Skortur á svefni getur haft mikil áhrif á starfsemi gena líkamans. Ný rannsókn vísindamanna við Surrey-háskóla í Bretlandi sýnir að breytingar verða á liðlega 700 genum ef fólk fær ekki nægan svefn, jafnvel þótt aðeins sé um nokkurra daga tímabil að ræða. Svefnleysi hefur lengi verið álitið ýta undir ýmsa sjúkdóma, þ.ám. hjartasjúkdóma, sykursýki og offitu.Umrædd gen innihalda öll fyrirmæli um smíði prótína sem líkaminn framleiðir stöðugt til að endurnýja þau sem eyðast. Sum genin juku framleiðsluna, önnur minnkuðu hana. Niðurstaðan varð breyting á efnaskiptum líkamans en ekki vita menn nákvæmlega hvernig þessi umskipti hafa áhrif á heilsufarið.
Borin voru saman blóðsýni úr 26 mönnum sem fengu nægan svefn í eina viku við sýni úr þeim eftir viku þar sem þeim var meinað að sofa meira en sex stundir, að lokum var þeim haldið vakandi í allt að 41 stund. Í ljós kom að svæði sem hýsa meðal annars ónæmisvarnir líkamans urðu fyrir þessum áhrifum en einnig svæði sem stýra afturbata eftir meiðsl og viðbrögð við streitu.
„Það varð býsna mikil breyting á starfsemi margra ólíkra gena,“ sagði prófessor Colin Smith við Surrey-háskóla í samtali við BBC. „Ef við verðum ófær um að endurnýja gen eða bæta við nýjum frumum mun það valda tjóni á vefjum.“
Ekki er ljóst hve hratt genin jafna sig. Jim Horne, sérfræðingur í svefnrannsóknum við Loughborough-háskóla, varar í viðtali við Guardian menn við að draga of víðtækar ályktanir af niðurstöðunum. Fólk þurfi mismunandi mikinn svefn og auk þess skipti gæði svefns máli, ekki bara lengdin.
Ótímabær dauðsföll
» Horne bendir á að þátttakendur hafi getað verið streittir vegna svefnskorts undir lokin.
» Eldri rannsóknir hafa gefið vísbendingar um að svefnskortur valdi m.a. offitu og ótímabærum dauðsföllum.
Morgunblaðið 27.02.2013