Í aldaraðir hafa menn drukkið te sér til hressingar bæði grænt og svart te. En eftir að grænt te fór að verða vinsælt vegna hugsanlegrar jákvæðrar verkunar þess á líkamsstarfsemina var farið að vinna það á ýmsan hátt og markaðsetja sem töflur, hylki, duft eða sem sterkan vökva. Í þessum vörum getur verið mun meira magn af virkum efnum heldur en í hefðbundnum tebolla. Ofneysla slíkra efna getur valdið skaða og tilkynnt hefur verið um einstaklinga þar sem alvarlegar breytingar á lifrarstarfsemi hafa verið raktar til neyslu á vörum úr grænu tei.
Í grænu tei eru andoxunarefni sem virðast hafa jákvæð áhrif á líkamann, en andoxunarefni eru efni sem vinna gegn skaðlegum áhrifum súrefnis. Bent hefur verið á að neysla á grænu tei geti dregið úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum og úr myndun ýmissa krabbameina. Enn er þó bara talað um hugsanlega verkun, því frekari rannsókna er þörf til að staðfesta þessar kenningar. Þess má geta að á síðasta ári synjaði bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin (FDA) fyrirtæki um að merkja vörur sína með eftirfarandi fullyrðingu: Neysla á grænu tei (150 ml/dag) dregur úr áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Stofnunin taldi að vísindarannsóknir gætu ekki staðfest þessa fullyrðingu.
Í umræðunni hefur einnig verið nefnt að grænt te geti hugsanlega haft áhrif á líkamsþyngd og hjálpað til að viðhalda þyngdartapi. En rannsóknir á þessum þætti eru allt of stutt á veg komnar til að hægt sé að fullyrða nokkuð um þessa verkun.
Grænt te er gert úr laufum terunnans (Camellia sinensis) sem hafa verði meðhöndluð með gufu og síðan þurrkuð. Munurinn á grænu og svört tei felst í því að það svarta er látið gerjast áður en það eru þurrkað. Oolong te er enn ein tegund af tei, en sú tegund fæst þegar telauið er meðhöndlað á sama hátt og svart te en bara látið gerjast minna en það svarta.
Þar sem græna teið er ekki látið gerjast næst fram sérstakt bragð og auk þess varðveitast betur í því andoxunarefni sem í laufunum eru.
Í grænu tei eru flavóníðar sem hafa andoxunarverkun og þeir virkustu kallast catechins. Auk þess eru í teinu fleiri efni eins og sútunarsýra (tannin) og koffín.
Soffía Guðrún Magnúsdóttir matvælafræðingur hefur mælt magn catechins og koffíns í nokkrum tegundum af grænu og svörtu tei. Hún sett tepoka út í 100°C heitt vatn og lét þá liggja í 5 mínútur. Niðurstöðurnar má sjá í meðfylgjandi töflu. Magnið er gefið upp í milligrömmum af virku efnunum sem fengust úr hverju grammi af þurru tei.
|
Catechin mg/g þurru tei - Auglýsing-
|
Koffín mg/g þurru tei |
Grænt te |
67 |
15,3 |
Svart te |
15,4 |
26,5 |
Af þessu sést að það er mun meira af hinum andoxunarverkandi catechinum í grænu tei en því svarta því hluti efnanna eyðileggst við vinnslu. Koffínmagnið er minna í grænu tei en því svarta, en munurinn er ekki eins mikill eins og hvað catechin varðar.
Í rannsókn Soffíu kom einnig fram að ef notað er vatn til að útbúa tebolla fæst fram mun meira af virku efnunum heldur en ef notað er alkohól eða tréspíritus til að ná virku efnum fram. Auk þess kom fram að bestur var árangurinn ef hitastigið á vatninu var 100°C.
Nánari upplýsingar gefur Brynhildur Briem s. 591 2000
Umhverfisstofnun
www.ust.is 06.12.2007