Landspítalinn tekur nýtt hjarta- þræðingartæki formlega í notkun í dag. Með því er verið að endurnýja tæki sem var tekið til notkunar árið 2001 og því orðið 15 ára gamalt.
„Þetta er annað hjartaþræðingartækið sem er tekið í notkun á spítalanum á síðustu þremur árum. Þá hafa allnokkrar endurbætur átt á sér stað á húsnæði hjartaþræðingardeildar undanfarið. Aðstaðan þar er nú orðin mjög góð og er fyllilega sambærileg við þau sjúkrahús á Norðurlöndunum sem við berum okkur helst saman við,“ segir Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga. Tækið kostaði um 100 milljónir króna og voru kaupin ríkulega styrkt af styrktarsjóði Jónínu Gísladóttur.
Nýja tækið mun ekki síst nýtast við fjölþætt inngrip vegna hjartsláttartruflana. Til þeirra teljast meðal annars brennsluaðgerðir, gangráðsísetningar og bjargráðsaðgerðir. Talsvert vaxandi eftirspurn hefur verið eftir brennsluaðgerðum vegna gáttatifs og eru biðlistar þar mjög langir. Nýja þræðingartækið mun nýtast vel við að stytta þennan biðlista.
„Kaupin á þessu tæki og fleiri tækjum eru bara einn liður í að stytta biðlista brennsluaðgerða vegna gáttatifs. Við höfum gert ýmislegt annað til þess að takast á við það. Ráða lækna sem hafa til þess sérþekkingu, bæta við lífeindafræðingum til að aðstoða við þær aðgerðir og að kaupa ýmsan viðbótarbúnað til þess að stytta og einfalda brennslurnar. Þessi biðlisti hefur verið verulega langur og þetta er því forgangsverkefni hjá okkur, “ segir Davíð.
Laðar að sérfræðimenntað fólk
Auk meðferðar við hjartsláttartruflunum verður hægt að framkvæma kransæðaþræðingar, kransæðavíkkanir og ísetningu á ósæðarhjartalokum með þræðingatækni með nýja tækinu. „Stundum hefur verið nefnt að að- staða á Íslandi sé ekki jafngóð og annars staðar á Norðurlöndunum en með þessu þá tel ég að aðstaðan á hjartaþræðingarstofunni sé orðin fyllilega sambærileg við önnur sjúkrahús á Norðurlöndunum,“ segir Davíð og bætir við að með þessu sé Landspítalinn orðinn samkeppnishæfur hvað varðar aðstöðu og tækjakost til að laða að sérfræðimenntað starfsfólk.
Öflugur bakjarl hjartalækninga
Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur var settur á fót árið 2001. Stefna sjóðsins er að örva framfarir í hjartalækningum og þjónustu við hjartasjúklinga á spítalanum. Sjóðurinn hefur margsinnis lagt fram fé sem nýst hefur til hjartalækninga hérlendis. Hefur féð m.a. nýst til tækjakaupa og til stofnsetningar göngudeildar fyrir hjartveika. Jónína var ekkja Pálma Jónssonar, kennds við Hagkaup, en hún lést árið 2008. „Styrktarsjóður Jónínu Gísladóttur gerir Landspítala kleift að kaupa hjarta- þræðingartækið en Jónínusjóðurinn hefur reynst hjartadeild Landspítala öflugur bakhjarl undanfarin ár, ekki síst við kaup á dýrari tækjum,“ segir í tilkynningu frá Landspítalanum.
Mbl.is 13.05.2016