
Það er áskorun en til mikils að vinna að finna sína leið til að stunda útivist þegar maður er hjartabilaður. Það þekki ég af eigin raun.
Þegar ég komst að því að ég gæti hjólað á rafmagnshjóli ákvað ég að stofna verkefnið Hjólað fyrir hjartað sem er í raun mitt eigið ferðalag bókstaflega og táknrænt þar sem hjartað, náttúran og lífið fá að mætast á hjóli.
Þetta snýst ekki um að vera fljótastur, sterkastur eða fara lengst. Þetta snýst um að vera á hreyfingu innan sinna marka og getustigs, finna gleðina í hverri ferð og svala lífsþorstanum.
Hjólið heitir Bjartur
Já, hjólið mitt heitir Bjartur. Það er rafmagnshjól og án þess væri þetta ferðalag ekki mögulegt. Eins og ég nefndi í upphafi er ég er með hjartabilun, er með gangráð/bjargráð og hef gengið í gegnum bæði þræðingar og stóra opna aðgerð á hjartanu. Að hjóla upp brekku væri draumsýn ef ég væri á hefðbundnu hjóli. En með Bjarti get ég hjólað innan minna marka, stillt hjálpina eftir því hvernig mér líður þann daginn og upplifað þá frelsistilfinningu sem margir taka sem sjálfsögðum hlut.
Það sem áður var „ómögulegt“ er nú orðin kærkomin hreyfing. Ég stjórna ferðinni – ekki veikindin.
Útiveran er hálf meðferðin
Þegar ég hjóla þá er það ekki bara líkamleg hreyfing. Ég anda að mér sjávarilminum, fylgist með fuglunum og hugurinn hægir á sér. Þetta er eins konar hugleiðsla á hjóli. Ég hef meira að segja tekið eftir því að blóðþrýstingurinn er jafnvel lægri eftir túra, sérstaklega þegar hjólatúrinn er rólegur og ég fer eftir líkamanum en ekki gegn honum.
Það að vera úti í náttúrunni hefur ómetanleg áhrif á andlega líðan og gerir hjartanu gott. Það að finna goluna í andlitinu, heyra öldurnar gjálfra í flæðarmálinu og bara vera til, það er heilun út af fyrir sig.
Að hjóla innan marka
Ég hjóla ekki til að mæla hvað ég fór langt eða hvað ég var fljótur. Kappið ber mig þó stundum ofurliði en fyrst og fremst hjóla ég til að njóta þess að vera lifandi. Til að minna mig á það sem skiptir máli: að komast út, upplifa og deila með öðrum.
Hver og einn þarf að finna sinn hraða og sína ákefð. Fyrir suma er það léttur rólegur túr. Fyrir aðra aðeins meiri kraftur. En aðalatriðið er að hreyfa sig á eigin forsendum, með aðstoð tækni ef þess þarf.
Hjartað er með í för
Hjólað fyrir hjartað er kannski ekki risaverkefni í mældum kílómetrum – en það er stórt í mínu lífi. Það er mín leið til að segja: ég gefst ekki upp, ég hreyfi mig, ég er hluti af náttúrunni – og ég nýt þess að lifa og vera til.
Og ef einhver annar með hjartasjúkdóm eða skerta getu les þetta og fær innblástur til að fara út – þá hefur þetta brölt mitt skilað sér.
Takk fyrir mig.
Björn Ófeigs.








































