-Auglýsing-

Streita og hjartað

Sigmundur Guðbjarnarson ritaði eftirfarandi pistil sem birtist á Eyjunni.is á dögunum en þar skrifar hann reglulega um heilsu og lífsstíl. Sigmundur hefur starfað sem vísindamaður og háskólakennari í Bandaríkjunum (1961-1970), við Háskóla Íslands (1970-2001) og við SagaMedica-Heilsujurtir frá 2000

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök á Íslandi. Helstu áhættuþættir þessara sjúkdóma felast í lífsstíl einstaklinganna; mataræði, hreyfingu, reykingum og streitu. Hér verður fjallað um rannsóknir á áhrifum streitu á hjartað.

„Hvaða áhrif hefur streita á hjartað?“ er mikilvæg spurning því streita er einn af áhættuþáttum hjartasjúkdóma. Streituvaldar eru í ýmsum myndum en erfitt hefur reynst að skýra og skilja hvernig mikil streita skaðar hjartað. Slík viðfangsefni eru mikilvæg þegar reynt er að auðvelda aðlögun að ýmiskonar streitu og auka streituþol.

Rannsóknir voru gerðar á tilraunadýrum þar sem áhrif streitu, aldurs og fæðufitu á hjartavöðvann voru könnuð en þetta eru áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma. Áhersla var lögð á efnasamsetningu í frumuhimnum í hjartanu. Þessar himnur eru  mjög mikilvægar því allir flutningar efna til og frá frumum eða frumuhlutum fara í gegnum slíkar himnur og er stjórnað af próteinum sem hafa aðsetur í þessum himnum.

Í þessum örþunnu himnum sitja fjöldi hormónaviðtaka sem taka við boðum sem berast t.d. með adrenalíni þegar þörf er fyrir hraðari og kraftmeiri hjartslátt vegna aukins álags eða aðsteðjandi hættu. Þar eru einnig önnur prótein sem annast flutninga efna inn eða út úr frumunni og þar eru ensím sem annast orkuflutninga o.s.frv. Himnurnar eru byggðar úr próteinum og ákveðnum tegundum fituefna sem nefnast fosfólipidar ásamt kólesteróli. Í þessum fituefnum eru m.a. fitusýrur, bæði mettaðar fitusýrur og einnig ómettaðar omega-3 og omega-6 fitusýrur.

Þessi fituefni móta það umhverfi sem hormónaviðtakarnir starfa í og hefur þetta umhverfi mikil áhrif á starfshæfni þeirra.  Ef þetta umhverfi í frumuhimnum breytist verulega hefur það áhrif á viðbrögð hjartans við örvun og streitu. Með aldri og fæðufitu breytist fitusýrusamsetning  þessara himnuefna í hjörtum bæði manna og dýra. Einnig verða marktækar breytingar á fituefnasamsetningu himnuefna í heilanum með aldri.

- Auglýsing-

Áhrif streituhormóna á hjartað
Rannsóknirnar beindust að efnafræðilegum þáttum streitu og streituaðlögunar. Rannsökuð voru áhrif ýmiskonar streitu á himnuefni í hjarta. Eitt streitulíkanið var að gefa tilraunadýrum vaxandi magn streituhormóna, gefa þeim t.d. adrenalín daglega í 15 daga. Þessir hormónar valda m.a. örari hjartslætti og auka vinnuálag hjartans, en adrenalínmagn vex t.d. í blóði manna við álag og ótta. Samfara þessu streituástandi verða miklar breytingar á efnasamsetningu í hjartavöðvafrumum.

Eftir tveggja vikna gjöf streituhormóna líktist efnasamsetning í frumuhimnum því sem mældist í gömlum dýrum. Á vissan hátt virtist þessi streita valda hraðfara öldrun í þessum frumum en þessar breytingar gengu til baka að hluta þegar streituástandi var aflétt. Þegar álagið á hjartað var aukið með slíkum streituhormónum leiddi það oft til truflana á hjartsláttartíðni og til skyndilegs hjartadauða dýranna.

Mataræðið eða fæðufitan hafði mikil áhrif á tíðni þessa skyndidauða. Unnt var að draga úr tíðni slíks skyndidauða með því að gefa dýrunum þorskalýsi eða omega-3 fitusýrur í fóðrið og auka þannig streituþolið.

Áhrif streitu á nýbura
Samskonar rannsóknir voru gerðar á ungum á nýburaskeiði, þ.e. á fyrstu þremur vikum eftir fæðingu. Á þessum tíma verða miklar breytingar í hjörtum unganna en þessar breytingar gengu að mestu til baka þegar dýrin náðu tveggja mánaða aldri. Breytingar þessar voru áþekkar þeim sem verða við gjöf streituhormóna.

Hið nýfædda ungviði aðlagast gjörbreyttum lífsskilyrðum. Það verða miklar breytingar á störfum og starfsháttum hjarta og lungna, breytingar verða á næringarefnaframboði þegar móðurmjólkin verður aðal efna- og orkugjafi og fleiri breytingar eiga sér stað. Aðlögun að þessum breyttu lífskilyrðum nýfæddra unga endurspeglast í breyttri samsetningu himnuefna í hjarta þeirra og líkist tímabundinni aðlögun að mikilli streitu og álagi. Ætla má að hliðstæðar breytingar verði í hjörtum nýfæddra barna fyrstu vikurnar.

Strangur megrunarkúr veldur mikilli streitu
Athyglisvert er að tveggja vikna strangur megrunarkúr hefur áþekk áhrif á hjartavöðva og mikið streituálag eða tíð adrenalín gjöf. Fullorðin tilraunadýr voru alin á venjulegu fóðri en voru sett í strangan megrunakúr og fengu aðeins fjórðung af daglegri fóðurgjöf. Eftir tveggja vikna megrun hafði líkamsþungi þeirra minnkað um tæp 13%. Það samsvarar því að maður sem er um 95 kg að þyngd léttist um 12 kg á tveimur vikum. Megrun þessi olli miklum breytingum á efnasamsetningu í frumuhimnum hjartans og voru breytingarnar þær sömu og verða við mikla adrenalín gjöf eða mikið streituálag. Áhrif megrunarkúra á hjartað hafa lítið verið rannsökuð. Tilhögun slíkra megrunarkúra gæti skipt miklu máli einkum ef viðkomandi einstaklingur er með kransæðasjúkdóm og er þá viðkvæmari fyrir miklu streituálagi.

Heimildir:

Hér er getið heimilda til þess að menn geti kynnt sér efnið betur.
Hvernig getur streita haft áhrif á hjarta? Guðbjarnason S. Heilbrigðismál 1998; 46: 25-27.

- Auglýsing -

Neonatal changes in fatty acid profile of phospholipids in rat heart muscle. Gudmundsdottir A, Gudbjarnason S. Biochim. Biophys. Acta. 1983; 752: 284-290.

Fatty acyl chain composition in myocardial lipids in relation to age, diet, stress and coronary artery disease. Gudbjarnason S, Emilsson A, Hallgrimsson J, Gudmundsdottir A. In “Myocardial Ischemia and Protection”. Ed. H Refsum, P. Jynge, O D Mjös. Churchill Livingstone; 1983: 79-89.

Reversible alterations in fatty acid composition of heart muscle membrane phospholipids induced by epinephrine in rats fed different fats. Benediktsdottir V E, Gudbjarnason S. J. Lipid Res. 1988; 29: 765-772.

Fatty acid composition of phospholipids in heart muscle modified by age, diet, and stress. Gudbjarnason S, Benediktsdottir V E. CRC Handbook of Free Radicals and Antioxidants in Biomedicine. Ed. J Miquel, A T Quinanilla, and H Weber. 1989; 3: 67-74.

Combined effects of age and dietary fat on beta 1-receptors and Ca2+ channels in rat hearts. Gudmundsdottir E, Benediktsdottir V E, Gudbjarnason S. Am. J. Physiol. 1991; 260: H66-72.

Coregulation of adrenoceptors and the lipid environment in heart muscle during repeated adrenergic stimulation. Gudbjarnason S, Benediktsdottir V E. J. Mol. Cell. Cardiol. 1995; 27: 243-251.

Effects of ageing and adrenergic stimulation on alpha 1- and beta-adrenoceptors and phospholipid fatty acids in rat heart. Benediktsdottir V E, Skuladottir G V, Gudbjarnason S. Eur. J. Pharmacol. 1995; 289: 419-427.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-