-Auglýsing-

Karlmennska og hjartabilun

VöðvarHjartabilun er ekki bara tóm leiðindi, en það er ekki laust við að þessi tvö atriði þ.e. karlmenskan og hjartabilunin rekist stundum á og þá verður útkoman stundum grátbrosleg. 

Stundum á ég daga þar sem ég er verri, ég er þreyttari, móðari og það dregur úr mér þróttinn, ég er minntur á það að ég er með hjartabilun.

-Auglýsing-

Stundum þegar þetta gerist gleymi ég mér og verð upptekin af því sem ég get ekki eða hef ekki þrek til.

Þegar það gerist á ég það til að sitja hálf fastur inni í sjálfum mér og kössunum mínum, en þá nota ég til að halda utan um daginn minn til að auðvelda mér lífið og verð dálítið ferkantaður fyrir vikið. Dagarnir líða og ég reyni að gera mitt, stundum á ég erfitt með að einbeita mér og lífið verður erfitt um stund.

Yfirleitt rjátlast þetta af mér á nokkrum dögum og ég verð aftur meira eins og ég á að mér að vera, mæðin minnkar, þreytan verður minni og mér vex þróttur.

Eitt af því sem brýst stundum um í hausnum á mér, er að kannski verði ég aldrei mikið betri en ég er núna og það skelfir mig. Er ég dæmdur til að lifa lífinu á þriðjungs til helmings afköstum? Er ég dæmdur til að eiga lítið líf?

- Auglýsing-

Lítið líf þarf ekki að vera slæmt, en karlmennskuelementið í mér segir mér að ég eigi að vera karlmenni og mér finnst ég ekki alltaf vera það þessa dagana sem ég tek dýfu. Það getur verið erfitt að standa upp og beina sjónum að því hvað ég hef, en ekki því sem ég hef ekki, eða get ekki.

Alveg frá því að ég fékk hjartaáfallið hefur karlmennskan stundum verið að flækjast fyrir mér, stór og sterkur, verndari, skaffar vel. Ég var jú, bara þrjátíu og sjö ára gamall þegar ég fékk hjartaáfallið og mér fannst mikið hafa verið tekið frá mér og það er sárt.

En þrátt fyrir þá staðreynd að ég sé kannski ekki jafn öflugt karlmenni eins og ég kannski hafði hugsað mér þá er ég mikið karlmenni í hausnum á mér og það hefur bæði kosti og galla. Kostirnir eru þeir að ég stundum gleymi ég veikindum mínum, stend fyrir framan spegil og spenni vöðvana, Mjöll fær hláturskast og finnst ég kjánalegur, mér finnst ég sterkur, karlmenni.

Gallarnir eru hinsvegar þeir að stundum fer hausinn á mér fram úr líkamanum og ég geri of mikið of hratt. Þá finnst mér ég ekki karlmenni. Kannski snýst raunveruleg karlmennska um það að geta verið sá sem maður er í þeim aðstæðum sem í boði eru í það og það skiptið, líkamlega atgervið sé bara umbúðir.

En ég er þakklátur fyrir að vera á lífi þrátt fyrir að ég sé ekki alltaf sáttur við stöðu mína og getu, en allt hefur sinn tíma. Þrátt fyrir allt þá er ég vongóður þó það sé stundum erfitt, ég á gott líf þrátt fyrir allt.

Ég geri mér samt enga stórkostlega drauma um að moka snjó, ýta bílum og skíða niður brattar brekkur. En ég get verið til staðar, verið til staðar fyrir strákana okkar og miðlað til þeirra reynslu minni, stutt þá áfram með ráðum og dáð.

Ég get stutt Mjöllina mína í hennar daglega lífi og ef til vill einn góðan veðurdag notið þess að sjá hana þjóta framhjá mér í skíðbrekkunni, þar sem ég sit og sötra heitt kakó í fullkominni karlmennsku.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-