-Auglýsing-

Önnum kafnir læknar fá ráð

HÆGT væri að minnka lyfjakostnað þjóðarinnar um tugi og jafnvel hundruð milljóna króna á ári ef læknar ávísuðu lyfjum samkvæmt ráðleggingum Tryggingastofnunar ríkisins og Landlæknis. Þessir aðilar vinna nú að gerð lyfjalista þar sem talin eru upp þau lyf sem ráðlögð eru sem fyrsta val í meðferð á algengustu sjúkdómum og er þá tekið tillit til virkni, aukaverkana og verðs. Þegar hafa verið gerðir listar fyrir tvo lyfjaflokka en unnið er að þeim þriðja. Verkefnið er umfangsmikið en áætlað er að ljúka gerð lyfjalista fyrir stærstu lyfjaflokkana á næstu mánuðum. Listarnir eru ætlaðir læknum og þá má m.a. nálgast á vef Tryggingastofnunar. Markmið með lyfjalistanum er að veita „önnum köfnum læknum stuðning við val á lyfjum ásamt því að stuðla að hagkvæmri notkun lyfja,“ segir á vefnum.

Kostnaðarlækkun án áhrifa á meðferð
„Færu læknar eftir lyfjalistum væri hægt að lækka lyfjakostnað um tugi og jafnvel hundruð milljóna króna á ári, án þess að það hefði áhrif á meðferð sjúklinga,“ segir Guðrún I. Gylfadóttir, deildarstjóri lyfjadeildar TR. „Notkun á lyfjum er oft allt önnur hér á landi en t.d. í nágrannalöndunum Danmörku og Svíþjóð. Þar er mun oftar verið að nota ódýrari lyf. Mér finnst læknar sýna þessu máli áhuga og því ekki hægt að skella skuldinni alfarið á þá, en lítil áhersla hefur verið lögð á umræðu um þetta undanfarin ár.“

Guðrún segir nauðsynlegt að læknar séu meðvitaðir um verð lyfja sem þeir ávísa og er það m.a. tilgangur lyfjalistans. Hún nefnir sem dæmi tvö blóðfitulækkandi lyf sem notuð eru jöfnum höndum hér á landi. Hér er ekki um að ræða frumlyf annars vegar og samheitalyf hins vegar heldur tvö lyf við sama sjúkdómi sem ýmist innihalda virku efnin atorvastatín eða simvastatín. Landlæknir telur lyfin, út frá klínískum leiðbeiningum, hafa sömu virkni og megi því ávísa þeim jöfnum höndum til lækkunar blóðfitu. Verðmunurinn er hins vegar margfaldur. Sivacor (simvastatín 40 mg, 98 stk. í pakka) kostar 3.455 kr. en Atacor (atorvastatin 20 mg, 100 stk. í pakka) kostar 11.380 kr. Dýrara lyfið (bæði frumlyf og samheitalyf af þeirri tegund) er notað af um 40% sjúklinga á Íslandi en um 8% sjúklinga í Danmörku. Þar í landi verður ódýrara lyfið mun oftar fyrir valinu eða í um 80% tilvika. Það lyf er hins vegar eingöngu notað af um 40% sjúklinga hér á landi.

-Auglýsing-

Læknar ávísi ódýrari lyfjum
„Ef læknar myndu ávísa simvastatín-lyfjum í meira mæli í stað atorvastatín-lyfja, væri hægt að lækka lyfjakostnað TR um tugi milljóna á ári,“ bendir Guðrún á. Innan beggja lyfjategundanna eru nokkur samheitalyf sem geta verið mun ódýrari en frumlyfin. T.d. kostar frumlyfið Zocor, sem inniheldur simvastatín, (40 mg 98 stk í pakka) 16.715 kr. en samheitalyfið Sivacor (40 mg 98 stk) 3.455 kr. Hefur kostnaður TR vegna blóðfitulækkandi lyfja lækkað um 40 milljónir milli áranna 2006 og 2007 vegna tilkomu ódýrari samheitalyfja. „En það sem við viljum sjá er að læknar ávísi í meiri mæli á ódýrari tegund lyfjanna, þau sem innihalda simvastatín, til að lækka lyfjakostnaðinn ennfrekar,“ segir Guðrún. Samheitalyfið Sivacor (simvastatin) lækkaði um 44% um síðustu mánaðamót og er verðmunurinn á milli lyfjanna tveggja því orðinn enn meiri en hann var.

Í hnotskurn

» Við val á lyfjum á lyfjalista TR og Landlæknis eru erlendir lyfjalistar hafðir til hliðsjónar ásamt ráðleggingum frá NICE (National Institute for Health and Clinical Excellence).
» Þegar hafa verið gerðir listar yfir þunglyndislyf og blóðfitulækkandi lyf.
» Nýleg rannsókn í Bretlandi þar sem meðferð 70 sjúklinga var breytt frá atorvastatíni yfir í simvastatín, sýndi engar marktækar breytingar á kólesterólgildum 4 mánuðum eftir skiptin.

- Auglýsing-

Morgunblaðið 19.05.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-