Vísindamenn Landspítala – háskólasjúkrahúss og Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar hafa birt vísindagrein í vísindatímaritinu Stroke, sem leiðir í ljós að tengsl eru á milli hjartasjúkdómsins gáttatifs, minnkaðs heilarúmmáls og minnisskerðingar.
Rannsóknin, sem hefur vakið athygli, sýnir að þessi tengsl eru óháð því hvort viðkomandi hafi fengið heilablóðfall með heiladrepi.
Í rannsókninni var skoðaður 4.251 þátttakandi í öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Meðalaldur þeirra var 76 ár. Vilmundur Guðnason, prófessor og forstöðulæknir Hjartaverndar, stóð fyrir rannsókninni ásamt Davíð O. Arnar hjartasérfræðingi.
Í ljós kom að þátttakendur með gáttatif höfðu minni heilavef í samanburði við þá sem ekki höfðu gáttatif. Sambandið var sterkara eftir því sem byrði hjartsláttaróreglunnar var meiri og því lengra sem liðið var frá því að gáttatif greindist fyrst.
Gríðarlegur kostnaður
Gáttatif er hjartsláttartruflun sem stafar af truflunum á rafboðum frá efri hólfum hjartans og er heilablóðfall alvarlegasti fylgikvilli þess. Vilmundur segir að afleiðingarnar sem í ljós koma í þessari rannsókn megi orða sem svo að hjartað nái ekki að dæla nægilega miklu blóði upp í heilann, sem veldur súrefnisskorti.
Niðurstöðurnar þykja ekki síst athyglisverðar í ljósi þess að önnur íslensk rannsókn eftir sömu höfunda sem birt var árið 2011 spáir líklegum faraldri þessa sjúkdóms. Gríðarlegur kostnaður fylgir honum, bæði vegna innlagna á sjúkrahús og kostnaðar á lyfjum, en áætlað er að rúmlega 1% kostnaðar í heilbrigðiskerfum vestrænna þjóða sé tilkomið vegna gáttatifs og fylgikvilla þess.
Vilmundur segir niðurstöðurnar auka enn frekar mikilvægi þess að meðhöndla gáttatif því í stórum hluta tilfella sé hægt að endurheimta eðlilegan hjartsláttartakt, s.s. með lyfjum.
omfr@mbl.is
Morgunblaðið 14.03.2013