-Auglýsing-

Megrun er ekki málið

Ekki örvænta þótt fitupúkinn hafi yfirhöndina í lífi þínu. Nýtt hugarfar getur verið áhrifaríkara fyrir heilsuna en stífir megrunarkúrar eða herþjálfun. Lilja Þorsteinsdóttir ræddi við dr. Lindu Bacon um stríðið gegn offitu.

Stríðið gegn fitu er ekki nauðsynlegt. Fólk getur verið heilbrigt þótt það sé yfir kjörþyngd og oftar en ekki skilar megrun engri langvarandi heilsubót,“ segir dr. Linda Bacon sem kom nýverið til Íslands til að halda fyrirlestur um nýja nálgun að heilbrigði.

-Auglýsing-

Þetta er andstætt því sem við flest höfum lært um megrun en samkvæmt rannsókn sem Bacon gerði er áhrifaríkara að kenna fólki að hlusta á líkama sinn en að setja upp fyrir það stífa megrunar- og þjálfunaráætlun. „Við gáfum fólkinu í rannsókninni leyfi til að borða það sem það vildi en kenndum því að þekkja hvernig líkami þess bregst við matnum. Fólkið lærði að borða það sem lét því líða vel og borða ekki yfir sig. Það sama gilti um hreyfingu en í stað þess að hugsa um hana sem refsingu fundum við fyrir fólkið hentuga hreyfingu sem það var ánægt með,“ segir Linda, en aðferðir hennar gáfu athyglisverða niðurstöðu.

„Samanburðarhópurinn sem fékk megrunar- og hreyfingaráætlun stóð sig vel til að byrja með, en tveimur árum síðar höfðu flestir í hópnum þyngst aftur og voru í verra ástandi en þegar rannsóknin hófst. Fólkið sem reyndi nýju aðferðina fór hægt af stað en í lok rannsóknarinnar stóð það mun betur að vígi en megrunarhópurinn. Það borðaði hollari mat, hreyfði sig meira, leið vel í líkama sínum og kom betur út úr heilsufarsmælingum, jafnvel þó það hafi ekki grennst,“ segir Linda og bætir því við að fólkið hafi áður haft óbeit á líkama sínum.

Snertir okkur öll

Linda segir að flestir séu uppteknir af þyngd og heilbrigðisgeirinn sendi stöðugt út skilaboð sem ýti undir þessar tilfinningar. „Það sem gerist er að allir reyna að grennast, engum tekst það og á endanum er fólk óánægt með sjálft sig því það nær engum árangri. Ég vildi kanna hvort við gætum fundið áhrifaríkari leið til að hjálpa fólki að öðlast betri heilsu.“

- Auglýsing-

Linda telur umhverfið eiga stóran þátt í vanlíðan feitra. „Það er ekki sanngjarnt að dæma fólk sem er yfir kjörþyngd. Rannsóknir sýna að manneskja sem fær stanslaust þau skilaboð að hún sé feit er líklegri til að taka slæmar ákvarðanir varðandi heilsu sína og þyngist þá jafnvel enn meira. Það veldur mikilli streitu og hún leiðir af sér fleiri sjúkdóma. Stríðið gegn offitu virkar ekki.“

Dr. Linda Bacon er sjálf grönn kona og hún segir fólk oft furða sig á því hvers vegna hún hafi gert þessa rannsókn. „Þyngdin hefur áhrif á okkur öll. Grannt fólk óttast að þyngjast og líður oft jafnilla í eigin líkama og þeim sem eru of þungir. Þegar ég var ung óttaðist ég að fitna og stundaði líkamsrækt af miklum móð. Ég þurfti að losna undan þessum hugsunum og hef skilning á vanlíðan þeirra sem eru óánægðir með líkama sinn. Ég vildi hjálpa sjálfri mér og tel mig um leið hafa fundið aðferð sem getur hjálpað okkur öllum.“

Aðspurð segist Linda alls ekki hissa á niðurstöðum rannsóknarinnar. Hún hafi í gegnum vinnu sína sem sálfræðingur lært að fólk þarf að vera ánægt með sjálft sig til að geta breytt hegðun sinni. „Grannt fólk fær sykursýki og hjartasjúkdóma. Það er lífsstíllinn sem skiptir máli því fólk yfir kjörþyngd getur verið við mun betri heilsu en þeir sem eru grannir og lifa óheilsusamlegu lífi.“

Að sættast við líkama sinn

Linda segir auðvitað ógnvekjandi tilhugsun að sætta sig við líkama sinn því oft hafi það verið talið uppgjöf. Hún nefnir að það hafi komið henni á óvart hversu vel hugmyndinni um breytt hugarfar var tekið á meðal þeirra sem tóku þátt í rannsókninni. „Þeim fannst hugmyndirnar rökréttar og voru mjög spenntir fyrir þátttökunni.“

Þegar Linda er spurð að því hverjir komu best út úr rannsókninni segir hún að greinileg tengsl hafi verið á milli þess hversu vel fólkinu tókst að sættast við líkama sinn og hversu vel því gekk að viðhalda heilbrigðum lífsháttum. „Því meira sem fólk reyndi að nota hugmyndirnar til að grennast, því verr gekk því,“ segir Linda og telur þetta staðfesta hversu miklu máli hugarfarið skiptir. Að lokum segir Linda við þá sem vilja taka fyrsta skrefið: „Reynið að finna hóp sem styður hugmyndinar, hvort sem það er vinkonuhópur, póstlisti eða vefsíður. Stuðningur frá öðrum sem eru í sömu hugleiðingum er mikilvægur, því með honum finnum við að við erum ekki ein.“

liljath@mbl.is

Morgunblaðið 11.06.2008 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-