Eftir Jóhönnu Þorvarðardóttur og Sigrúnu Guðnýju Pétursdóttur: “Námskeið í endurlífgun eru reglulega kennd á vegum Rauða krossins, einnig geta hópar og vinnustaðir haft samband við leiðbeinendur og skipulagt sín eigin námskeið.”
UM DAGINN var viðtal í Pressunni við Pétur Guðjónsson en hann var að æfa í World Class þegar hann fór skyndilega í hjartastopp. Sem betur fer voru læknar og hjúkrunarfræðingar á staðnum sem björguðu lífi hans. Það er frábært að Pétur skuli hafa lifað af og sýnir að skjót viðbrögð nærstaddra skipta höfuðmáli í neyðartilfellum sem þessu.
Fleiri þurfa að læra endurlífgun
Ef maður veikist skyndilega er heppilegra að maður sé innan um fólk en aleinn heima þar sem maður nær jafnvel ekki að kalla á aðstoð. Ef svo vill til að slíkt gerist innan um fólk eiga lífslíkur ekki að vera háðar því hvort einhver viðstaddra sé læknir, hjúkrunarfræðingur eða sjúkraflutningamaður. Það geta allir lært endurlífgun og við ættum öll að geta treyst hvert á annað. Ef ég fer í hjartastopp fyrir framan þig þá hefur þú endurlífgun og ef þú ferð í hjartastopp fyrir framan mig þá hef ég endurlífgun. Einungis þannig tryggjum við að við eigum bæði hámarkslífslíkur.
120-140 hjartastopp á ári utan sjúkrahúsa
Við erum heppin að búa á Íslandi að því leyti að við búum við mjög góða læknisþjónustu. Árangur okkar af endurlífgun eftir hjartastopp er mjög góður miðað við Evrópuþjóðir. Það fara um 200 manns á ári í hjartastopp, þar af 120-140 utan sjúkrahúss, samkvæmt Landlæknisembættinu. Um 17% þeirra sem fara í hjartastopp ná að útskrifast af sjúkrahúsi. Þar sem hjartastopp varð í vitna viðurvist var hafin endurlífgun í 40% tilfella. Þarna getum við gert enn betur. Í neyðartilfelli skipta mínúturnar máli, það er ekki nóg að bíða bara eftir sjúkrabíl. Ef maður er í hjartastoppi og ekkert er gert minnka lífslíkur hans um 10% á mínútu. Það telst frábært ef sjúkrabíllinn er kominn eftir fimm mínútur en þá hafa lífslíkurnar minnkað um 50% ef nærstaddir hafa ekki hafið hjartahnoð.
Hringja og hnoða
Endurlífgun er ekki flókin og það geta allir lært hana. Öll þjóðin ætti að setja sér það markmið að allir kunni að hringja og hnoða. Viðbrögð nærstaddra byggjast á því að greina meðvitundarleysi, hringja í 112 og hefja hjartahnoð tafarlaust ef ekki finnst neitt merki um lífsmark, þ.e. regluleg öndun, viðbrögð við sársauka eða hreyfing á viðkomandi. Hjartahnoð er framkvæmt með því að ýta með báðum höndum á mitt bringubein um 100 sinnum á mínútu og bringubeininu er ýtt niður um u.þ.b. 4-5 sm. Með þessu næst að viðhalda blóðstreymi um líkamann þangað til komið er með stuðtæki, en með því er möguleiki á að koma hjartanu í gang.
Hjartarafstuðtæki fyrir almenning
Það eru hjartarafstuðstæki í öllum sjúkrabifreiðum en einnig eru einföld hjartarafstuðstæki fyrir almenning nú víða á mannmörgum stöðum, til dæmis í flestum íþróttahúsum og verslunarmiðstöðvum. Einnig eru þessi tæki á flestum minni stöðum landsins þar sem sjúkrahús er í meira en 20 km fjarlægð. Pétur Guðjónsson var til dæmis staddur í World Class þar sem er hjartastuðtæki á staðnum. Það þarf enga sérkunnáttu til að nota tækin en gott er að hafa lært á þau á skyndihjálparnámskeiði. Þessi tæki eru hönnuð fyrir almenning og jafnvel börn eru fljót að læra á þau. Hjartarafstuðstækin eru mjög einföld í notkun. Þau eru þess eðlis að þau geta „talað“ við björgunaraðilann og þau greina hjartslátt og leiðbeina hvað skuli gera og hvenær sé hægt að gefa rafstuð. Líkurnar á að læknir eða hjúkrunarfræðingur sé viðstaddur ef einhver fer í hjartastopp eru litlar. Þú getur líka þurft að bregðast við.
Lærum öll skyndihjálp
Námskeið í endurlífgun eru reglulega kennd á vegum Rauða krossins, einnig geta hópar og vinnustaðir haft samband við leiðbeinendur og skipulagt sín eigin námskeið. Allir geta fundið námskeið við sitt hæfi allt frá tveggja klukkustunda námskeiði í endurlífgun í 16 klukkustunda alhliða námskeið í skyndihjálp. Getur þú séð af 2-4 klukkustundum? Er það ekki þess virði ef hægt er að bjarga mannslífi? Tökum okkur á, lærum öll að hringja og hnoða og jafnvel að stuða. Það er ekki nóg að láta heppnina ráða því hvort hjartastopp verður í vitna viðurvist eða ekki. Það á ekki að ráðast af heppni hvort þeir sem eru nærstaddir kunni endurlífgun. Lærum öll endurlífgun!
Jóhanna er hjúkrunarnemi við Háskólann á Akureyri. Sigrún Guðný er hjúkrunarfræðingur og formaður félags leiðbeinenda í skyndihjálp.
Morgunblaðið 10.12.2009