Actavis hefur markaðssett samheitalyfið Lercanidipine í fimm Evrópulöndum. Lyfið er einkum notað við háum blóðþrýstingi.
Lercanidipine fór á markað undir merkjum Actavis í Bretlandi og Frakklandi strax eftir að einkaleyfin féllu á 20. og 21. janúar. Viðskiptavinir Medis, sölusviðs Actavis sem selur lyf til annarra lyfjafyrirtækja, settu lyfið á markað í Frakklandi, Bretlandi, Hollandi, Belgíu og á Ítalíu. Þetta kemur fram á vef Actavis.
Lercanidipine Actavis fer á markað í fleiri Evrópulöndum þegar einkaleyfi falla úr gildi á næstu vikum.
Lercanidipine töflur eru notaðar við háum blóðþrýstingi og eru samheitalyf frumlyfjanna Zanidip og Lercadip.
Frumlyfin seldust fyrir 290 milljónir evra á 12 mánaða tímabili til loka september 2009. Þar af nam salan í Frakklandi og Bretlandi 130 milljónum evra á sama tíma, skv. tölum frá IMS health.
Samheitalyfið Lercanidipine var þróað hjá Actavis í Hafnarfirði og framleitt hjá Actavis á Möltu.
www.mbl.is 25.01.2009