STJÓRNENDUR Landspítalans ætla að halda sig innan heimilda fjárlaga á þessu ári, í fyrsta sinn. Þess vegna voru í gær kynntar niðurstöður umfangsmikillar hugmyndavinnu um sparnað innan spítalans. Björn Zoëga forstjóri kynnti nokkrar af þeim 3.400 sparnaðartillögum sem starfsmenn hafa sjálfir komið með.
Í stað þess að nota 112 mismunandi tegundir af dauðhreinsuðum einnota hönskum verða „bara“ notaðar tæplega sextíu tegundir. Meira verður notað af ódýrum hönskum sem kosta 218 krónur parið, í stað þeirra sem kosta 714 krónur. Með því einu mun að sögn Björns sparast vel á þriðju milljón króna á ári.
Í stað þess að nota sprautur með belg, til að skola sár í um þúsund tauga- og heilaskurðaðgerðum á ári verða notaðar hefðbundnari sprautur. Munurinn er sá að hver „ballonsprauta“ kostar 4.931 krónu en hver venjuleg sprauta kostar 130 krónur. Það gerir því 4,8 milljóna króna sparnað.
Einnig nefndi Björn að hætt hefði verið að kaupa plastmál á kaffistofur og í eldhús spítalans. Með því sparist nokkrar milljónir á ári. Þar að auki hefur verið dregið úr pappírsnotkun um nærri helming á síðustu mánuðum og sem dæmi hefur framkvæmdastjórnin ákveðið að nota engan pappír á sínum fundum hér eftir.
Fundað með 1.800 manns
Hugmyndunum var safnað á 62 starfsmannafundum forstjórans með stjórnendum og starfsfólki. Alls mættu um 1.800 manns á slíka fundi, af 4.600 sem vinna á LSH, auk þess sem unnið var með sjúklingasamtökum og ytri hagsmunaaðilum. Algengast var að fólk hefði hugmyndir um breytta mönnun og vaktafyrirkomulag, launamál, skipulag, orkunotkun og fleira. Svo er bara að sjá hvernig gengur að fá fólk til að slökkva ljósin, loka dyrunum og lækka í ofninum í stað þess að opna gluggann. Auk sparnaðarhugmyndanna komu fram um 800 tillögur vegna stefnumótunar.
Í gær var ársfundur spítalans haldinn í Salnum í Kópavogi og stefnan til 2016 kynnt. Miðað er við 2016 vegna þess að um það leyti er stefnt á að öll starfsemi LSH hafi verið sameinuð á eitt svæði með nýjum húsakosti.
Hægt að spara 3,4 milljarða
Landspítalanum er gert að hagræða í rekstri sem nemur 3,4 milljörðum króna á þessu ári. „Við horfum á 2007 sem nokkurs konar núllpunkt eins og stundum er gert núna. Árið 2008 byrjuðum við og náðum 3% hagræðingu í rekstri. 2009 náðum við 12% og vorum aðeins yfir. En ef við náum 2010 markmiðinu, þá verðum við búin, á föstu verðlagi, að lækka kostnað spítalans um 21%,“ sagði Björn í gær. Hann sagði að fólk gæti spurt sig hvort þetta væru ekki hálfbrjálæðisleg markmið, en stjórnendur Landspítalans teldu þetta gerlegt. Þetta eru rosalegar tölur. Við vorum með hagræðingarkröfu hér árið 2008 upp á 2,1 milljarð. Í fyrra spöruðum við um 2,7 milljarða. Við fengum í ár hagræðingarkröfu upp á 3,4 milljarða og vonumst til að geta náð því.“ Eftir fyrsta fjórðung þessa árs er spítalinn innan heimilda. „Það er kannski engin tilviljun því að síðustu þrjá mánuði síðasta árs vorum við í raun líka innan fjárheimilda,“ sagði Björn.
Hann kynnti einnig stefnuna og gildi sjúkrahússins, sem hafa verið mótuð. Þeim er lýst með fjórum lykilorðum: Umhyggju, fagmennsku, öryggi og framþróun. Framtíðarsýnin felur það í sér að spítalinn verði í fremstu röð háskólasjúkrahúsa, sjúklingurinn og öryggi hans verði ætíð í fyrirrúmi, mennta- og vísindastarf og nýsköpun njóti sín, spítalinn verði eftirsóttur vinnustaður, reksturinn gagnsær og innan fjárlaga. Einnig að spítalinn verði stolt landsmanna, sjúklinga og starfsmanna.
Sérstaklega útlistaði Björn stöðuna í fjórum atriðum, þ.e. rekstrarmálum, öryggismálum, verkferlum og kostum LSH sem vinnustaðar. Helstu vandamálin, sem á að takast við næstu tvö árin, í öryggismálum, eru m.a. ófullngæjandi atvika og kvartanaskráning og vannýting á rafrænni sjúkraskrá. Verkferlarnir eru þannig að oft er bið innanhúss og óþarfur tvíverknaður. Flæði sjúklinga gæti verið betra, sem og flæði aðfanga og lyfja. Þá er starfsánægja of lítil, óvissa vegna hagræðingarkröfunnar og múrar milli starfshópa eru of miklir.
Eftir Önund Pál Ragnarsson
Morgunblaðið 22.04.2010