var á vef American Heart Association sýndi að fólk sem hafði upplifað mörg áföll í æsku var allt að 50% líklegra til að greinast með hjarta og æðasjúkdóma en þeir sem höfðu ekki sambærilega reynslu. Þessi áhrif haldast jafnvel eftir að tekið hefur verið tillit til annarra áhættuþátta eins og reykinga, hreyfingarleysis og offitu. Þetta eru því ekki aðeins félagslegir eða hegðunartengdir þættir – heldur líkamleg svörun við streitu snemma á lífsleiðinni.

Þegar streitan festir sig í líkamanum

Streita er náttúrulegt viðbragðskerfi líkamans, en þegar hún verður krónísk eða fastur hluti daglegs lífs þá fer hún að vinna gegn okkur. Kortisól, sem er eitt helsta streituhormónið, hækkar í blóði, blóðþrýstingur hækkar, æðaþelið verður fyrir áhrifum, æðarnar stífna og bólga í líkamanum magnast. Með tímanum geta þessir þættir stuðlað að myndun æðakölkunar og aukið líkur á hjartaáföllum.

Í grein sem birtist í The American Journal of Medicine er streita talin „undirrót“ margra líkamlegra kvilla, sérstaklega þó hjarta og æðasjúkdóma. Þar segir að andleg og tilfinningaleg vanlíðan hafi jafnmikil áhrif og há kólesterólgildi eða reykingar – en sé síður mæld eða tekin alvarlega í læknisfræðilegri umönnun.

- Auglýsing-

PTSD og hjartað – ofnæmi fyrir lífinu

Áfallastreituröskun (PTSD) hefur verið tengd við aukna hættu á hjarta og æðasjúkdómum, sérstaklega meðal kvenna og þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi eða missi. Þeir sem hafa fengið slíka greiningu eru með óeðlilega mikla virkni í „bardaga eða flótta“ (fight or flight)-kerfi líkamans, jafnvel þegar engin raunveruleg hætta er til staðar. Þetta veldur viðvarandi spennu í líkamanum, sem hefur áhrif á hjarta og æðar.

Í nýrri greiningu sem birt var á ScienceDirect kemur fram að einstaklingar með PTSD eru líklegri til að þróa með sér kransæðasjúkdóma, jafnvel þó tekið sé mið af öðrum áhættuþáttum.

Konur og hjartaheilsan – þegar áföllin eru ósýnileg en áhrifin djúp

Konur, sérstaklega þær sem hafa orðið fyrir áföllum í æsku, virðast vera í sérstökum áhættuhópi. Í rannsókn frá Emory-háskóla í Bandaríkjunum kom fram að svartar konur sem höfðu upplifað mikla streitu og áföll í æsku höfðu mun verri æðastarfsemi og meiri langvarandi bólgur en þær sem höfðu ekki upplifað slíka lífsreynslu. Þó þessi rannsókn taki mið af tilteknu þjóðfélagshópi, þá varpar hún ljósi á mikilvægi þess að heilbrigðiskerfið taki mið af áföllum í mati á hjartaheilsu – og geri það kynjamiðað.

Hvað getum við gert?

Í fyrsta lagi verðum við að viðurkenna að hjartað er ekki bara dæla – heldur líka viðkvæmur nemi fyrir lífsreynslu. Það bregst við tilfinningum og aðstæðum alveg eins og það bregst við súrefni og blóði. Þegar einstaklingur með sögu um áföll eða sálræna erfiðleika kemur til læknis með blóðþrýstings eða hjartsláttartruflanir – þá þarf að skoða meira en bara tölurnar.

Það er mikilvægt að bjóða upp á sálræna meðferð samhliða líkamlegri meðferð, sérstaklega fyrir þá sem hafa upplifað áföll. Streitustjórnun, núvitund, hugræn atferlismeðferð og félagslegur stuðningur geta haft veruleg áhrif – ekki bara á líðan heldur á lífslíkur.

Að lokum

Lífið er ekki alltaf mjúkt – og sumir ganga í gegnum meira en aðrir. En þegar við skoðum hjartaheilsu í ljósi lífsreynslu þá sjáum við að hjartað gleymir ekki – það geymir. Áföll og streita eru ekki bara andlegir þættir heldur hljóma þau í takt hjartans. Þess vegna þurfum við að horfa á hjartað sem hluta af stærri heild: líkami, sál og samfélag.

Verum góð við hvort annað því við eigum það skilið.

Björn Ófeigs.

- Auglýsing -

Heimildir

  1. American Heart Association (2020). Traumatic childhood increases lifelong risk for heart disease, early death.
    👉 https://www.heart.org/en/news/2020/04/28/traumatic-childhood-increases-lifelong-risk-for-heart-disease-early-death
  2. The American Journal of Medicine (2022). Psychological Stress and Heart Disease: Fact or Folklore?
    👉 https://www.amjmed.com/article/S0002-9343(22)00137-1/fulltext
  3. ScienceDirect (2024). Cardiovascular impact of post-traumatic stress disorder.
    👉 https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0146280624002718
  4. Emory University News Center (2025). Childhood trauma in Black women increases incidence of cardiac events.
    👉 https://news.emory.edu/stories/2025/02/hs_cardiac_health_trauma_02-26-2025/story.html
  5. Wikipedia. Adverse childhood experiences.
    👉 https://en.wikipedia.org/wiki/Adverse_childhood_experiences

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-