-Auglýsing-

Fjögur ár með gangráð

Greinarhöfundur brosmildur í hjólreiðatúr í blíðunni.

Í júní síðastliðnum voru liðin fjögur ár frá því ég fékk græddan í mig tveggja slegla gangráð. Satt best að segja vissi ég ekki alveg hverju ég átti von á eða hvað þetta litla apparat gæti gert fyrir mig. Þær vangaveltur voru fljótar að hverfa og ég hefði aldrei trúað því að óreyndu hversu miklu þetta hefur breytt fyrir mig. Lífsgæði mín fyrir gangráð voru ansi léleg en breytingin er mikil til hins betra. 

Forsagan er sú að ég fékk stórt og myndarlegt hjartaáfall fyrir rúmum sautján árum sem fékk ekki rétta meðferð í fyrstu þannig að afleiðingarnar urðu heldur dramatískari en þær hefðu þurft að vera. Miklar skemmdir urðu á hjartavöðvnum og hef ég verið með mikla hjartabilun síðan og verulega skerta getu og lífsgæði.

-Auglýsing-

Erfiður vetur

Fyrir fimm árum síðan átti ég erfiðan vetur og var ég í kjölfarið sendur til Svíþjóðar þar sem meta átti hvort tími væri kominn til að skipta um í mér hjarta. Í stuttu máli varð niðurstaða þeirrar ferðar að sú stund væri ekki runninn upp en í ljós kom að hjartsláttartíðnin hjá mér væri í lægri kantinum og færi ekki mikið yfir 95 slög undir álagi. Í því ljósi var kannski ekki skrítið þó ég væri hálf tuskulegur. Auk þess var ég alltaf með mikið af aukaslögum sem drógu úr mér þróttinn.

Í Svíþjóð töldu þeir hins vegar að það væri reynandi að setja í mig gangráð til að sjá hvort ekki væri hægt að hressa Björninn við. Fyrir ekki svo mörgum árum var farið að setja gangráð í hjartabilaða og í sumum tilfellum gaf það góða raun en hjá öðrum breytti það kannski ekki svo miklu.

- Auglýsing-

Gangráðurinn stórbætir lífsgæði

Eftir rannsóknir hér heima varð niðurstaðan sú að setja í mig tveggja slegla gangráð sem er þá líka með bjargráðseiginleika ef á þyrfti að halda. Strax eftir ígræðsluna voru nokkur atriði sem breyttust strax og svo hefur listinn lengst með hverju ári.

  • Aukaslög hurfu nánast alveg
  • Meira úthald og ég endist lengur á daginn
  • Möguleiki á því að fara út úr húsi eftir kvöldmat
  • Meira öryggi og minni kvíði
  • Sjálfstraustið tók kipp
  • Gat gert meira með fjölskyldunni
  • Áræðnari að gera skemmtilega hluti
  • Aukin lífsgæði

Eins og þessi stutti listi gefur til kynna hafa orðið stórkostlegar breytingar á lífi mínu á þessum fjórum árum. Í ferðinni til Svíþjóðar fyrir fimm árum var ég búinn að sætta mig við það að hugsanlega þyrfti ég nýtt hjarta. Ég hef satt best að segja aldrei verið spenntur fyrir því að fá nýtt hjarta og hef alltaf verið spenntari fyrir því að hafa mitt eigið ef þess er nokkur kostur. En eitt af því sem ég sá þó sem kost við nýtt hjarta var sá möguleiki að ég gæti hjólað á reiðhjóli aftur sem mér fannst mjög spennandi.

Þessum hugmyndum var sem betur fer ýtt út af borðinu og gangráðurinn hefur svo sannarlega gert gott mót. Ég þurfti aðeins að venjast honum í fyrstu og má segja að fyrsta árið eða svo hafi farið í það. Nú hefur það gerst, eins og ég hef nefnt í pistlum hér á hjartalif.is að ég er farinn að hjóla á rafmagnshjóli og gangráðurinn á klárlega þátt í því. Hjólreiðunum fylgir mikil gleði og er ég afar þakklátur fyrir að þetta sé mögulegt.

Að lokum

Það er þyngra en tárum taki að fá hjartaáfall 37 ára og fá ranga greiningu og meðferð með þeim afleiðingum að erfið veikindi -sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir- setja mark sitt á lífið. Ég hef verið lánsamur að hafa í kringum mig gott fólk og frábæra fjölskyldu sem hefur reynst mér vel og rétt mér hjálparhönd þegar kjarkinn og kraftana hefur skort. Læknarnir mínir hafa verið duglegir við að reyna að finna út úr vandamálunum og komið með hugmyndir og lausnir sem gætu hjálpað og bætt lífsgæði mín.

Gangráðurinn var ein slík lausn og satt best að segja þá hefði ég aldrei trúað því hvað þetta litla appartat við viðbeinið mitt gæti haft jafn mikil og víðtæk jákvæð áhrif á líf mitt. Það er nefnilega ekki sjálfsagt að geta tekið þátt í lífinu með fólkinu sínu og er ég þakklátur fyrir að geta verið með.

Takk fyrir mig.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-