
Gáttatif er ein algengasta hjartsláttartruflunin. Hjartað slær þá óreglulega og oft hraðar en venjulega, sem getur aukið hættu á blóðtappa og heilablóðfalli.
Markmiðið hér er að útskýra einkenni, greiningu og meðferð í stuttu máli og hvenær á að leita hjálpar.
Einkenni sem vert er að þekkja
Algeng einkenni eru hjartsláttarónot, mæði við áreynslu, svimi, þreyta eða brjóstverkur. Sumir finna þó lítil sem einginn einkenni. Ef skyndilega birtast einkenni eins og skakkt munnvik, erfiðleikar með tal eða skyndileg minnkun á styrk í handlegg eða fæti hringdu strax í 112 (getur verið heilablóðfall).
Greining og áhættumat
Gáttatif er staðfest á hjartariti (ECG). Snjallúr og heilsuapp geta vakið grun en staðfesting fer fram á heilsugæslu/sjúkrahúsi. Áhætta á heilablóðfalli er metin með stöðluðu stigakerfi sem kallast CHA₂DS₂-VASc. Út frá því er metið hvort þörf sé á blóðþynningu. Hjartaómun og blóðprufur geta hjálpað til við að finna orsakir og velja rétta meðferð.
Meðferð – að draga úr áhættu og einkennum
Tveir meginþættir:
- Forvörn gegn blóðtappa með blóðþynningu þegar ábending er til staðar.
- Stjórnun hjartsláttar: annaðhvort að hægja á hjartslættinum eða reyna að endurheimta reglulegan takt með lyfjum, rafvendingu eða brennsluaðgerð.
Lífsstíll skiptir máli: stjórna blóðþrýstingi, þyngd og blóðsykri, gæta að svefni (kæfisvefn), hreyfa sig reglulega og fara varlega í áfengi.
Hvenær á að leita hjálpar?
Ný eða versnandi einkenni, brjóstverkur, mæði í hvíld eða yfirlið → bráðamóttaka. Ef þú ert með greint gáttatif skaltu vera með plan með lækni um blóðþynningu, lyf og eftirfylgd og vita hvenær á að hafa samband.
Að lokum
Gáttatif er algengt, stundum erfitt viðureignar en vel meðhöndlanlegt. Rétt greining, markvissar forvarnir og vel stillt meðferð geta minnkað áhættu og bætt líðan til muna.
Björn Ófeigs.
Heimildir
European Society of Cardiology (ESC) – 2024 leiðbeiningar um gáttatif (Eur Heart J): https://academic.oup.com/eurheartj/article/45/36/3314/7738779
ESC – Atrial Fibrillation Guidelines (yfirlit): https://www.escardio.org/Guidelines/Clinical-Practice-Guidelines/Atrial-Fibrillation
ACC/AHA/ACCP/HRS – 2023 leiðbeiningar um gáttatif (Circulation): https://www.ahajournals.org/doi/10.1161/CIR.0000000000001193
AHA Journals – CHA₂DS₂-VASc og slagáhætta í AF (Stroke): https://www.ahajournals.org/doi/10.1161/STROKEAHA.118.021453
PubMed – Kæfisvefn og gáttatif, yfirlit (2023): https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/37371131/







































