-Auglýsing-

Getur app bjargað hjörtum? Ný íslensk rannsókn um stafræna vöktun við meðferð hjartabilaðra

Stafræna bylltingin er farin að hafa áhrif á lífsgæði og heilsufar sjúklinga með hjartabilun.

Í heimi þar sem sífellt fleiri lifa með langvinna sjúkdóma, hefur stafræna byltingin ekki látið hjartasjúklinga sitja eftir.

Ný íslensk rannsókn sem birtist í European Heart Journal – Digital Health, vekur athygli á möguleikum snjallsímalausna til að bæta sjálfsumönnun, lærdóm um eigið hjartaástand og efnaskipti þeirra sem lifa með hjartabilun.

Rannsóknin var framkvæmd á Landspítalanum í samstarfi við Sidekick Health og sýnir vel hvaða möguleika slík stafræn vöktun bíður upp á.

-Auglýsing-

Rannsóknin í hnotskurn

Í rannsókninni tóku þátt 175 einstaklingar með hjartabilun. Meirihluti þátttakenda kom frá göngudeild hjartabilunar á landspítalanum og til að ná upp í fjöldan sem rannsakendur sóttust eftir komu nokkrir þátttakendur frá Hjartamiðstöðinni. Þessum 175 var skipt upp í tvennt og helmingurinn fékk appið auk hefðbundins eftirlits á göngudeild hjartabilunar eða hjá hjartalækni á Hjartamiðstöðinni og hinn helmingurinn fékk ekki appið en var í hefðbundnu eftirliti á göngudeild hjartabilunar eða hjá hjartalækni á Hjartamiðstöðinni. Forritið bauð upp á fjarvöktun á einkennum, fræðslu, dagleg verkefni og hvatningu til betri lífsstíls. Rannsóknin stóð yfir í sex mánuði með viðhaldsfasa í hálft ár til viðbótar.

- Auglýsing-

Meðalaldur þátttakenda var 65,5 ár. 68% voru karlar og 87% voru í NYHA flokki I – II, sem þýðir að flestir voru í stöðugu ástandi og í góðri og viðeigandi meðferð. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar niðurstöður eru skoðaðar.

Engin dramatísk áhrif á lífsgæði en…

Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að kanna hvort stafræn vöktun bætti heilsutengd lífsgæði samkvæmt KCCQ-12, sem er viðurkennt matstæki fyrir sjúklinga með hjartabilun. Þar reyndist enginn marktækur munur milli hópanna sem kann að skýrast af því að upphafsgildi voru há, þ.e. lífsgæðin voru þegar ágæt.

En þegar horft var sérstaklega á þátttakendur í NYHA flokki III, sem eru með meira útbreidd einkenni og skerðingu sást marktækur munur. Þeir sem fengu stafræna vöktun héldu betri lífsgæðum (nánast engin lækkun á kvarðanum) á meðan hópurinn sem var ekki með appið upplifði verulega hnignun (meðaltalslækkun um 16,6 stig).

- Auglýsing -

Mikil bæting á sjálfsumönnun og þekkingu

Þó að meginmarkmiðið hafi ekki náðst fyrir allan hópinn, þá voru aðrir þættir sem voru mjög jákvæðir. Þeir sem notuðu appið bættu sjálfsumönnun sína marktækt bæði eftir sex og tólf mánuði. Það þýðir að þeir voru duglegri að fylgjast með einkennum, taka lyfin sín rétt og halda sig við góðar venjur í daglegu lífi.

Þeir bættu líka við sig þekkingu á sjúkdómnum sem er lykilatriði í að læra að lifa með hjartabilun og bregðast rétt við þegar ástandið breytist. Það er ekki lítið þegar við vitum að góð sjálfsumönnun getur dregið úr þörf á sjúkrahúsvist og bætt lífslíkur.

Betri efnaskipti – lægri sykur, þríglýseríðar og fleiri vísar

Einn af áhugaverðari þáttum rannsóknarinnar er áhrifin á efnaskipti. Þar kom í ljós að appnotendur sýndu marktækan mun í:

  • Föstum blóðsykri (−0.64 mmol/L eftir sex mánuði)
  • HbA1c (−2.15 mmol/mol eftir tólf mánuði)
  • Þríglýseríðum (−0.32 mmol/L)
  • Hlutfalli þríglýseríða við HDL-kólesteról
  • Glúkósa–þríglýseríð-þríglýserið-þríglýserið

Þessar mælingar eru ekki bara fallegar á blaði heldur tengjast þær minni hættu á hjartaáföllum og betri langtímahorfum. Það að eitt app með hvatningu, fræðslu og fjarvöktun skili slíkum áhrifum vekur vonir um að ný tækni geti orðið hluti af daglegri meðferð hjartabilaðra.

Ekki áhrif á lyf eða kvíða og enginn munur á innlögnum

Á hinn bóginn sýndi rannsóknin ekki áhrif á lyfjatöku eða andlega líðan. Það kann að skýrast af því að margir þátttakendur voru þegar á góðri lyfjameðferð og tiltölulega lágt grunnþunglyndi eða kvíða.

Einnig var enginn munur á fjölda heimsókna á bráðamóttöku eða innlögnum vegna hjartabilunar. Hafa verður í huga að 12 mánuðir eru frekar stuttur tími þegar kemur að mælingu á slíku og sérstaklega þegar haft er í huga hvað sjúklingaþýðið var í stöðugu ástandi.

Mikil þátttaka og ánægja

Það sem vekur sérstaka athygli er hve vel þátttakendur tóku í og tileinkuðu sér notkun á appinu. Um 93% héldu áfram að skrá einkenni sín fyrstu sex mánuðina og 80% voru virkir í tólf mánuði. Það er töluvert betra en sést hefur í mörgum öðrum sambærilegum rannsóknum.

Það bendir til þess að fólk með hjartabilun sé reiðubúið til að taka þátt með stafrænum lausnum ef þær eru vel útfærðar og byggðar á raunverulegum þörfum notenda.

Hver er lærdómurinn fyrir okkur?

Þessi rannsókn sýnir okkur að stafræn vöktun og eftirlit með heilsu er meira en bara tískubóla eða markaðssetning. Hún getur í alvöru hjálpað fólki með hjartabilun að taka meiri ábyrgð á eigin heilsu, bæta efnaskipti sín og dýpka skilning sinn á sjúkdómnum.

Það er ekki lítið þó svo að hún sýni líka að slík inngrip þurfi að þróast áfram og finna sinn stað innan hefðbundinnar heilbrigðisþjónustu. Appið er og verður ekki töfralausn en getur orðið mikilvægt hjálpartæki í meðferð hjartabilunar.

Að lokum

Við lifum á tímum þar sem tæknin gefur okkur áður óhugsandi tækifæri og ekki síst þegar kemur að því að styðja við fólk með langvinna sjúkdóma. Þessi rannsókn sem framkvæmd var hér á Íslandi sýnir okkur að það er hægt að blanda saman persónulegri hefðbundinni umönnun, fræðslu og stafrænum lausnum á áhrifaríkan hátt.

Kannski er framtíð meðferðar hjartasjúklinga ekki að skipta út læknum fyrir öpp, heldur í því að láta þetta tvennt vinna saman. Og fyrir þá sem lifa með hjartabilun, þá skiptir máli að vita að þau eru ekki ein og þar getur gott app sannarlega komið að gagni.

Björn Ófeigs.

Heimildaskrá

  1. Arnar DO, Dobies B, Guðmundsson EF, o.fl. Effect of a digital health intervention on outpatients with heart failure: a randomized, controlled trial. European Heart Journal – Digital Health. 2025. https://doi.org/10.1093/ehjdh/ztaf063
  2. Ponikowski P, Voors AA, Anker SD, et al. 2021 ESC Guidelines for the diagnosis and treatment of acute and chronic heart failure. European Heart Journal. 2021;42(36):3599–3726.DOI: 10.1093/eurheartj/ehab368
  3. Takahashi EA, Schwamm LH, Adeoye OM, et al.; American Heart Association. An overview of telehealth in the management of cardiovascular disease: a scientific statement from the American Heart Association. Circulation. doi: 10.1161/CIR.0000000000001107
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-