Kjartan Birgisson gerði sér lítið fyrir og hljóp tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu um liðna helgi tæpu ári eftir að hann fékk nýtt hjarta. Hann ætlar að fagna árs afmæli hjartans með því að ganga hugsanlega á Esjuna um næstu helgi. „Ef veður leyfir þá ætla ég að láta reyna á það. Ég ætla ekki að leggja það á mig í grenjandi roki og rigningu,“ segir Kjartan sem var 82 mínútur að hlaupa tíu kílómetrana á laugardag.
Hann segir hlaupið ekki hafa verið mikið mál. „Greinilega ekki,“ segir hann hlæjandi og bætir svo við: „Ég hef aldrei verið mikill hlaupari enda var markmiðið fyrst og fremst hjá mér að klára þessa 10 kílómetra. Ég fór nú mest labbandi en hljóp þó meira en ég ætlaði mér.“
Alltaf að æfa sig
Kjartan hefur ekki æft markvisst fyrir hlaupið en reynir að hreyfa sig reglulega. Hann gengur mikið en minna er um hlaup hjá honum. „Ég er alltaf að æfa mig eitthvað. Ég geng út um allt, er mjög duglegur við það. Það hefur verið svona besta æfingin fyrir mig hingað til en ég sé það núna að ég get farið að hlaupa meira. Það er alltaf byrjunin að geta hlaupið fyrstu hundrað metrana og bæta svo í það.“ Kona hans og dætur fylgdust með honum af hliðarlínunni en hann segir þær ekki hafa óttast um sig. „Þær vita alveg hvað ég er duglegur og passasamur.“
Kjartan hljóp fyrir Hjartaheill og safnaði 77.500 krónum fyrir félagið. Hann er virkur í starfi félagsins. „Við höfum verið að reyna að vekja meiri athygli á líffæragjöf. Í dag er það þannig á Íslandi að ef fólk deyr þá er það sjálfkrafa synjandi um að gefa líffæri en við viljum að það verði öfugt að líffærin verði sjálfkrafa gefin sé það hægt nema annað sé tekið fram. Virk umræða á hverju heimili skiptir máli upp á það að fólk viti hver vilji viðkomandi sé ef hann deyr skyndilega.“
Hann segir líffæragjöf hafa bjargað sínu lífi. „Algjörlega. Þetta gaf mér nýtt tækifæri. Ég var bara orðin sófamatur áður en ég fékk hjartað. Þetta er mikill munur á tæpu ári.“
www.dv.is 22.08.2011