Þunglyndi og sjálfsvíg eru algengari meðal lækna en annars fólks. Langur vinnudagur, samkeppni um stöður og áhrif mistaka eru talin hafa áhrif.
Halldóra Ólafsdóttir, geðlæknir ritar grein í Læknablaðið um þunglyndi og sjálfsvíg meðal lækna. Hún vísar til erlendra rannsókna sem sýni að þunglyndi og sjálfsvíg séu algengari meðal lækna en annarra. Í Bandaríkjunum er talið að 3% karllækna falli fyrir eigin hendi og rúmlega helmingi fleiri kvenlæknar. Læknar eru hinsvegar almennt hraustir og huga vel að heilsu sinni. Þeir eru ólíklegri til að deyja vegna kransæðasjúkdóma og krabbameina en aðrar stéttir
Halldóra segir ýmislegt hafa áhrif á heilsu lækna. Vinnudagur lækna sé langur og samkeppni um stöður og virðingu geti verið óvæginn. Þeir læknar sem sinni sjúklingum af alúð og gefi þeim góðan tíma séu síður líklegir til að fá framgang í starfi. Halldóra segir mistök í starfi sjaldan vera rædd meðal lækna en þeim mun meira á vettvangi fjölmiðla. Sálræn áhrif mistaka í starfi lækna hafa ekki fengið verðuga athygli. Áhættuþættir utan vinnu valda einnig streitu og er í grein Halldóru talað um að skilnaðartíðni lækna sé allt að tuttugu prósentum hærri en annarra.
www.ruv.is 05.03.2009