-Auglýsing-

„Þetta er dónaskapur“

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is
Hjúkrunarfræðingarnir 98 á Landspítalanum sem sagt hafa upp störfum frá 1. maí nk. eru ákveðnir í því að láta ekki „berja sig til hlýðni“, heldur standa áfram þétt saman að sínum kröfum um að yfirstjórn spítalans taki til baka ákvörðun um breytingar á vinnufyrirkomulagi þeirra. Hjúkrunarfræðingarnir segja breytingarnar fela í sér að þeir þurfi að vinna meira fyrir minni pening og að tilboð sem stjórnendur hafi hingað til sett fram til lausnar deilunni séu „hlægileg“. Tilboð, sem nú er uppi á borðum og lagt er fyrir hjúkrunarfræðingana í einstaklingsviðtölum, fela m.a. í sér að vetrarfrí þeirra verður skert. „Þetta er dónaskapur,“ segir einn hjúkrunarfræðingurinn og bætir við að með „tilboðinu“ sé enn verið að bíta af þeim og að ekki komi til greina að taka því.

Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á LSH og starfandi forstjóri, segir hefðbundið að boða starfsmenn sem segja upp sem einstaklingar í einstaklingsviðtöl án trúnaðarmanna en það hafa hjúkrunarfræðingarnir gagnrýnt. Anna vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

-Auglýsing-

Kornið sem fyllir mælinn
Hjúkrunarfræðingar sem Morgunblaðið ræddi við í gær segja að breytingin á vinnutímanum sé kornið sem fylli mælinn. Unnið hafi verið undir gríðarlegu álagi á sjúkrahúsinu í langan tíma. Þá telja þeir breytinguna ógna öryggi sjúklinga, vaktirnar verði ekki nægilega sterkar í kjölfarið. Þeir segja að það eina sem geti höggvið á hnútinn sé að stjórnendur taki breytinguna til baka. „Við erum algjörlega samtaka um það,“ segir einn þeirra.

Allir hjúkrunarfræðingarnir, sem fyrirhuguð breyting náði til, hafa sagt upp. Eftir eru þá örfáir, aðallega deildarstjórar sem ekki ganga vaktir. Þeir þurfa þá eftir 1. maí að ganga í hluta starfa þeirra sem frá hverfa. Hins vegar eru hjúkrunarfræðingarnir sem sagt hafa upp með mikla sérfræðiþekkingu og margir langa reynslu á sínu sviði og því verður ekki hægt að sinna sérhæfðum aðgerðum, s.s. hjartaskurðaðgerðum. Skortur á hjúkrunarfræðingum utan Landspítala er það mikill að allar líkur eru á að þeir sem nú hafa sagt upp finni sér önnur störf og sumir hafa þegar gert það. „Við þurfum ekki að óttast neitt í þeim efnum,“ segir einn hjúkrunarfræðingurinn.

- Auglýsing-

Það er sparnaðarkrafa, sem kemur frá Vilhjálmsnefndinni svokölluðu, sem verið er að framfylgja með því að breyta vinnutíma hjúkrunarfræðinganna. Stjórnendum spítalans er því stillt upp við vegg. „Allt faglegt mat virðist vera algjörlega gleymt og sömuleiðis er ekki hugsað um öryggi sjúklinga,“ segir einn hjúkrunarfræðingurinn.

Boðaðar voru breytingar á vinnufyrirkomulagi fleiri stétta á spítalanum, s.s. skurð- og svæfingalækna, en frá þeim var horfið. „Við erum orðnar þreyttar á því og finnst ósmekklegt að eina ferðina enn séu kvennastéttirnar látnar ryðja brautina þegar kemur að breytingum,“ segir einn hjúkrunarfræðingur.

Morgunblaðið 19.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-