Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að nokkrum verkefnum verði hleypt af stokkunum fljótlega sem ætlað sé að efla gæði þjónustunnar á spítalanum.
Björn nefnir tvö verkefni sem dæmi. „Annars vegar „Sjúklingaráðin tíu“ og hins vegar mælingar á ánægju sjúklinga. Bæði verkefnin byggja á beinni þátttöku sjúklinga og hvernig nýta megi upplifun og hugmyndir þeirra til þess að efla þjónustuna,“ skrifar Björn í föstudagspistli, sem birtur er á vef spítalans.
Hann segir að „Sjúklingaráðin tíu“ hvetji sjúklinga á einfaldan hátt til að spyrja, upplýsa og fá upplýsingar um 10 atriði sem séu mikilvæg í meðferðinni, s.s. verki, lyf, hlutverk aðstandenda, framhaldsmeðferð o.fl.
Þá segir hann að ráðin verði aðgengileg sjúklingum á deildum og á biðstofum.
„Einnig förum við á næstu vikum í að mæla ánægju sjúklinga með spurningalistum sem verða sambærilegir við þá sem notaðir eru á öðrum sjúkrahúsum í Evrópu,“ segir Björn.
www.mbl.is 05.03.2011