AÐALSTJÓRN Öryrkjabandalags Íslands, ÖBÍ, mótmælir því að ríkisstjórn Íslands skuli hafa ákveðið að ganga gegn lögum um verðbætur á greiðslur almannatrygginga til yfirgnæfandi meirihluta elli- og örorkulífeyrisþega hinn 1. janúar síðastliðinn með svokölluðum bandormi á ýmis lögvarin réttindi. Verði landslög ekki virt mun bandalagið fela lögmönnum sínum að kanna lagalegan rétt félagsmanna, að því er segir í ályktun aðalstjórnarfundar nú í vikunni.
Halldór Sævar Guðbergsson, formaður ÖBÍ, bendir á að í lögum um almannatryggingar segi meðal annars að bætur skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. „Hækkun bóta hefði samkvæmt lögum átt að vera 19,6 prósent vegna þróunar vísitölu neysluverðs í fyrra. Þá hækkun fengu ekki allir. Hækkun til langflestra lífeyrisþega er aðeins 9,6 prósent samkvæmt lagaákvæði bandormsins.“
Gagnrýnir greiðsluþátttöku sjúklinga
Hann bendir jafnframt á að breyting á útreikningi fjármagnstekna skerði nú tekjutengdar bætur um 100 prósent í stað 50 prósenta áður þegar frítekjumarki sleppir sem er tæp 100 þúsund krónur árið 2009.
Aðalstjórn ÖBÍ gagnrýnir stóraukna greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og segir hana bitna hart á öryrkjum og langveikum og öðrum þeim sem mest þurfi á þjónustunni á halda. „Þetta er gert þótt ekki hafi verið settar reglur um hámark á greiðsluþátttöku sjúklinga. Þeir ættu að fá fría þjónustu eftir að þeir eru komnir upp að einhverju marki. Einstaklingur sem er mikið lasinn þarf að fara oftar til læknis og á sjúkrahús auk þess sem lyfjakostnaður hans er meiri. Kostnaður vegna sjúkraþjálfunar er einnig mikill,“ tekur Halldór fram.
„Þetta er atlaga að velferðarkerfinu og mun koma harðar niður á samfélaginu þegar til lengri tíma er litið,“ bætir hann við.
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur
Morgunblaðið 24.01.2009